28.04.1949
Efri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (3849)

157. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Mér finnst ekki ástæða fyrir hv. 1. þm. N-M. að ásaka n. í þessu efni. Fjhn. gerði ekkert annað en að bera fram eða gefa umsögn um það frv., sem komið er frá hæstv. ríkisstj. Nú hefur hæstv. ríkisstj. komið oftar en einu sinni á þessu þingi með frv. um breyt. á þessum lögum, sem hér á með þessu frv. að breyta, það er alveg rétt. En fjhn. út af fyrir sig veit ekki, hve margar breyt. hæstv. ríkisstj. hugsar sér að koma með till. um á einu og sama þingi. Þegar fjhn. afgr. fyrri till. um breyt. á þessum l., þá hafði hún ekki hugmynd um, að þetta frv. mundi koma um breyt. á þessum l. Þess vegna er ekki ástæða fyrir hv. 1. þm. N-M. að ásaka fjhn. fyrir að koma með frv., sem er önnur breyt. á þessum sömu l. á sama þingi, sem frv. kemur um frá ríkisstj. Getur vel verið, að ríkisstj. komi með þriðja frv. um breyt. á þessum l., og verður þá að sjálfsögðu að koma henni út úr nefnd.

Ég viðurkenni, að vinnubrögðin gætu verið betri en þetta hjá hæstv. ríkisstj., eða það mætti líta svo á, að hæstv. ríkisstj. ynni þetta nokkuð af handahófi eða vissi lítið, hvað hún hyggst gera þann og þann daginn. Annars er þetta frv. út af fyrir sig ekkert stórmál, heldur er hér um smábreyt. að ræða.

Ég get þess hér, að mér láðist að skýra frá breyt. um tímatakmarkið, sem felst í þessu frv. Þar er gert ráð fyrir, að í staðinn fyrir, að áður var skattárið í þessu efni fá 1. apríl til 31. marz, þá skuli það vera frá 1. jan. til 31. des. Þetta er vafalaust gert af hagkvæmnisástæðum viðkomandi framkvæmd á innheimtunni, og sé ég ekkert við þetta að athuga. Till. um þetta kemur frá þeim umboðsmönnum, sem mest hafa með þessa skattheimtu að gera. Þess vegna má gera ráð fyrir, að þessi breyt. sé til hagræðis.

Hvað snertir aths. hv. þm. Dal., að ríkið missi tekjur við þessa breyt., þá er hér í raun og veru ekki um neinn tekjumissi að ræða. En það má segja, að í vissum skilningi sé þetta tekjumissir á því ári, sem breyt. gengur fyrir sig, og að því leyti er þetta rétt athugað hjá honum. Ég get ekki annað séð en að á næsta skattári, sem samkv. frv. skal verða frá 1. apríl til 31. des., lækki á fjárl. um einn fjórða hluta tekjur af þessum skatti. Mér dettur ekki annað í hug en að hæstv. fjmrh. eða fjmrn. hafi gert sér grein fyrir þessu, þegar það sendi frá sér þetta frv. Það getur vel verið, að þetta frv. hafi ekki verið komið til, þegar fjárlagafrv. var í undirbúningi hjá þeim. En það leiðir þá af sjálfu sér, að sú tekjufjárhæð, sem hér er um að ræða á fjárl., færist niður sem þessu svarar. Það er náttúrlega enginn höfuðbrestur, þótt slíkt kæmi nú fyrir. En það má líka segja, að ríkið nái aldrei upp þessum einum fjórða hluta skattsins, sem það tapar á þessu ári, þó að það líti út sem hvert annað öfugmæli.

Ég sé ekki neina ástæðu til að fresta því, að frá þessu frv. verði gengið, af þeirri ástæðu, að búast megi við kannske einu frv. enn á þessu þingi um breyt. á þessum lögum frá hæstv. ríkisstj., sem ég að vísu held, að sé alls ekki afráðið, þó að kannske sé um það rætt að breyta benzínskattinum. Og í öðru lagi er þetta svo sjálfsögð breyt., sem hér er um að ræða, að það er engin ástæða til að synja framgangs hennar. En verði þetta frv. að lögum, áður en gengið er frá afgreiðslu fjárl., þá leiðir af sjálfu sér, að sú breyt., sem samþykkt þess hefði á tekjur fjárl., yrði að koma fram á fjárlagafrv.