02.05.1949
Efri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í C-deild Alþingistíðinda. (3855)

157. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Frsm. (Björn Ólafsson):

Það var út af því, sem hv. þm. Dal. sagði. — Það hefur ekki komið nein till. fram frá hæstv. fjmrh. um breyt. á þessu frv., sem liggur fyrir, í sambandi við tímatakmark skattsins. Mér skilst hv. þm. Dal. tala um að láta innheimta skattinn fyrir 18 mánuði, í stað þess að frv. gerir ráð fyrir, að innheimt verði frá 1. apríl til áramóta og þær tekjur komi inn á fjárlfrv. þessa árs. Og ef hæstv. ráðh. óskar ekki að gera neina breyt. á því atriði, sem hann hefur lagt hér fram og hans ráðuneyti, þá sé ég ekki ástæðu til að fara að taka af mönnum 21 mánaðar skatt í þetta skipti, sem ég get ekki séð, að þeir fái endurgoldinn. Þeir greiða á þessu ári, og svo er innheimtur 12 mánaða skattur á næsta ár. Þá er tekinn af þeim 9 mánaða skattur, sem þeir fá aldrei endurgoldinn. Ég sé ekki réttlæti í því.

Að því er snertir till. hv. 1. þm. N-M., finnst mér, að ef hann vill koma þessum breyt. inn, sem hann talaði um, ætti hann að koma með brtt., ef hæstv. fjmrh. vill taka þetta mál upp á sína arma. Ég sé ekkert á móti því, sem formaður n., ef d. óskar, að n. taki frv. til nýrrar athugunar.