10.05.1949
Neðri deild: 105. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í C-deild Alþingistíðinda. (3820)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hafði í fjhn. skrifað undir með fyrirvara, eins og meiri hl. nm., og það er ekkert óeðlilegt, þótt nm. og fleiri þm. séu dálítið óvissir í afstöðu sinni til frv. Sannleikurinn er sá, að það er varla nokkurt mál, sem legið hefur fyrir þessu þingi, þar sem nytsemi eða ógagn er jafngersamlega komið undir þeim, sem hefur starfið með höndum. Það fer allt eftir því, hvernig teningarnir velta, hvort þetta yrði ágæt stofnun eða alls ómöguleg — viðauki við ríkisbáknið, sem kynni að markast af harðstjórn og óréttlæti. Það er því eðlilegt, að menn séu nokkuð fálmandi um afstöðu sína.

Hæstv. fjmrh. hefur fullyrt, að hvatir ríkisstj. til að flytja þetta frv. væru þörf á sparnaði og betri rekstri ríkisstofnana, sem hún vildi tryggja með þessu. Ef Alþ. ætti því að samþ. þetta frv. með tilliti til þess, að það væri af þessum hvötum sprottið, væri ekki óeðlilegt, að Alþ. byrjaði með því að spyrja, hvar þessi góði vilji hefði komið fram í till. hæstv. ríkisstj. til Alþ., því að svo framarlega sem á að spara, þá liggur valdið til þess hér á Alþ. Forustu- og framkvæmdanefnd Alþ. er, ríkisstj. og það er fyrst og fremst hennar hlutverk að koma hér fram með till. um sparnað og skynsamlegra og betra fyrirkomulag á ríkisrekstrinum. Það getur verið skynsamlegt og virðingarvert í sjálfu sér að setja sparnaðarnefnd, en ekki virðist mikil uppskera af erfiði hennar, þegar hennar höfuðtill. er að bæta við ríkisbáknið án allra annarra breytinga. Það hefur þó komið fram hér á Alþ., að ýmislegt er hægt að gera í sparnaðarátt, t. d. við innkaup á ýmsum vörutegundum, svo sem tóbaki, víni, grænmeti og viðtækjum, sem sérstakar stofnanir annast sitt hver. Og eftir að hæstv. ríkisstj. tók við völdum, bættist við ný stofnun, sem heitir, ef ég man rétt, Innkaupastofnun ríkisins. Hefði nú verið um verulega sparnaðarviðleitni að ræða hjá hæstv. ríkisstj., hefði legið nærri fyrir hana að sameina allar þessar ríkisstofnanir í eina. Að vísu má segja, að hér sé um vörur að ræða, sem séu að ýmsu leyti óskyldar, en ekki eru meiri brögð að því en hjá ýmsum einstökum heildverzlunum t. d. eða hjá S.Í.S. Ég viðurkenni, að ekki mundi neitt sparast við þetta hvað snertir t. d. geymslu eða afgreiðslu, en það yrði afgerandi sparnaður í sjálfu skrifstofuhaldinu, því að allt mætti sameina undir eina skrifstofu, sem annaðist t. d. innkaup, bréfaskriftir, sölu og þess háttar. Þetta skrifstofuhald yrði hlutfallslega miklu ódýrara, því að sú tækni, sem nú er hægt að beita á skrifstofum, er þannig, að ekki er hægt að koma hinni beztu tækni við nema á stærstu skrifstofum, þar sem mikið er að starfa. Þetta er sem sagt ein leiðin, sem hæstv. ríkisstj. hefði getað farið, ef hún hefði viljað sýna ákveðna sparnaðarviðleitni. Hinn væntanlegi ráðsmaður gæti ekkert gert í þessu efni nema gera till. um það. En til þess að gera slíkar till. þarf ekki að stofna neitt sérstakt embætti. Ég geri ráð fyrir, að meiri hluti hv. þm. muni vera sammála um, að þessar stofnanir ættu að sameinast. En mergurinn málsins er sá, að í vegi standa hinir og þessir hagsmunir, sem jafnvel hæstv. ríkisstj. sjálf þykist eiga að gæta um ítök í þessum stofnunum. En þó að hún vildi nú gjarna breyta til, og þótt það kynni að þykja hart að gengið að svipta menn með þessu móti embættum, sem þeir hafa gegnt lengi, þá er þó að minnsta kosti hægt að nota tækifærið, þegar breytingar verða. Það höfðu lengi ágætir menn veitt forstöðu áfengis- og tóbakseinkasölunum, og það olli mestu um á sínum tíma, að felldar voru till. um að sameina þessar stofnanir. Nú varð hér breyting á, og gafst tækifæri til að fella stofnanirnar saman, án þess að það ylli persónulegum óþægindum. Ég hygg, að hæstv. fjmrh. hefði haft vald til þess, og gæti trúað, að vilji hafi verið fyrir hendi hjá honum til þess, en reynslan er bara sú, að það var skipaður nýr forstjóri. Við vitum þess vegna, að ef byrja skal á breytingum í þessu efni, þá þarf að vera til þess hugur og skilningur og koma fram um það ákveðnar till., sem hæstv. ríkisstj. er sjálf sammála um, og þá mundi henni líka verða fylgt að málum. En þegar þessa forustu vantar, er ekki nema von, að þm. verði alltortryggnir á, að nokkuð verulegt gott hljótist af því, þótt ný deild bætist við í stjórnarráðinu og ríkisbáknið þannig aukið, einmitt af því að við vitum, að framkvæmdir verða komnar undir vilja hæstv. ríkisstj., og þann vilja virðist hafa vantað. Það hefur verið reynt að gera ráðstafanir til að fella saman ríkisstofnanir, og þær tilraunir mistekizt. Eitt af verkum hæstv. ríkisstj. var það að fella saman nýbyggingaráð og viðskiptanefnd. Það hafði verið óheppilegt, hve þær stofnanir voru sundraðar, og stofnað var fjárhagsráð með undirdeildum í þeirra stað, svo að öruggt væri, að þær störfuðu sem ein stofnun og sá glundroði ætti sér ekki stað, sem varð afleiðing af því, að nýbyggingaráð og viðskiptanefnd störfuðu hvort í sínu lagi. En hvað sýndi sig? Það er eins og miðflóttaafl hafi sundrað stofnuninni og ein deildin, viðskiptadeildin, verður eins og sjálfstæð stofnun. Þannig hefur þetta þróazt og svo er komið, eftir að stofnunin hefur starfað í 2 ár, og nú er kvartað um, að gera þurfi breytingar til þess að upprunalegu lögin nái fram að ganga. Þetta sýnir, að það er fyrst og fremst undir ríkisstj. sjálfri komið að laga þessa hluti og það er ekki á neins eins manns færi. Sundrunin verður í meðferðinni vegna þess, að ekki er nógu fast á haldið af hálfu ríkisstj. Og ég er hræddur um, að það, sem brestur á, að ríkisstj. sé nógu samhent í sinni stjórn, verði ekki bætt með því að setja þennan nýja embættismann. Hann fær ekkert það vald, sem gæti bætt úr þessu. Hvernig mundi t. d. fara með till., sem hann gerði? Viðbúið er, að meginið af þeim lenti í skúffum hæstv. ríkisstj. eins og margar fleiri. T. d. var orðuð í fjhn. till. frá hæstv. viðskmrh., sem tilkynnt var, að mundi berast okkur í des. í vetur og við beðnir að bíða eftir henni, en sú bið hefur dregizt í 5 mánuði og till. enn óafgreidd. Fyrst svona er nú farið með till. hæstv. ráðh., hvernig mundi þá verða farið með till. ráðsmannsins? Það er því von, að við séum tortryggnir. Ef um ríkisstj. væri að ræða, sem hefði sýnt hug og dug til sparnaðar, væri öðru máli að gegna um afstöðuna til þessarar till. En vegna reynslunnar, sem við höfum í þessu efni, er sú tortryggni eðlileg. Og ég gæti trúað, að ef hæstv. fjmrh. vildi skýra deildinni nákvæmlega frá reynslu sinni í þessum efnum, þá mundi það ekki bæta úr um afstöðu d. til þess að gefa hæstv. ríkisstj. slíkar heimildir sem þessa. Þetta hefði sem sagt fyrst og fremst orðið að byggjast á trausti á sparnaðarvilja hæstv. ríkisstj., en það traust er að fenginni reynslu af skornum skammti. Mér hefði þótt rétt og hefði haft gaman af að heyra um það álit hæstv. fjmrh. að koma fram með till um að bæta aftan við þetta lagafrv. ákvæði um það, að fella skyldi saman þessar ríkisstofnanir, sem ég hef rætt um, og skyldi þessi heimild öðlast gildi að því loknu. Fyrst yrði hæstv. ríkisstj. sem sagt að sýna vilja sinn í verki, og þegar það væri gert, þá fengi hún þá heimild, sem hér er óskað eftir. Þá þætti mér vænt um, vegna þess að mér finnst það ekki nægilega skýrt ákveðið í frv., að heyra skilning hæstv. fjmrh. á því, hve viðtækt hann telur, að hugtakið ríkisstofnun sé í þessu sambandi og þar með vald ráðsmanns. Mundi það eingöngu ná yfir stjórnarráðið og stofnanir þar í kring, eða nær það líka yfir síldarverksmiðjur ríkisins, yfir Landsbankann og svo framvegis? Ég tel nauðsynlegt að fá þetta upplýst, svo að enginn efi sé um skilning á þessu. Hæstv. ráðh. virtist álíta, að með þessum l. fengi hann meira frjálsræði til ýmissa aðgerða. En mikið af starfi þessa manns fer í að gera till. Og ég býst við, að ef hæstv. fjmrh. þykir samráðh. sínir hafa nokkuð mikið sjálfræði, þá yrði það ekki svo takmarkað með þessum l. Hann yrði vafalaust að fá breyt. á því með sérstökum lagafyrirmælum. Að öðrum kosti yrði erfitt að takmarka vald ráðherranna yfirleitt, þegar þeir álitu óhjákvæmilegt fyrir sig að bæta t. d. einhverjum við eða breyta sinni starfstilhögun, þótt það þýddi aukinn kostnað, sem þyrfti ekki alltaf að koma fram í auknu mannahaldi.

Þá vil ég að síðustu gera þá aths. viðvíkjandi 3. gr. þessa frv., að þar sem ráðsmanni ríkisins er upp á lagt að kveðja til ráðuneytis um tiltekin mál ýmsa embættismenn ríkisins, þá sé líka eðlilegt, að hann verði að ráðfæra sig, þegar um þau málefni er að ræða, sem snerta hagsmuni starfsfólks ríkisins, við þeirra samtök, og ég vil, ásamt hv. 3. þm. Reykv. (AG), leggja fram brtt. við 3. gr., að aftan við gr. bætist, að enn fremur skuli stj. B.S.R.B. kvödd á fund ráðsmanns ríkisins, þegar um mál er að ræða, sem snerta hagsmuni starfsmanna ríkisins. Það er rétt og eðlilegt og vafalaust nytsamt fyrir sjálfa framkvæmd þeirra ráðstafana, sem um er að ræða, betri rekstur, meiri vinnuafköst og sparnað, sem ráðsmaðurinn kynni að vilja gera að um allt þetta væri haft samráð við starfsmenn ríkisins eða fulltrúa þeirra samtaka. Og ég býst ekki við, að hægt sé að koma á verulegri breyt. til batnaðar í okkar ríkisrekstri, án þess að það sé gert í góðri samvinnu við starfsmenn ríkisins. Vil ég biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir till. okkar, með því að hún er of seint fram komin og skrifl.

Af því að hæstv. ráðh. er nú kominn inn, verð ég að endurtaka nokkuð. Ég vil þá spyrja, hvernig beri að skilja orðið ríkisstofnun í þessu frv., hvort það taki aðeins til þeirra stofnana, sem ríkið sem slíkt rekur og eru því beinlínis undir stjórn ráðh., eða hvort taldar eru með þær ríkisstofnanir, sem lúta sérstakri stjórn, svo sem bankar, síldarverksmiðjur og aðrar slíkar, þó að þær að vísu heyri undir ráðuneyti. Þeim er stjórnað af tiltölulega sjálfstæðum stjórnum. Enn fremur óska ég upplýsinga um það, hvernig hæstv. ráðh. mundi taka því, ef komið væri fram með brtt, við þetta frv. í þá átt að gefa ríkisstj. heimild til að fella saman ríkiseinkasölur og setja eina stj. yfir, þar sem nú eru 4 eða 5, til þess að koma þannig á verulegum sparnaði í skrifstofurekstri. Og skyldi þá jafnvel sú heimild, sem þetta frv. veitir til að skipa ráðsmann ríkisins, öðlast fyrst gildi, þegar þessi sameining hefur verið framkvæmd, þannig að ríkisstj. fengi frá þinginu tækifæri til að sýna sparnaðarvilja í verki, áður en sett væri á fót ný stofnun enn í ríkisbákninu, eins og frv. fer fram á.