25.11.1948
Neðri deild: 22. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

2. mál, síldarbræðsluskip

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson):

Það, sem hæstv. samgmrh. sagði hér við þessar umr., virðist benda til þess, að samgmrn. og hann sem sá umboðsmaður, sem hefur með þetta að gera, hafi verið settur fram fyrir sams konar orðinn hlut eins og Alþingi og við í sjútvn., að það er búið að kaupa skipið, þegar sótt er um leyfi til innflutnings fyrir það, svo að rn. verður að veita innflutningsleyfi, ef það vill ekki baka þeim aðilum mikið fjárhagslegt tjón, sem hafa lagt fé í þetta fyrirtæki. Ég sé vel aðstöðu hæstv. samgmrh. Það er eðlilegt, að hann horfi í að gera slíkt. Sama sjónarmið er hjá mér og öðrum nm. í sjútvn. Við erum ekki spurðir, hvort heppilegt sé að flytja inn þetta skip. Það er bara verið að fá formsatriði, eftir að búið er að flytja skipíð inn, svo að það er ekki hægt að snúa við nema með miklum fjárhagslegum skaða. En þó að maður hefði getað afsakað að bíða ekki eftir, að þing kæmi saman, þá er ekki hægt að afsaka það að vera svo flaumósa að rjúka til að festa kaup á skipinu án þess að hafa samráð við hæstv. samgmrh., sem á að veita innflutningsleyfið. Ég get á engan hátt ásakað hæstv. samgmrh., þó að hann veiti innflutningsleyfi, þegar málið berst honum svona í hendur, en þetta sýnir, að orð mín í nál. um undirbúning þessa máls eru sannarlega orð í tíma töluð, og hefði verið mikið við það unnið, ef þingið eða einhverjir aðrir utan við þessa þröngu klíku, sem öllu hefur ráðið, hefðu fengið eitthvað um málið að fjalla og láta í ljós aðvaranir til þeirra, sem æddu áfram án þess að horfa til hægri eða vinstri og vissu ekkert, hvað þeir voru að gera.

Hv. 7. þm. Reykv. sagði, og það átti að vera til að réttlæta hans hröðu handtök í þessu máli: Ég hef lítið vit á þessu máli, en ég fór eftir því, sem þeir sögðu, sem voru mér meiri að þekkingu og reynslu. Ég veit, hver það var, sem reynsluna hafði. Það var Sveinn Benediktsson, og sá, sem hafði meiri þekkingu, var Jón Gunnarsson. Ég veit, að þm. sjálfur var ekki nema toppfígúra, og hann gerði ekkert nema það, sem honum var sagt.

Það er misskilningur hjá hv. 7. þm. Reykv., að ég sé að veitast að honum og Sveini Benediktssyni, síður en svo. En ég tók fram í nál. mínu, að ég tel illa haldið á þessu máli, farið að því með lítilli fyrirhyggju og því flaustrað af. Hv. þm. viðurkenndi líka, að það hefðu verið snör handtök í þessu og verið gæti, að mistök hefðu átt sér stað, en þeir hefðu haft svo lítinn tíma til stefnu. Ég álít þetta ekki næga afsökun, þegar um svo stórt fyrirtæki er að ræða. Það er ekkert höfuðatriði, hvort skipið kemur mánuði fyrr eða seinna. Aðalatriðið var að rannsaka þetta mál allt sem bezt.

Hv. þm. segir, að ég hafi verið með ástæðulausar aðdróttanir og hafi skringilega skapsmuni. Þetta eru brosleg ummæli, þegar það er athugað, að um þetta mál hefur enginn fjallað, sem er fagmaður í síldariðnaði, nema ef á að telja Jón Gunnarsson það, sem ég dreg þó í efa. Hann hefur að vísu nokkra reynslu af rekstri síldarverksmiðja, en hann er ekki vélaverkfræðingur. Sveinn Benediktsson er því síður neinn sérfræðingur, þó að hann hafi verið með nefið í þessu langan tíma. Það hefur enginn vélaverkfræðingur verið spurður ráða. Að vísu var Ólafur Sigurðsson látinn athuga skipið, þegar það var keypt, en hann var aðeins látinn athuga þau skip, sem Jón Gunnarsson hafði á hendinni. Ég vil taka fram út af orðum hv. þm., að þetta orðalag „hafði á hendinni“ er tekið upp úr skýrslu, sem hann hefur undirritað sem formaður í n., sem kosin var af bæjarstj. til að hafa þetta mál með höndum.

Ólafur Sigurðsson skoðaði sem sagt þetta skip og telur það vera sjófært, en vill ekki mæla með, að það verði sent á haf út í hvers konar veðrum sem er, en komið gæti til mála að hafa skipið sem pramma, sem mætti draga milli hafna, og þá mætti láta það fljóta. Skipið hefur verið klassað, og þá kom í ljós mikill galli á botni þess, sem ameríska klössunarfélagið tók að vísu gilt, að yrði látið eiga sig, en ekki er vissa fyrir, hvað alvarlegt er. En ef þarf að taka stórt stykki úr botni skipsins, margar plötur, þá er þar ekki lengi að koma stór fúlga, og Jón Gunnarsson þorir ekki að segja meira en að það sé hægt að láta það drasla 15 ár eða svo.

Nú vil ég spyrja hv. þm.: Hver var sendur til að athuga önnur skip, sem tilboð voru um? Vill hann svara því? Nei. Það voru sendir aðeins tveir menn út til að athuga þessi skip. Annar var Jón Gunnarsson, hinn var Ólafur Sigurðsson. Og þeir voru sendir til að athuga skip í Ameríku. Það bætir að vísu heldur um, að þeir bundu sig ekki eingöngu við vesturströndina, heldur skoðuðu líka skip á austurströndinni. Og það er að vísu rétt, að skip, sem Jón Gunnarsson hafði fest sér á hendi, voru ekki keypt, heldur þetta, en það er frá sama félaginu, sama sambandinu, svo að það er bert, að Jón Gunnarsson hefur líka haft það sér á hendi.

Nei, stjórn Hærings gerði ekkert til að rannsaka, hvort hægt væri að fá skip annars staðar. Hv. 7. þm. Reykv. ætti að gera grein fyrir, hvernig stendur á því. Eina afsökunin, sem hann kemur með, er sú, að félagið hafi haft svo lítinn tíma, að það hafi orðið að fara þessa leið. En ég vil benda hv. þm. á, að það er ekki lengra til Hollands eða Englands en til Ameríku. Það hljóta því að hafa verið einhver sérstök sjónarmið, sem ollu því, að ekki var leitað þangað, heldur aðeins til þessa eina sambands.

Hv. þm. var reiður skipaskoðunarstjóra, að hann skyldi láta í ljós álit sitt á þessum skipakaupum. Hann átti ekkert að segja nema já eða nei. Vill hann mæla með þessum skipakaupum? Já eða nei. Annað mátti hann ekki segja. Skipaskoðunarstjóri tók Súðina til samanburðar. Hv. þm. hefur áreiðanlega heyrt talað um það skip. Ég man ekki eftir því, síðan Súðin var keypt, að nokkrar kosningar hafi farið svo fram, að því hafi ekki verið slegið upp með geysilegum fyrirsögnum í öllum blöðum Sjálfstfl., hvílík herfileg mistök það hafi verið að kaupa Súðina, en skipaskoðunarstjóri bendir á þá staðreynd, að Súðin hafi þó ekki verið nema 25 ára, þegar hún var keypt, en Hæringur sé 45 ára, en það eru einmitt þeir menn, sem mest hafa geipað um aldur Súðarinnar, sem keyptu Hæring. Þetta er staðreynd, sem kemur illa við þessa menn. En það er eðlilegt, að skipaskoðunarstjóri beri saman við kaupin á þessu skipi það skip, sem mest hefur verið um rætt, og það fyrir atbeina Sjálfstfl., af öllum þeim skipum, sem keypt hafa verið hingað til lands. Það gætir nokkurs misræmis í því, að þegar sjálfstæðismenn hafa verið að ræða um Súðina, hafa þeir dregið af því þá einföldu ályktun, að skip, sem væri 25 ára, gæti ekki verið sterkt, en nú reiknar hv. 7. þm. Reykv. Hæring út með einfaldri þríliðu: Fyrst skipið er 45 ára, hlýtur það að vera mjög sterkt, og af því að það er gamalt skip, hlýtur það að vera byggt miklu betur en þau, sem eru yngri, en þetta gildir ekki um Súðina, heldur aðeins um Hæring, af því að hann er 20 árum eldri en Súðin, þegar hún var keypt. Það er eðlilegt, að þessir menn séu gramir við skipaskoðunarstjóra, að hann skuli benda á svona staðreyndir.

En svo eru margar aðrar afsakanir fyrir því að kaupa þetta 45 ara. Það átti ekkert skip í veröldinni að henta betur. Það hlaut að vera, að þetta væri það hentugasta skip, sem hægt væri að fá. Ég held, að þessi fullyrðing sé heldur veik rök. Hv. þm. var að tala um, að ég væri með fullyrðingar, en hann fullyrðir, þar sem hann situr heima, að úti í löndum sé ekki til neitt skip fáanlegt, sem líklegra sé til að henta. Mér finnst það nokkuð mikil fullyrðing.

Svo var ein ástæða fyrir því að halda sér fremur að amerískum, en enskum skipasmíðastöðvum, en það var, að þær amerísku væru líklegri til að vinna með meiri hraða. Aðra eins fjarstæðu hef ég aldrei heyrt. Ég held, að við þurfum ekki að vera óánægðir með nýju togarana okkar eða afgreiðslu brezkra skipasmíðastöðva á þeim. Svo skulum við taka t.d. Braga. Hv. þm. veit, að það var amerísk skipasmíðastöð, sem smíðaði Braga, og það dróst miklu lengri tíma en hjá brezku stöðvunum. Nei, brezkar skipasmíðastöðvar eru viðurkenndar fyrir að vinna verk sitt vel, enda eru Bretar aldagömul siglingaþjóð og viðurkennd fyrir sínar skipasmíðar. Þetta sýnir því, hvað hv. þan. stendur á veikum ís, að hann skuli grípa til að reyna að afsaka fum sitt og þeirra, sem honum stjórna, með því, að brezkar stöðvar séu svo og svo lélegar. Það munar ekki miklu, að þetta skip sé forngripur, sem geti legið hér í okkar ágætu Reykjavíkurhöfn sem forngripur.

Ég held, að það sé svo ekki fleira, sem ég þarf að taka fram. Ég ætla ekki að ræða um niðursetningu vélanna og þess háttar. Ég tel, að vélarnar séu ófullkomnar. Ég tel, að sett hafi verið í skipið ófullkomið vélarusl, keypt af Óskari Halldórssyni með uppskrúfuðu verði. Þær eru frá California Press Mgf. Company, og þær hafa reynzt verri en þær, sem vélsmiðjan Héðinn hefur smíðað, en Jón Gunnarsson er þar umboðsmaður. Ég ætla ekki að draga það mál frekar inn í umr., það gefst tækifæri til þess síðar, en allur undirbúningurinn, vélakaupin og niðursetningin ber vott um sama fálmið, hroðvirknina og skeytingarleysið í undirbúningnum eins og kaupin á skipinu.