08.11.1948
Neðri deild: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í C-deild Alþingistíðinda. (3879)

38. mál, útrýming minka

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. ætlar sýnilega að lifa í trú um þetta, en ekki í skoðun, og er það mikið mein. Ef hann vildi lifa í skoðun um skaðsemi þessara dýra og um það, hvernig það gengur að halda þeim í búrunum, þá mundi hann breyta afstöðu sinni til málsins. Vitaskuld er ekki hægt að sanna það fyrir fram, hvort takast muni að útrýma villiminkunum eða hvenær það verði. En á meðan þessi dýr eru alin í búrum, þá verður þeim aldrei útrýmt. Fyrir því er reynsla, að þau sleppa alltaf út. Og það má skírskota til þess, sem er að gerast hjá Norðmönnum og Svíum. Þeir eru engir viðvaningar í loðdýrarækt, en hafa þó misst þessi dýr út, og þau eru orðin þar hrein landplága. — Það er heldur ekkert aukaatriði, ef ríkið á að borga árlega til útrýmingar marga tugi þúsunda. Eftir upplýsingum hæstv. ráðh. nemur það nú 60 þús. kr. og er þó ekki allt komið fram, því að vafalaust eru ótalin mörg dýr, sem náðst munu hafa fyrir áramót.

Hæstv. ráðh. vitnar til þess, að refir hafi ekki verið hafðir hér í búrum, og þó hafi ekki tekizt að útrýma þeim frá ómunatíð. En við vitum, að þeir hafa ekki verið fluttir til landsins, heldur komu þeir sjálfir, t. d. með ísum. Hitt vitum við svo, að þetta litla kvikindi kemur ekki hingað öðruvísi en aðflutt, svo að þar er ólíku saman að jafna. Og þótt refir geri spjöll, eru þeir ekki sambærilegir við minkinn um skaðsemi alla. Og einkennilegt virðist mér það, að af því að við höfum lengi átt í höggi við tófuna, þá á að bæta þar ofan á annarri plágu helmingi verri. Sleppi einhver við tófuna, þá skal hann fá á sig minkinn! Og ef einhver verður fyrir búsifjum af tófunni, þá á að árétta jólaglaðninginn með minknum líka!

Ég er sammála hæstv. ráðh. um það, að margra ára baráttu muni þurfa til þess að útrýma minknum. En það sýnir nauðsyn þess, að menn eigi ekki í vændum að dýrin sleppi jafnóðum aftur. Og hverjir heyja baráttuna? Eru það ef til vill loðdýraræktarherrarnir? Nei, þeir, sem fyrir tjóninu verða, heyja baráttuna við þessi kvikindi, sem haldið er yfir hlífiskildi; og það er þeim mun furðulegra, sem þetta gefur nær ekkert í aðra hönd, og það eru hrein hindurvitni að tala um gjaldeyri í þessu sambandi, þar sem megnið af loðdýraskinnum er óseljanlegt, lágt verð og háir tollar. Og það er hæpinn gjaldeyrissparnaður, ef æðarvarpi er útrýmt og laxveiði stórspillt af minkunum.

Ég held, að það sé rétt, ef hæstv. Alþ. ætlar ekki að stemma stigu fyrir minkaplágunni nú, að sú kvöð verði þá lögð á loðdýraræktarherrana að annast útrýminguna, en að hún sé ekki lögð á þá, sem aðeins verða fyrir tjóninu, en hafa enga hagsmunavon í sambandi við þessi dýr.