08.11.1948
Neðri deild: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í C-deild Alþingistíðinda. (3875)

38. mál, útrýming minka

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Eins og menn sjá á þessu frv., er það að aðalefni til svipað og frv., sem flutt var hér í fyrra, en fékkst ekki afgr. Það er þó breytt nokkuð til um fyrirkomulag á útrýmingu villiminka.

Það er nú enn berara, en var á síðasta þingi, hvernig ástatt er með útbreiðslu þessara dýra, eins og reyndar vænta mátti. Þau eru nú komin um allmikinn hluta landsins, og innan stundar munu þau, ef ekki verða gerðar sérstakar ráðstafanir til útrýmingar þeim, fara um landið allt. Það þarf ekki með mörgum orðum að lýsa skaðsemi þessara dýra. Það þarf ekki annað en kynna sér lifnaðarhætti þessa dýrs, þar sem það lifir villt í náttúrunni, en ef mönnum nægir það ekki, geta þeir kynnt sér það hjá mönnum, sem þekkja lifnaðarhætti þessa dýrs. Þetta er ofur einfalt mál, og þarf ekki að hafa um það mörg orð. Þm. ber skylda til í þessu máli að verða sannfróðir um, hvernig ástatt er. Við höldum þeim ákvæðum frv. frá því í fyrra, sem kveða á um útrýmingu aliminka, því að það er víst, að svo framarlega sem á að útrýma villiminknum, verða þeir, sem þá fyrirhöfn leggja á sig, að vera öruggir um það, að þessu dýri verði ekki sleppt lausu aftur. Það er ekki hægt að gera þá kröfu til manna, að þeir heyi þá baráttu, sem til þess þarf að uppræta villiminkinn, fyrir það, að nokkrir menn hafa þessi dýr í búrum sér til gagns og gamans og sleppa þeim svo út, — auðvitað óviljandi, en láta þau eigi að síður komast út. Mér fannst það allkátlegt, að rétt þegar við vorum að enda við síðasta þing og búið að halda því fram, að nú væru varnirnar fullkomnar; þá skeður það hér á einu minkabúi, að dýr voru komin út í ytri girðinguna, þegar komið var að. Sumir munu auðvitað segja, að dýrin hefðu ekki sloppið út. En þegar þau eru komin út fyrir innri girðinguna, sem er aðalaðhaldið, má segja, að minnstu muni, að þau séu frjáls.

Við höfum bent á það fyrirkomulag, að sýslumaður í hverju héraði hafi umsjón og ákvarðanir um, hvenær útrýming skuli fara fram. Þetta er ekki haft svo vegna þess, að við treystum ekki loðdýraræktarráðunautinum til að hafa þetta starf með höndum, en það er bersýnilega ekki heppilegt að ætla manni búsettum í Rvík að hafa umsjón með þessu starfi um land allt. Þeir, sem hafa bezta aðstöðu og yfirsýn í hverju héraði, eiga að annast þetta starf hjá sér. Og ég tel sjálfsagt, að sýslumenn nærliggjandi héraða, þar sem vitað er, að dýrin eru komin, hafi þar samráð sín á milli, áður en þeir ákveða, hvenær útrýming fer fram, því að auðvitað er bezt, að hún fari fram samtímis á nærliggjandi svæðum, svo að minni hætta sé á því, að mistök verði við starfið.

Vel hefði mátt hafa ákvæði um bætur til þeirra, sem minka eiga í búum, því að við ætlumst til, flm. frv., að þeir, sem eiga alidýrabú, fái bætur fyrir það, að þetta starf er lagt algerlega niður. Þykir mér rétt að hafa ákvæði um það, hvernig því skuli fyrir komið, í frv., og mætti þá athuga það, hvernig bezt færi á því, fyrir 2. umr. málsins.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um málið að þessu sinni. Ég vil gera það að till. minni, að þessu frv. verði vísað til landbn., en jafnframt vil ég taka fram, að það er í trausti þess, að n. afgreiði málið fljótt.