25.11.1948
Neðri deild: 21. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

2. mál, síldarbræðsluskip

Jóhann Hafstein:

Mig langar til að leggja nokkur orð í belg. — Það er dálítið einkennilegt þegar hv. þm. Siglf. kemur hér fram og prédikar varúð. Loks nú var útbýtt frá honum nál. á þskj. 139, og er það langt mál. Og allt eru þetta sleggjudómar um kaupin á Hæringi, sem fást alls ekki staðizt. Það, sem hv. þan. Siglf. segir um kaupin á skipinu, er allt úr lausu lofti gripið. Hv. þm. veittist að ákveðnum mönnum í langri frásögn sinni í nál., og ræðst hann þá helzt að Sveini Benediktssyni og mér. Mér finnst því rétt að gera hér í hv. þd. nokkra grein fyrir kaupum á Hæringi til þess að hnekkja hinni villandi frágögn í nál. minni hl. á þskj. 139.

Hv. þm. Siglf. byrjar nál. sitt fullur vandlætingar og fjargviðrast mikið yfir því, að keypt hafi verið gamalt skip, sem skipaskoðunarstjóri ríkisins hafi orðið að gefa fyrir sérstaka undanþágu. Er það kom til mála að festa kaup á þessu skipi, sem er að vísu nokkuð gamalt, en um önnur skip, sem breyta mætti í síldarbræðsluskip, var vart að ræða, þá var skipaskoðunarstjóri spurður, hvort hann mundi gefa undanþágu fyrir þessu skipi, sem var nokkru eldra en reglur um innflutning skipa gera ráð fyrir. Var það þá og tilskilið, að nauðsynleg klössun og breytingar hefðu fram farið á skipinu, áður en það yrði tekið í notkun. Mig furðar því, að hv. þm. Siglf. skuli tala svo út í hött. Þá var hv. þm. að reyna að gera það eitthvað undarlegt í augum manna, að skip þetta skuli hafa verið keypt á vesturströnd Bandaríkjanna. Ætli skip, sem smíðuð eru þar og seld þar, séu nú ekki eins góð og annars staðar á hnettinum? En hv. þm. veit nú ekkert um önnur skip. Það er því algerlega út í hött, er hv. þm. tekur þetta svona upp, að það væri einhver goðgá, að skipið væri keypt á vesturströnd Bandaríkjanna. Þá segir hv. þm. Siglf. enn fremur, að í stað Hærings hefði átt að kaupa sterkt skip: En er þetta ekki einmitt sterkt skip? Þeir, sem kunnugir eru þessum málum, ljúka upp einum munni, að Hæringur sé sterkt skip. Þetta skip er byggt á þeim tíma, er skip voru sterklegar og betur byggð, en skip seinni tíma. Stafar slíkt af því, að áður fyrr var gert ráð fyrir, að skipin þyrftu lengri útivistar á siglingum, og lentu þau þá oft í mjög miklum hrakningum, en leitazt var við að gera þau þannig úr garði, að þau yrðu sem traustust, þegar á reyndi. Hv. þm. talaði um, að reynandi hefði verið að leita hófanna um kaup á skipi á austurströnd Bandaríkjanna engu síður, en á vesturströndinni. Frá þeirri hlið málsins er það að skýra, að það var athugað með skip, sem kynnu að vera föl þar. En þar virtist ekki vera um annað að ræða en stríðsskip, þ.e. skip, sem byggð voru í stríðinu. Er við leituðum að skipi vestra, höfðum við í huga ákveðna gerð af skipum, sem notuð voru til herflutninga í stríðinu. En þau skip eru öll mjög miklu minni en Hæringur. Þessi skip gátu vissulega komið til greina, en aðalástæðan til þess, að ekki var eitt þeirra keypt, er sú, að þau eru 2 þús. smálestum minni en Hæringur. Skip, sem nota skyldi til síldarbræðslu, þyrfti að vera stærra og sterkara. Varð það því að ráði, að stjórn Hærings ákvað að hætta við kaup á þessari gerð skipa. Þá má geta þess, að mörg tilboð um skip bárust frá Bretlandi og Hollandi. Er öll þau tilboð höfðu verið athuguð af stjórn Hærings, fannst okkur ekkert skip líklegra, en kaupin á Hæringi, þessu skipi, sem hv. þm. Siglf. bolast svo mjög út af. Stjórn h.f. Hærings var mjög tímabundin í afgreiðslu þessa máls. Er það var ákveðið s.l. haust af bæjarstjórn Reykjavíkur og ýmsum útgerðarmönnum að kaupa síldarbræðsluskip, þá var ákveðið að framkvæma verkið á einu ári. Það var um mánaðamótin nóvember–desember í fyrra, sem ákvörðun var tekin um þetta, og hafði þetta þær afleiðingar, að ekki var hægt að leita tilboða frá eins mörgum löndum heims og annars hefði kannske orðið. Í öðru lagi má geta þess, að það varð að ráða nokkru, hvernig tryggt yrði, að nauðsynlegar breytingar gætu fram farið á skipinu sem fljótast, eftir að kaup hefðu verið gerð. Það reyndist svo sem stjórn Hærings bjóst við, að þar var hægt að komast að beztu samningum í því efni. Orsök þess, hversu vinnuframkvæmdir við breytingu á skipinu gengu vel, er, að tiltölulega lítið var um skipavinnu á hinum stóru skipasmíðastöðum á austurströnd Bandaríkjanna. Vegna þess var hægt að fá þessa vinnu svo fljótt framkvæmda, og er það nokkuð annað en segja má um skipasmíðastöðvar í Evrópu, sem allar eru yfirhlaðnar verkefnum. Þetta ætti hv. þm. Siglf. að vera ljóst, er hann hefur nú fengið málið skýrt fyrir sér.

Í sambandi við kaupin á Hæringi má geta þess, að Ólafur Sigurðsson forstjóri landssmiðjunnar fór með Jóni Gunnarssyni til Ameríku til þess að vera með í ráðum að afgera kaupin á Hæringi. En hv. þm. Siglf. heldur því fram, að Jón Gunnarsson hafi verið algerlega einráður í þessu efni. Ég vil vísa algerlega á bug þeirri staðhæfingu hv. þm., að sérfræðingar hafi eigi verið spurðir ráða með kaupin. Skip þetta, sem keypt var, hafði verið selt til Ítalíu, en kaupin á því gengu til baka sökum þess, að hið ítalska skipafélag sá, þegar til kom, að það gat ekki leyst skipið út. Og er nú þetta skip komið hingað til landsins. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda hv. þm. á, að það hefur engu skakkað með að koma þessu fyrirtæki upp frá því, sem ráðgert var, og er það meir en segja má um mörg önnur fyrirtæki, sem áætlanir hafa verið gerðar um. Það ætti hv. þm. Siglf. manna bezt að vita. Almennt gerðu menn ekki ráð fyrir, að skipið yrði tilbúið á svo skömmum tíma, og er mér því sérstök ánægja að lýsa því yfir hér í dag, að á þessari stundu er verið að reyna vélar Hærings. Er skipið kom til Reykjavíkur í miðjum október s.l., lét fyrirtækið það í ljós við fréttamenn, að það yrði tilbúið að taka á móti síld til bræðslu um næstu áramót. En nú er skipið tilbúið mánuði fyrr en gert var ráð fyrir. Má segja, að það sé fyrr en venja er með aðrar framkvæmdir hér á landi.

Þá eru það ásakanir hv. þm. Siglf. um það, að Sveinn Benediktsson og ég höfum einir viljað ráða öllu í þessu máli og að við hefðum reynt að bolast eftir fremsta megni og þótzt á öllu kunna ráð, en engum ráðum viljað hlíta frá fagmönnum. Þessi ummæli hv. þm. finnst mér minna á mannýgt naut í flagi. Ég skil ekki þær hvatir, sem til þess liggja, að bera slík ummæli fyrir hv. þd. í nál. Þetta er ekki til annars en að brosa að, en kann hins vegar að lýsa innri manni þess þm. og þeim hvötum, sem hann ber til þessa máls. Ég tek alls ekkert nærri mér, þó að þessi maður reyni að kasta að mér einhverjum hnútum.Ég hef reynt að stuðla að því eftir minni getu, að þetta fyrirhugaða fyrirtæki kæmist upp, og hef lagt áherzlu á að fá álit sérfróðra manna um veigamestu atriði málsins, en reynt að ýta undir, að fyrirtækið kæmist upp á tilsettum tíma. Það má að sjálfsögðu margt finna í meðferð þessa máls, sem betur hefði mátt fara. Svo er ávallt. En í öllum undirbúningi þessa máls var tími um allar áætlanir mjög takmarkaður. Þrátt fyrir þetta tókst stjórn Hærings að standa við þær áætlanir, að skipið komst upp fyrir tilsettan tíma. Einnig má geta þess, að þær áætlanir, sem fyrir lágu um kostnað við kaup og breytingu skipsins, voru mjög í efa dregnar, en enn er skipið innan þeirra takmarka, sem áætlað var. Að vísu er enn verið að vinna við skipið, en fullvíst má telja, að skipið fari ekki fram úr 7–8 millj. kr., eins og gert hefur verið ráð fyrir. Það er nokkuð annað að segja um fjárhagsáætlanir annarra síldarverksmiðja, sem byggðar hafa verið hér á landi, sem farið hafa allt að helmingi fram úr áætlun. Að vísu hafa verið ýmis fleiri mannvirki í sambandi við þær en fljótandi verksmiðju, t.d. síldarþrær, sem hleypa verði mjög upp. Hins vegar eru í Hæringi stórar geymslur fyrir lýsi og mjöl.

Út af ummælum eins dagblaðs bæjarins, Alþýðublaðsins, um það, að legið hafi við, að Hæringi hefði hvolft, þar sem hann lá við bryggju, en hún hafi varnað því, að skipið legðist á hliðina, þá vil ég leiðrétta hér þessa furðulegu frétt blaðsins. Þessi ummæli hljóta að byggjast á misskilningi fréttamannsins. Hann hefur séð skipið hallast og getið sér til orsök þess án þess að leita upplýsinga um málið. Það var fyrir nær hálfum mánuði, að verið var að reyna tanka skipsins, að einn af tönkunum fylltist fyrr en gert var ráð fyrir. Tók þá skipið að hallast allmikið, eða um 30°. Þetta er allmikill halli á skipi, en sannar á engan hátt, að um lélega botnfestu skipsins sé að ræða, og bryggjan hefði ekki veitt neina vörn, ef um slíkt hefði verið að ræða, heldur hefði skipið farið út undan sér og á hliðina, ef svo hefði verið. Fréttamanninum hefur ef til vill þótt sem svo, að hér væru tíðindi, sem birta mætti með gleiðletraði fyrirsögn, og það má vera, að fréttamaðurinn hafi haft einhverjar svipaðar hvatir í garð þessa fyrirtækis og hv. þm. Siglf. — Mér er sannast að segja alveg óskiljanleg sú löngun þm. Siglf. og annarra hans líka, að þeir skuli reyna að gera þetta fyrirtæki eins tortryggilegt og raun er á. Það kann að vera, að þetta sé eins konar barnasjúkdómur, sem þessir menn þjást af út af þessari fyrstu fljótandi síldarverksmiðju landsmanna. En þrátt fyrir allt miðar þessu máli vel áfram. Vonandi kemur reynsla á þetta fyrirkomulag á síldarbræðslu hér við land, ef síld veður og veiðist.