25.11.1948
Neðri deild: 21. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

2. mál, síldarbræðsluskip

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson):

Þó að n. hafi klofnað, þá legg ég líka til, að þetta frv. verði samþ. Hins vegar varð ágreiningur út af orðalagi á fyrirvara, sem ég vildi koma inn í nál., og þess vegna kem ég með sérstakt nál. Ég tel, að það hafi verið mjög varhugavert að kaupa svo gamalt skip til þessara hluta og að undirbúningur hafi hvergi nærri verið svo góður sem skyldi. Skipið átti að vera þannig úr garði gert, að hægt væri að nota það hvar sem væri við strendur landsins, eins og hugmyndin upphaflega var. Eins og nú er, er aðeins hægt að nota skipið til síldarvinnslu í höfnum inni, og sárafáar hafnir utan Reykjavíkur koma til greina. Eigi það fyrir skipinu að liggja að vera í Reykjavíkurhöfn, munu margir líta svo á, að eins gott hefði verið að byggja síldarverksmiðju í landi. Þetta er orsökin til þess, að ég taldi mig ekki geta skrifað undir nál. fyrirvaralaust. Nú hefur skipið hins vegar verið keypt, og þær breytingar, sem nauðsynlegt hefur þótt að gera á því, eru langt komnar. Ég tel því, að það komi ekki til mála að neita um innflutning á því, þar sem það mundi valda miklu tjóni, en ég vil undirstrika það, að málið hefur ekki verið nægilega undirbúið.