11.11.1948
Neðri deild: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í C-deild Alþingistíðinda. (3909)

39. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi ekki trufla þann skemmtiþátt, sem við fengum inn í umr. síðast, sem tveir hv. þm. voru að leika fyrir okkur. Ég kvaddi mér því hljóðs til að gera aths. við ræðu hv. 1. flm., en þarf þar í raun og veru ekki miklu að svara.

Hv. 7. þm. Reykv. reyndi ekki að sýna fram á, að Sjálfstfl. hefði gert nokkra tilraun til að berjast fyrir þessu fyrirkomulagi, hlutfallskosningu, í þeim félögum, þar sem hann hefur mikil áhrif og gæti á frjálsan hátt komið eitthvað að gagni, því að hann hefur áhrif í sumum félögum, þar sem bezt launuðu launþegarnir eru, t. d. í Skipstjórafélagi Íslands og öðrum slíkum félögum, og þar ætti hann að geta fengið þetta fram. Ef hann hefði áhuga fyrir réttlæti, sem átti að vera ástæðan fyrir að koma fram með svona frv., þá hefði hann getað sinnt þessu í verki. Ég þykist vita, að þetta hafi þessir hv. þm. Sjálfstfl. ekki verið búnir að athuga áður en þeir röðuðu sér á þetta frv. Það kom þess vegna á hv. 1. flm., þegar honum var bent á þetta og sömuleiðis hvað snertir öll önnur félög, sem ég ræddi um og Sjálfstfl. hefur mikil áhrif á. Þess vegna stendur það allt óhrakið, sem ég hef sagt í minni fyrri ræðu um þessa hluti.

Enn fremur tók ég eftir því, að hv. 7. þm. Reykv. hafði ekki gert sér grein fyrir muninum á þeim aðferðum, sem þarna er um að ræða. Hann byrjar á að reyna að beita kúgun gagnvart þessum frjálsu samtökum, en hefur að engu leyti reynt að koma þessu skipulagi á með frjálsu móti. En svo framarlega sem það kynni að hafa verið minnzt á það við verkamennina í Óðni, þá virðist sú málaleitun hafa fengið þær undirtektir, að þeir hafa ekki treyst sér til að koma málinu fram í verkalýðsfélögunum.

Hv. 7. þm. Reykv. kom með það, að það væri slagorð, sem ég hef verið að segja viðvíkjandi framkomu Sjálfstfl. gagnvart verkamönnum. Hann talaði um það með hörðum orðum, að ég hefði sagt, að Sjálfstfl. hefði níðzt á verkamönnum, og slíkt væri slagorð, sem ekkert væri að marka og byggðist ekki á neinu. Ég veit ekki, hvort hv. þm. er búinn að gleyma því, sem gerzt hefur áður fyrr í þessu efni, sem ég ofur lítið rifjaði upp fyrir honum. Hann virtist ganga fram hjá þeirri staðreynd, sem ég var að minna hann á, og vildi bara slá það niður með því að kalla það slagorð. En það var meira en slagorð. Einhver mestu slagsmál, sem orðið hafa hér á landi, urðu út af þeirri ráðstöfun, sem Sjálfstfl. gerði þá. Ég er ákaflega hræddur um, að það verði eitt af því, sem standa muni sem hljóður minnisvarði yfir þann flokk og afskipti hans af verkalýðshreyfingunni, að þegar neyðin var stærst hjá verkalýðnum á Íslandi, þá skyldi vera sú hjálpin næst hjá Sjálfstfl, að reyna að auka þessa neyð um 1/3 frá því, sem áður var, og níðast einmitt á þeim, sem minnsta höfðu atvinnu og hana svo litla, að óhugsandi var að draga fram lífið á þeirri vinnu, án þess að a. m. k. fjölskyldumenn, þegar fjölskyldufeður áttu í hlut, hungraði meira og minna. Þegar ég ræddi þetta í fyrradag, 9. nóv., voru 16 ár liðin frá því, að þessir atburðir gerðust, svo að sú kynslóð, sem nú er að vaxa upp, minnist þess varla. En afstaða Sjálfstfl. þá var táknræn fyrir þann kaldrifjaða hugsunarhátt auðmannanna í hverju þjóðfélagi, sem reyna að nota sér vægðarlaust það neyðarástand, sem skapast hjá alþýðunni á atvinnuleysistímum, til að reyna að rýra hennar kjör enn þá meir. Og það eru slíkar aðferðir, sem verkamenn eiga í vændum, ef tækist með afturhaldssömum aðgerðum ríkisstj. að koma aftur á atvinnuleysi á Íslandi. Hv. 7. þm. Reykv. getur því ekki hrundið neinu af þessu af sér með því að hrópa upp um slagorð. Staðreyndirnar tala hér svo skýrt, að ekki verður móti mælt.

Hv. 7. þm. Reykv. kom í þessu sambandi inn á afstöðu Sjálfstfl. til gerðardómsins 1942. Hann sagði í því sambandi beinlínis, að Sjálfstfl. hefði verið að hugsa um hagsmuni verkalýðsins, hann hefði borið þeirra hag fyrir brjósti, þegar hann var að koma gerðardómnum á. Í því sambandi sagði hann, að það væri vafamál, hvort verkamenn hefðu grætt nokkuð á því að fá kaupið hækkað hvað krónutölu snertir, eins og hann orðaði það. Ég lýsi undrun minni yfir þessari afstöðu hv. 7. þm. Reykv., ekki aðeins vegna þess, að hún er í mikilli mótsögn við staðreyndirnar og sannleikann, heldur einnig af því, að hún er í mikilli mótsetningu við þær yfirlýsingar, sem aðalforustumenn Sjálfstfl. hafa gefið, að það væri ekki nema eðlilegt, að verkamenn vildu hækka sitt kaup til að fá hlutdeild í stríðsgróðanum. Það er því undarlegt, þegar hv. 7. þm. Reykv. fer hér í raun og veru að taka upp þá kenningu, sem framsóknarmenn hafa oft verið með, að telja mönnum trú um, að hagur verkamanna hafi að engu leyti batnað við kauphækkanirnar 1942, en það væri verkamönnum sjálfum fyrir beztu að framfylgja gerðardómnum og halda kaupinu í því, sem það var í ársbyrjun 1942. Ef engar grunnkaupshækkanir hefðu verið gerðar á þessum árum, þá hefði sá auður, sem inn í landið kom með vinnu sjómannanna á togurunum, lent enn meir í höndum fárra manna og sú vinna, sem unnin var hjá setuliðinu, hefði verið greidd með miklu lægri kauptaxta en raun varð á. Ég skal ekki neita því, að þetta hefði sparað Englendingum og Ameríkumönnum nokkur hundruð milljónir og minnkað stórkostlega þær inneignir, sem Íslendingar áttu í erlendum gjaldeyri í stríðslok. Ég hef því miður ekki hjá mér útreikninga yfir það, en þeir hafa verið gerðir, til að sýna fram á, hvað setuliðsvinnan hefur átt mikinn þátt í þeirri auðsköpun, sem hér fór fram, og inneignasköpun Íslendinga. Ef kaupinu hefði verið haldið föstu í því, sem það var í ársbyrjun 1942, þá hefðu þessar eignir orðið 1/3 minni og þjóðin skaðazt um hundruð millj. kr. Kauphækkun sú, sem knúin var fram með því að hindra framkvæmd gerðardómsl., þýddi því það, að verkamenn hafa unnið svo hundruðum milljóna skiptir í erlendum gjaldeyri fram yfir það, sem ella hefði orðið. Enn fremur hefði þetta þýtt fyrir utan það að minnka þjóðarauð Íslendinga, að enn þá meira misræmi hefði orðið í auðskiptingunni innan lands. Þeir fáu menn, sem hafa grætt á stríðinu, hefðu þá orðið miklu ríkari, og eru þeir þó mjög auðugir nú, en fjöldi verkamanna og bænda hefði borið minna úr býtum en þeir báru, því að bændurnir fengu sitt afurðaverð ákveðið í samræmi við kaup verkamanna.

Við skulum gera okkur það ljóst, að íslenzk alþýða hefur á þessum árum, frá 1942, öðlazt vegna þessarar kauphækkunar betri afkomu en verkalýður annars staðar hefur við að búa. Íslenzkum verkalýð hefði verið haldið niðri á álíka sultarstigi og brezka verkalýðnum hefur verið haldið, ef gerðardómsfjötrarnir hefðu ekki verið slitnir. Það er því undarlegt, að hv. 7. þm. Reykv. skuli koma nú með þessa framsóknarvizku sem kenningu Sjálfstfl., því að henni hefur verið afneitað af skynsömustu forustumönnum flokksins, og þeir hafa stært sig af því, að þeir hafi viljað fylgja okkur og láta verkamenn fá maklegar réttarbætur, en hverfa frá gerðardómnum, og það væri dæmi um raunhæfni Sjálfstfl. að hverfa frá annarri eins vitleysu. Nú vill þessi hv. þm. taka allt aftur og halda fram, að verkamenn hafi líklega tapað á öllu saman. Hvers konar ástand er þetta? Hvað er það, sem er að vefjast fyrir þessum hv. þm., þegar Sjálfstfl. á að standa við það, sem hann hefur vel gert? Því að það var sannarlega mikil gæfa, að það tókst að ná samkomulagi við Sjálfstfl. um þessi sjálfsögðu hagsmunamál alþýðunnar í landinu, ekki aðeins verkamanna, heldur líka bænda, því að þeir fengu afurðaverð sitt hækkað í samræmi við kaup verkalýðsins. Það var því mikil gæfa fyrir þjóðina alla. Ég býst við, að ef hv. 7. þm. Reykv. fer að athuga sögu Sjálfstfl., muni hann reka sig á, að ýmsir forustumenn flokksins hafi hælt sér af að koma með till. um það í sinni stjórnartíð af afnema gerðardómsl. Það er því einkennileg afturför, ef hv. þm. fer að hæla þessum l. og telja, að þau hafi verið hamingja fyrir verkalýðinn. Það, sem íslenzkur verkalýður gerði á þessum tíma, var að skapa sér meiri kaupmátt, en samsvaraði dýrtíðinni, því að grunnkaup á þessum tíma hækkaði um því nær helming, úr 1,45 kr. í 2,90 kr., svo að afkoma hans varð miklu betri en áður var. Það er því ástæða fyrir Sjálfstfl. að hæla sér af að hafa verið með í að afnema gerðardómsl. Það er því ákaflega fjarri því, að þessi hv. þm. sé á réttri leið, þegar hann er að tala um, að það hefði verið gott fyrir verkalýðinn að una við þessa fjötra, sem smeygt hafði verið á hann. Það eru því mikil mistök hjá hv. 1. flm. að ætla sér að nota þetta sem einhverja röksemd fyrir því, að verkalýðurinn hefði átt að una við þessi kúgunarlög.

Ég vil svo að síðustu leiðrétta það, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði, að ég hefði sagt, að ef Sjálfstfl. hefði með sér 20% af meðlimum verkalýðsfélaganna, þá mundi þykja sjálfsagt að ganga inn á þetta. Ég sagði það ekki, heldur hitt, að ef Sjálfstfl. hefði með sér 20% af meðlimum verkalýðsfélaganna og fengi þá til að berjast fyrir þessu máli, þá hefði hann mikla möguleika til að fá það samþ. Ef t. d. í félagi eins og Dagsbrún, sem hefur 5.000 félagsmenn, en Sjálfstfl. hefði þar 1.600 fylgismenn, þá væri mjög líklegt, að þeir gætu komið svona máli fram, ef þeir væru áhugasamir um að mæta á fundum og fylgja málinu þar fram. Ef Sjálfstfl. hefði viljað vinna málið fram, átti hann að stefna að því að skapa áhuga hjá mönnum innan verkalýðsfélaganna og berjast fyrir málinu þar, en hann hefur ekki sýnt minnstu viðleitni til þess. Hann hefur ekki fengið einn einasta mann til að koma fram með till. um þetta. Þess vegna er það rétt fyrir hv. þm. að gera sér grein fyrir því, að hann er að reyna að gripa til þeirra óyndisúrræða að kúga verkalýðssamtökin undir þetta skipulag. Þess vegna er það viðkunnanlegra fyrir hv. þm. að sleppa því að koma fram með svona till. hér á Alþ., en láta sér nægja að vinna að málinu innan verkalýðsfélaganna með frjálsum aðferðum. Það er ekki rétt hjá hv. 7.þm. Reykv., að félagsstjórnir geri ómögulegt að bera fram svona till. Það eru haldnir fundir í verkalýðsfélögunum víðs vegar um landið gegn þessari till., til að mótmæla henni. Það eru sjálfsagt sjálfstæðisverkamenn í þessum félögum. Ef þeir hefðu sýnt áhuga, þá hefðu þeir getað fellt svona till. Það kom ekki eitt atkv. á móti. Jafnvel í félögum, þar sem vitað er, að Sjálfstfl. hefur hreinan meiri hluta, þar sem eru bæði atvinnurekendur og verkamenn saman, þar hefur hann heldur ekki treyst sér til að bera fram svona till. Sjálfstfl. hefur sýnt það með afstöðu sinni í þessu máli, að hann hefur ekki treyst sér til að berjast fyrir því á þeim vettvangi, sem eðlilegastur var. Það var ekki auðvelt, og þess vegna á að knýja þetta fram með löggjöf. Ég býst við, að það misheppnist, og vona það, enda verðskuldar málið ekki annað, þegar svona er að farið.