29.04.1949
Neðri deild: 95. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í C-deild Alþingistíðinda. (3811)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. er samið af sparnaðarnefnd, sem sett var til að athuga ýmsar leiðir til aukins sparnaðar fyrir ríkið, en hugmyndin er komin frá hv. fjvn. Alþingis. Ég ætla, að grg. sú, sem frv. fylgir, sé nægilega skýr, svo að ég þurfi ekki að hafa hér langa framsögu. Frv. var rætt ýtarlega í Ed., og var þar að vísu breytt 2. gr. frá því, sem ég hafði gert að till. minni, að eftirlitsmaðurinn yrði skipaður, í það form, að hann skyldi settur eitt ár til reynslu, áður en hann yrði skipaður. Þó að aðstaða hans sé að mínu áliti veikt við þetta, þá er hún enn allsterk, og mér er það enn áhugamál, að Alþingi stigi það spor í áttina til eftirlits í þessum efnum, sem nauðsyn krefur. Ég skal geta þess, að gerð var tilraun í Ed. til þess að vísa frv. frá á þeim forsendum, að fjmrh. hefði alla þræði þessara mála í hendi sér, en sú till. var felld, enda hefur fjmrh. ekki það vald að ábreyttum aðstæðum, sem gert er ráð fyrir að fela þessum eftirlitsmanni. Ég tel það fullkomlega réttmætt hjá hv. fjvn. að vilja auka eftirlit með ríkisstofnunum, og vænti þess, að hv. þm. vilji greiða fyrir því að koma því eftirliti á fót og í það form eins og lagt er til í frv. Þetta frv. var hjá fjhn. í Ed., og vildi ég mælast til, að það færi einnig til fjhn. hér að lokinni þessari umr.