10.05.1949
Neðri deild: 105. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (3823)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég er eindregið fylgjandi þeirri hugmynd, sem liggur þessu frv. til grundvallar. Ég hef talið og tel, að starfsháttum opinberra stofnana og fyrirtækja sé og hafi verið ábótavant að mjög mörgu leyti og að það sé hægt að koma ýmsum umbótum við, sem geti orðið til allverulegs sparnaðar. Þess vegna finnst mér sú hugmynd hafa verið góð og skynsamleg að ráða sérstakan mann, sem hefði það hlutverk að bæta skipulag í hinum ýmsu stofnunum og fyrirtækjum ríkisins, því að ég er viss um, að ef fær kunnáttumaður og skipulagningarmaður ræðst til þessa starfs, mun það geta borið mjög mikinn árangur. En einmitt vegna þess, hvernig hér er málum háttað, er bókstaflega allt undir því komið, hvaða maður velst til þessa starfs, — hvort sá maður hafi kunnáttu og dugnað til að bera. Tel ég meira komið undir slíku hér, en um flestar embættisstofnanir aðrar, og vil ég í því efni taka undir það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði. Verð ég að segja, að afstaða mín — og fleiri þm. geri ég ráð fyrir — mótast að verulegu leyti af því, á hvaða starfsmanni hæstv. ríkisstj. getur átt völ til þessa starfs. Þess vegna vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvort ríkisstj. hafi þegar leitað fyrir sér um ráðningu manns til starfsins og hvort fjmrh. sjái sér fært að skýra þinginu frá því, ef hann eða ríkisstj. hafi þegar einhvern ákveðinn mann í huga, eða ef hæstv. ráðh. telur óviðkunnanlegt að skýra þd. allri frá þeim fyrirætlunum, sem ríkisstj. kann að hafa í huga, hvort hæstv. ráðh. sé reiðubúinn til að skýra þeirri n., fjhn., sem fær málið til meðferðar, frá þeim, því að mér skilst, að þetta atriði hafi ekki borið á góma í n.