11.05.1949
Neðri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í C-deild Alþingistíðinda. (3827)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Pétur Ottesen:

Það var á þinginu 1945, sem ég átti nokkurn hlut að því, að fjvn. bar þá fram till. til þál., þar sem skorað var á ríkisstj. að láta fara fram rækilega athugun og rannsókn á því, hvernig hægt væri að draga verulega úr útgjöldum ríkisins og ríkisstofnana, og að jafnframt væri leitað að leiðum til þess að gera stjórnarkerfið einfaldara og óbrotnara. Og í þessari þáltill. var bent á það, að í því sambandi skyldi taka til athugunar sérstaklega það, sem fólst í fimm stafliðum þessarar till. Og aðalefni þess var það í fyrsta lagi að sameina ríkisstofnanir, yfirstjórn þeirra og rekstur, og enn fremur að athuga, hvort unnt væri að draga úr starfsemi þeirra og jafnvel að leggja þær niður að einhverju leyti. Í öðru lagi var efni þessara liða það, að tekin væri í notkun einhver betri tækni og hagkvæmari vinnubrögðum beitt við reksturinn, svo sem vélanotkun á skrifstofum og við önnur störf, eftir því sem við yrði komið. Í þriðja lagi var lögð áherzla á það — og þar er komið inn á það mál, sem hér er nú um að ræða — að komið verði á raunhæfu allsherjareftirliti með vinnutilhögun og vinnubrögðum á skrifstofum ríkisins og hjá stofnunum þess, enda verði eftirliti þessu beint til þess að gera tillögur um mannaþörf á hverri skrifstofu og stofnun ríkisins. Í fjórða lagi var lagt til að reyna að koma til vegar, að komizt yrði, eftir því sem frekast er unnt, hjá eftirvinnu á skrifstofum. Og loks í fimmta lagi var lagt til að gera innheimtu tolla og skatta einfaldari og umfangsminni heldur en hún nú er. — Þetta var aðalinnihald þessarar þáltill., sem fjvn. flutti þá. Þessi þáltill. var rökstudd mjög vel, m. a. var gerður samanburður í alllangri grg., sem fylgdi þessari till., á landsreikningnum frá 1939 annars vegar og niðurstöðum hans og hins vegar á fjárl., eins og gengið var frá þeim fyrir árið 1945. Og þessi samanburður sýndi, að mjög mikill vöxtur hafði orðið á rekstrarútgjöldum ríkisins á þessu tímabili. Ef nú væri gerður sams konar samanburður viðkomandi tímabilinu frá 1945 og t. d. á fjárl. fyrir árið 1948, þá ætla ég, að reynslan mundi sýna, að þróunin hefur orðið miklu örari á þessu tímabili í sömu átt, en hún var á tímabilinu frá 1939 til 1945, því að á jafnskömmum tíma hygg ég, að aldrei hafi orðið jafnhraður vöxtur í þessum efnum eins og á því tímabili, sem liðið er frá 1945. Ég ætla, að þetta verði þá bending í þá átt, að hafi verið þörf þessara aðgerða árið 1945, sem í till. fólust tilmæli um, þá ætti ekki síður að vera þörf þeirra nú á árinu 1949. Þessi þáltill. var flutt í sameinuðu þingi, og Alþ. leit þá svo á þetta mál, að þessi þáltill. var samþ. einróma og mótatkvæðalaust.

Það er eftirtektarvert um það frv., sem hér liggur fyrir nú, um ráðsmann ríkisins, að í því er alveg tekin upp sú hugmynd, sem felst í 3. lið þessarar þál., sem sé að koma á raunhæfu allsherjareftirliti um vinnutilhögun og vinnubrögð á skrifstofum ríkisins og hjá stofnunum þess og að þessu eftirliti verði beint að því að gera tillögur um starfsmannaþörf á skrifstofum eða stofnunum. Þessi hugmynd, sem í þál. felst og samþ.var einróma á Alþ., er alveg tekin upp í þetta frv., sem hér liggur fyrir. Þess vegna finnst mér, með tilliti til þess öra vaxtar, sem orðið hefur á útgjöldum ríkisins síðan árið 1945, að það bregði nokkuð undarlega við, þegar tilraunir, sem ganga í þessa sömu átt og í þál. felst, mæta jafneindreginni andstöðu og þetta frv. mætti í hv. Ed. og fram komnar till. benda á, að það muni mæta í þessari hv. d. Þetta kemur mér mjög einkennilega fyrir sjónir, því að ég lít þannig á, að það megi ekki draga úr ákvæðum þessa frv., eins og það var flutt, til þess að hægt sé að koma á raunhæfu eftirliti, þannig að það megi ekkert draga úr því, að sá maður, sem falið verður þetta starf, sé þannig settur, að hann verði engin undirtylla annarra, heldur vinni hann alveg sjálfstætt að þessum störfum og beri þannig einn ábyrgð á því, hvort sú starfsemi kemur að gagni eða ekki. Reynist starfsemi hans ekki til gagns í þessu embætti, þá hefur ríkisstj. lögum samkv. nógar heimildir til þess að láta hann hverfa frá þessu starfi og fela honum annað starf, sem hann mundi þá vera betur fallinn til þess að inna af hendi, því að það er alveg rétt, sem haldið hefur verið fram hér, að gagnsemin af þessum ráðstöfunum er komin undir því fyrst og fremst, að þessi maður, sem þetta starf verður falið, sé starfi sínu vaxinn. Þessi ráðsmaður þarf að vera einbeittur og ákveðinn í sínu starfi, sanngjarn og réttlátur og auk þess hafa þekkingu á störfum á skrifstofum og hafa hugkvæmni til að bera um nýjungar og vinnusparandi vélar. Þetta eru þeir hæfileikar, sem þessi maður þarf að vera gæddur, auk skapfestu, til þess að árangur geti orðið af þessu starfi.

Ég vil benda á, að ríkisstjórnir þær, sem setið hafa síðan 1945, hafa að svo miklu leyti sem mér er kunnugt, ekki viljað eða ekki haft framtak til þess að verða við þessum eindregnu áskorunum Alþ., fyrr en núverandi hæstv. fjmrh. tekur sig til fyrir nokkru síðan um það að hefja starfsemi á þessum grundvelli, að framfylgja ákvæðum þessarar þál. frá 1945 og þá einmitt gagnvart því atriði þál., sem raunverulega mesta þýðingu hefur af því, sem sú þál. hefur inni að halda, og það er að gera tilraunir til þess að koma á raunhæfu eftirliti á þeim grundvelli, sem markaður er í þessari þál. Vil ég fyrir mitt leyti tjá hæstv. fjmrh. þakkir fyrir framtak hans í þessu efni. — Eins og hér hefur komið fram, þá skipaði hæstv. fjmrh. nefnd manna, einmitt kunnugra manna um þessi störf, til þess að athuga um þessi mál. Nefnd þessi hóf starfsemi sína fyrir nokkru síðan og beindi henni alveg sérstaklega inn á þessa braut. Og eins og ég hef tekið hér fram, álít ég, að frv. þetta eigi að vera í því formi eins og það upphaflega var flutt og nú er komin hér fram brtt. frá hv. allshn. um, að það verði aftur fært í það sama horf, en frv. var breytt í hv. Ed. — Þannig álit ég, að í stað þess, sem í frv. er nú til tekið, að þessi maður sé settur til bráðabirgða, þá verði skipun þessa manns hagað eins og venja er til um aðra hliðstæða embættismenn, að hann verði skipaður af forseta Íslands eftir till. fjmrh. Og samkvæmt okkar þingskapareglum og öðrum stjórnarfarslegum reglum og venjum er það fjmrh. í þessu tilliti, sem ber ábyrgð á þessari skipun gagnvart Alþ. Og ég treysti hæstv. fjmrh. fyrir mitt leyti fullkomlega til þess að velja ekki til þessa starfs annan mann en þann, sem hann fullkomlega treystir til þess að geta innt þetta verk vel af hendi. Þess vegna tel ég það ákaflega ástæðulítið að vera með slíkar efasemdir eins og hér koma fram í þessu efni. Þannig horfir þetta mál við frá mínu sjónarmiði. En, eins og ég hef áður tekið fram, ef svo reyndist, að maðurinn, sem í þetta starf væri skipaður, væri ekki starfinu vaxinn, þá á hann vitanlega ekki að vera í því stundinni lengur, og þá er sjálfsagt að breyta til. En ég vildi nú mega vænta þess, að til slíks kæmi ekki.

Nú liggja hér fyrir um þetta mál nokkrar brtt., en ein þeirra, sem ég hef nú nefnt, miðar að því að kippa aftur til lagfæringar því, sem úrhendis fór í afgreiðslu málsins í hv. Ed., því að breyt., sem þar voru gerðar á frv., miða að því, að því er mér skilst, að draga úr þýðingu og gildi þessa starfs, sem hér er um að ræða í þessu frv. Ég þarf ekki að tala um það, að hæstv. fjmrh. hefur bent á veilurnar, sem felast í brtt. hv. þm. V-Húnv., sem, ef samþ. væru, mundu gera þetta mál ákaflega erfitt í allri framkvæmd. Og þær till. hafa á sér þann höfuðókost frá mínu sjónarmiði séð, að þessi maður yrði allt öðruvísi settur og mundi búa við miklu meira öryggisleysi, en ég álít, að starfsemi þessa manns eigi að búa við samkv. lögum, sem sett verða um þetta efni.

Svo er hér komin fram önnur brtt. við þetta frv., frá hv. 2. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Reykv. (AG), þar sem lagt er til, að farið sé að blanda stjórn Sambands starfsmanna ríkis og bæja inn í þetta eftirlit með vinnubrögðum í stjórnarráðinu. Slíkt er vitanlega gersamlega vanhugsað, að ætlast til þess, að þetta sé samrýmanlegt slíku eftirliti. Og ég satt að segja undrast mjög yfir misskilningi þeim, sem fram kemur hjá þessum tveimur hv. þm. á starfi þessa manns innan stjórnarráðsins og þeim verkahring sem honum er markaður þar. Mér finnst þetta hreint undrunarefni, að slíkar brtt. sem þessi séu fluttar í sambandi við þetta mál. Við getum bara hugsað okkur það, hver afstaða bandalagsins mundi vera gagnvart þeirri ráðstöfun, að nú þætti ástæða til — sem vafalaust er fyrir hendi víða — að fækka allverulega starfsmönnum í ýmsum stofnunum ríkisins. Og við getum hugsað okkur, hvort það mundi auðvelda starf þessa manns, að alltaf þyrfti að kveðja til skrafs og ráðagerða stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þegar ákveða þyrfti um slíkt. Og svo er það stjórn starfsmannasamtaka bæjanna líka, sem á þannig eftir till. þessum að koma þarna til, þó að starfsemi þessa ráðsmanns ríkisins komi ekki nærri neinu eftirliti á skrifstofum t. d. Reykjavíkurbæjar eða annarra bæja hér á landi. Þarna er því um að ræða alveg gersamlega óskylt mál, þar sem er starfsemi á vegum bæjarfélaganna og starfsmenn þeirra. Og nú mætti búast við því, að ráðsmaður ríkisins gæti komið á sparnaði á vinnukrafti á skrifstofum með notkun vinnusparandi véla, og er þá ekki að efa, þegar gerðir væru með þeim ráðstöfunum svo og svo margir starfsmenn á opinberum skrifstofum óþarfir, hvaða áhrifum gagnvart því þessi stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja mundi beita. Það að leggja til að ofurselja slíkt eftirlitsstarf sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv. undir þetta eftirlit stjórnar þessara félagasamtaka, það er sú fjarstæðasta hugsun, sem fram kemur í þessu máli, og í þessu kemur fram mjög mikill misskilningur á þýðingu og gildi þessa starfsmanns og hin mesta fjarstæða, sem maður yfirleitt gæti búizt við, að komið gæti fram á hæstv. Alþ.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál. En ég vildi benda á þetta, sem hæstv. Alþ. hefur áður sagt í þessum málum. Og þetta frv. er beint áframhald af því. Og ég hef bent hér á, hvaða undirtektir þetta mál fékk árið 1945 og hvað gerzt hefur síðan í þessum efnum, sem hefur skapað þörf fyrir enn þá sterkari aðgerðir í þessum efnum, en tilefni var þó til þá. Og þess er því að vænta, að hæstv. Alþ. sýni nú nokkurt samræmi í afstöðu sinni til afgreiðslu þessa máls, sem hér liggur fyrir, sem er að efni til einn verulegur þáttur úr þeirri þál., sem samþ. var einróma á hæstv. Alþ. 1945. Ég vil því vænta þess, að frv. verði fært í sitt fyrra horf og aðstaða fáist ekki til að samþ. till., sem yrðu til þess að draga verulega úr þýðingu og gildi þeirra ráðstafana, sem hæstv. fjmrh. hefur nú gerzt frumkvöðull að og flutt inn í þ. í samráði við stj. í heild.