22.04.1949
Efri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í C-deild Alþingistíðinda. (3777)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil leiðrétta misskilning, þar sem hv. 1. þm. N-M. virtist álita, að frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna hefði verið hjá fjmrh. Það er rangt. Það mál hefur verið meðhöndlað í dómsmrn. Það hefur verið þar áður en ég kom í rn. Og án þess að ég sé því kunnugur, hver hefur fengið Gunnar Thoroddsen til þess að undirbúa það frv., þá þykir mér líklegast, að það hafi verið Finnur Jónsson, en ekki forsrh. fyrrv. (PZ: Bréfið er undirskrifað af Ólafi Thors.) Málið hefur verið meðhöndlað í dómsmrn. og hefur verið talið eiga heima þar. En það getur verið, að þessi hv. þm. hafi þetta bréf með höndum, eins og þau leyniskjöl, sem hann óbeint gaf til kynna áðan, að hann hefði um annað mál. Ég skal annars ekki vefengja, að fyrrv. forsrh. hafi fengið Gunnar Thoroddsen til þess að vinna þetta starf. En málið hefur verið meðhöndlað í dómsmrn. — Ástæðan til þess, að þetta frv. hefur ekki verið lagt fram, — en það er þegar í meginatriðum samið af þeim, sem það var falið, — er, að þarna eru ákaflega vandasöm og viðkvæm atriði, sem þarf að gera sér grein fyrir, áður en málið er lagt fyrir þingið. Það er vitað mál, að Samband starfsmanna ríkis og bæja hefur ákveðnar óskir fram að bera í þessu. Þeir hafa verið í sambandi við Gunnar Thoroddsen, sem þegar er búinn að vinna mjög mikið og gott starf í þessu máli. En þar hefur enn borið nokkuð á milli. Og ég hef sannast sagt talið, að það væri meira um vert að reyna til þrautar, hvort samkomulag gæti orðið um þessi meginatriði til frambúðar, heldur en að drífa frv. inn í þingið nokkrum mánuðum fyrr en ella hefði orðið. — Ég efast ekki um, að hv. 1. þm. N-M. hefði getað samið frv. um þetta efni á einni kvöldstund, sem hefði verið álíka vandað og annað, sem frá honum kemur. En hitt er annað mál, hvort almenningi í landinu hefði verið mikill vinningur að slíku. Þessi mál eru ekki þannig, að hægt sé að kasta til þeirra höndunum, og allra sízt þegar þetta snertir heilar starfsstéttir, sem telja, að á sinn hlut hafi verið gengið, og vilja ekki sætta sig við, að frv. hafi í sér fólgnar réttarskerðingar, sem hv. 1. þm. N-M. virðist vilja. Um þetta skal ég ekki dæma efnislega á þessu stigi. En ég er viss um, að málið hefði ekki grætt á því að vera þvingað fram á þeim tíma, er það var í höfuðatriðum tilbúið, heldur tel ég til góðs að velta þessu fyrir sér þangað til gott samkomulag næst. Ef samkomulag næst ekki um þetta, þá verður að hafa það, þá kemur frv. þannig fram væntanlega fyrir næsta þing. En ég hef talið rétt að gera tilraunir til hins ýtrasta til þess að ná samkomulagi um þessi mál, og má lá mér það hver, sem vill. En það er ekki vegna þess, að ekki sé búið að leggja þá grundvallarvinnu í frv., sem í sjálfu sér tekur mestan tíma í sambandi við samningu þess, að málið hefur ekki komið fram enn í þinginu. Það er því ástæðulaust að vera með hnútur í garð borgarstjórans í Reykjavík út af undirbúningi þessa máls, né heldur þá það dagatal, hversu oft hv. þm. Snæf. sitji þingfundi. Það var einkennilegt að heyra þetta frá hv. 1. þm. N-M. og svo á hinn bóginn afsakanir þessa sama hv. þm. fyrir einn þingbróður okkar hér í d., sem hlaupizt hefur burt úr bænum nýlega. Ég tel óviðeigandi, að hv. 1. þm. N-M. sé með hnútur í garð fjarstadds þm., og ástæðulaust að blanda því í þetta mál. — Hitt finnst mér eðlilegt, að hv. 1. þm. N-M. beri fram brtt. um aukinn starfstíma opinberra starfsmanna. Það er þess háttar atriði, að mér finnst eðlilegt, að Alþ. taki afstöðu til þess, svo að mér finnst það vera mjög að vonum, og vil ég þakka hv. 1. þm. N-M. fyrir, að hann vill gefa hv. þm. kost á að taka afstöðu til þess máls. Það er ástæðulaust að kasta hnútum að ríkisstj. í þessu efni. Þetta mál hefur Alþ. í hendi sinni, hvenær sem það vill taka afstöðu til þess. Og það er gott, að hv. 1. þm. N-M. hefur gefið þinginu tækifæri til þess að gera það.