22.04.1949
Efri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í C-deild Alþingistíðinda. (3779)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Mér kom það nokkuð á óvart, að þetta mál, sem er næst síðasta málið á dagskránni fyrir þennan fund af tíu málum, yrði nú tekið fyrir. Ég skal játa, að þetta mál hefur verið á dagskrá síðustu funda hér í hv. d., en ekki hefur að því komið, þannig að það væri tekið fyrir á þeim fundum. Og m. a. af því var ég óviðbúinn með brtt., sem bæði ég og hv. 7. landsk. (GÍG) höfðum hugsað að leggja hér fram við þetta frv. Mér er náttúrlega ljóst, að það verður að skera úr um þetta mál eins og önnur með atkvgr., svo að fram komi, hvaða fylgi það á. Og þó að þessi dráttur hafi orðið hjá okkur nú með þessar brtt., sem ég vil ekki segja, af hverju stafar að öllu leyti, en er m. a. af því, að önnur mál hafa verið til meðferðar á þinginu, sem hafa verið metin að ýmsu leyti meira. En úr því sem komið er, ef það er ætlun hæstv. forseta að hespa málið hér af á þessum fundi, þá þykir mér það miður, ef að því er stefnt, því að ég tel mig hafa rétt til þess að leggja fram brtt., þó að þær fengju ekki náð hjá hv. þd. Má segja, að engan sé um þetta að saka, að brtt. eru ekki enn komnar fram, nema mig og hv. 7. landsk. þm., sem hefur hugsað sér að standa að brtt. ásamt mér. Ég mundi vilja lofa því, að þær brtt., sem við höfum hugsað okkur að gera, skyldu vera komnar fram á morgun. Ég veit ekki, hvenær hæstv. forseti hugsar sér að halda hér næsta fund. En ég hygg, að það skipti ekki miklu máli, hvort þetta mál er afgr. hér í dag eða síðar. Ég get hugsað, að það væri ávinningur fyrir málið sjálft og því færri orð kannske um það sögð, ef við gætum flutt okkar brtt. Ég hef ekki formað brtt., og vil ekki leggja hana fram nema í samráði við meðflm. minn, sem er hér ekki nú.

Ég býst nú við, að ég geti sætt mig við þá brtt., sem á þskj. 482 er komin fram við 2. gr. frv. Þó er það eftir atvikum, hvort hv. meðflm. minn að væntanlegum brtt. vildi hafa þar einhvern annan hátt á. Í frv. er gert ráð fyrir því, að þessi ráðsmaður sé skipaður, þannig að stofnað sé fast embætti þarna af forseta Íslands og skipað í það eins og hvert annað embætti, sem ekki er hægt að leggja niður. En ég er þeirrar skoðunar, að hér sé fulllangt gengið í þessu efni, að hafa þetta embætti þannig skipað, eins og hér er ætlazt til. Og ég hef áður bent á, að það mundi koma að sömu notum fyrir sjónarmið þeirra manna, sem telja nokkuð unnið við þessa ráðstöfun, þó að maðurinn væri settur fyrst, og þá fengist nokkur raun af honum og þessu starfi, t. d. í eitt til tvö ár til að byrja með. Og mætti þá svo verða, ef það þætti gefa góða raun að hafa þetta starf, að þá yrði þetta gert að föstu embætti, en ef það þætti ekki ná þeim tilgangi, sem til var ætlazt, þá yrði þetta starf lagt niður. Þess vegna er ég enn á þeirri hugsun, að rétt sé að haga þessu þannig, að hér sé ekki slegið því föstu, að stofnað sé fast embætti, sem forseti Íslands skipi embættismann í. — En ég hef hugsað, og hv. væntanlegur meðflm. minn að brtt. líka, að leggja til nokkra orðabreyt. á 5. gr. frv. Ég mun hafa bent á það fyrr við umr. um þetta mál, að torvelt mundi verða fyrir þennan mann, svokallaðan ráðsmann ríkisins, að fylgjast með öllu, sem lýtur að iðnaði, iðju, og því, sem lýtur að afgreiðslustörfum hjá ríkisstofnunum og starfsmönnum ríkisins, eins og í frv. hermir og eins og skilja mætti, að meint væri með þessari 5. gr. þess. Og þá gæti það einnig gengið svo langt, að hann yrði að hafa áhrif á ráðningu manna, sem ynnu tímavinnustörf. Þetta hygg ég, að mætti laga í frv. En í sambandi við iðnað og iðju er ekki í þessu sambandi um fastráðið fólk að ræða, heldur fólk, sem vinnur í tímavinnu.

Ef hæstv. forseti verður við því að fresta umr. um þetta mál nú á þessum fundi, skal ég ekki fara fram á frekari frestanir á málinu, þó að ég hins vegar játi, að það er eins og það sé verið að laumast til þess að afgreiða þetta mál, þegar svo og svo margir þdm. eru hér ekki til staðar, sem andstöðu hafa sýnt þessu máli, þ. á m. tveir hv. nm., sem báðir hafa lýst í nál., að þeir hafi ekki tekið afstöðu til málsins. Þess vegna hefði ég óskað þess, að málinu yrði frestað, þó að ekki væri nema til næsta fundar.