08.11.1948
Neðri deild: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í C-deild Alþingistíðinda. (3878)

38. mál, útrýming minka

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég skildi ekki almennilega, hvað hv. 1. þm. Árn. átti við með dæmum úr sögunni, hvort hann átti t. d. við Jón Gerreksson. En ég skal segja hv. þm. það, að ég mundi fyrstur manna greiða atkvæði með því, að öllum aliminkum verði slátrað, ef líkur væru færðar fyrir því, að plágunni yrði þá af létt. En þær líkur liggja ekki fyrir. Og svo að farið sé út í söguna, þá hefur hér öldum saman enginn refur verið í búri, sem sloppið gæti, en þó hefur aldrei tekizt að útrýma refum úr landinu. Og það er hætt við, að það fari eins með minkinn, að þótt útrýmt væri öllum minkum í búrum, þá ættum við þó eftir margra ára þrotlausa baráttu við villiminkinn, áður en honum yrði útrýmt. En það er aðalatriðið að útrýma villiminknum eins og unnt er og halda þeirri plágu niðri, en ég hef ekki trú á því, að við værum feti nær því takmarki með því að útrýma minkum, sem í búrum eru og kunna að verða talsverður liður í gjaldeyrisöflun okkar, er fram líða stundir.

En um eitt erum við sammála, sem sagt, að þörf sé á að herja á villiminkinn, og þar snúum við bökum saman. Ég tel ekki rétt, að við byrjum á að útrýma aliminkunum, á meðan engin raun er komin á það, hvernig útrýming villiminkanna muni takast.