04.11.1948
Neðri deild: 10. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í C-deild Alþingistíðinda. (3893)

39. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Gylfi Þ. Gíslason:

Mér er ekkert sérlega vel við Sjálfstfl., en ekki er mér svo illa við hann, að ég óski þess, að þm. hans flytji margar ræður eins og hv. 7. þm. Reykv. flutti hér áðan. — Ég ætla ekki að svara þeim kafla ræðu hans, er hann ræddi um það, sem hann telur eiga að vera grunntón allra stjórnmála, að stétt eigi að standa með stétt. Mér finnst ekki taka að svara því. Þau öfl í heimsstjórnmálunum, sem hafa haft þetta sem æðsta boðorð, nazistar, hafa sem betur fer goldið það afhroð á síðustu árum, að mér þykir ekki ómaksins vert að eyða verulegum tíma til að andmæla þessum hreinu nazistarökum, því að það er nazismi og ekkert annað að halda fram, að hagsmunir allra þjóðfélagsborgara fari saman. Hingað til hafa ekki önnur stjórnmálaöfl leyft sér að hafa þessa fíflalegu skoðun á oddinum en nazistaflokkar. Það er því vissulega hörmulegt fyrir Sjálfstfl., ef hann ætlar að boða það, sem var uppistaðan í stjórnmálakenningu nazista.

Ég stóð aðallega upp af því, að hv. 7. þm. Reykv. sneri út úr ummælum mínum. Ég sagði, að ég væri andvígur þessu frv. af því, að með því væri gengið lengra til afskipta af innri málefnum frjálsra félagasamtaka í landinu, en mér þætti viðeigandi eða réttmætt. Hins vegar hafa verið sett l. um stéttarfélög og vinnudeilur, og þar eru nokkur ákvæði um skipulag þessara félaga, sem hafa ekki sætt gagnrýni og hafa ekki verið sett gegn andstöðu verkalýðsfélaganna, heldur með samþykki þeirra. Nú getur verið spurning, hversu nákvæmar reglur sé heppilegt að hafa í l. um þessi atriði. Og ég er þeirrar skoðunar, að með frv. eins og þessu sé gengið miklu lengra til afskipta af málefnum verkalýðsfélaganna, en rétt og sanngjarnt er. En með tilliti til þess, að í l. eru almenn ákvæði um skipulag verkalýðshreyfingarinnar, þá finnst mér ekki óeðlilegt, þó að nokkrum slíkum algerlega almennum ákvæðum væri bætt inn í l. um stéttarfélög og samvinnufélög. Þau ákvæði væru algerlega almenns eðlis, t. d. um réttar fundarreglur og fundarsköp eða um það, að kosningar færu fram á réttan hátt. Ég trúi því engan veginn, að slík ákvæði mundu sæta andmælum frá verkalýðshreyfingunni. Það er þess vegna rangt hjá hv. 7. þm. Reykv., að það sé nokkur mótsögn í því, þegar ég lýsi yfir andstöðu minni við þetta frv., en segist geta fellt mig við að setja inn í þá heildarlöggjöf, sem þegar er fyrir hendi, ákvæði um, að farið verði eftir réttum lögum um fundarhöld og kosningar.

Hv. 7. þm. Reykv., sem hefur borið fram þetta frv. ásamt svo að segja öllum flokksmönnum sínum í þessari d., segist gera það til að tryggja rétt og gott lýðræði í verkalýðsfélögunum. Hann er lögfræðingur og framkvæmdastjóri Sjálfstfl., og nú játar hann það, sem ég vissi, að á landsfundum sjálfstæðismanna mættu ýmsir fulltrúar, sem væru ekki til þess kjörnir, heldur kæmu þangað af því, að þá langaði til þess. Ég verð að segja, að ekki er lýðræðisáhugi hv. 7. þm. Reykv. mikill, ef hann beitir sér ekki fyrir, að slíku verði breytt innan Sjálfstfl. Ég skil ekki, að hann treysti sér til að halda fram, að það séu lýðræðislegir landsfundir, ef fulltrúar geta mætt þar eingöngu af því, að þá langar til þess, og að slíkar samkomur geti markað allsherjarstefnu lýðræðisflokks. Þætti honum það lýðræðislegt, ef hér á Alþ. mættu þeir, sem til þess langaði? (JóhH: Sagði hv. þm. ekki, að allir væru sammála á landsfundunum?) Jú, það kemur sennilega til af því, að þessi aðskotadýr ráða þar svo miklu. Það er líklegt, að ef fulltrúar væru kosnir lýðræðislega út um allt land, þá yrði ágreiningurinn meiri. Nú sýnist vera safnað þar saman fólki, sem er tilbúið til að klappa og hrópa húrra við öllu því, sem forkólfarnir segja á þessum fundum. Það er augljóst, að slíkt fyrirkomulag er svo ólýðræðislegt sem verða má. M. ö. o., það er játað af framkvæmdastjóra flokksins, að til landsfunda flokksins sé stofnað á þann ólýðræðislegasta hátt, sem hugsanlegur er. Mér sýnist því, að hann hafi miklu nærtækara verkefni fyrir sinn alkunna dugnað, en að standa fyrir setningu lagaboða, sem eiga að tryggja lýðræði í verkalýðsfélögunum. Hann ætti að beita dugnaði sínum við að reyna að tryggja lýðræði í Sjálfstfl. Ég er ekki viss um, að honum tækist það, en mér finnst, að hann ætti þó að gera tilraun í þá átt. Það væri virðingarvert af honum og stendur honum nær, þar sem hann er framkvæmdastjóri flokksins, heldur en að safna samflokksmönnum sínum utan um frv. til að hafa afskipti af innri málum verkalýðsfélaganna, þó að þau starfi á lýðræðislegum grundvelli.