11.11.1948
Neðri deild: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í C-deild Alþingistíðinda. (3911)

39. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. var að tala um 9. nóv. deiluna. Ég er ekki viss um, að hann hafi hugmynd um, hvað sú della var. Hún var ekki vegna þess, að það væru ekki til peningar til að borga kaupið með. Það átti að borga mönnum sama kaup, en það átti bara að lengja vinnutímann. Þeir áttu að fá sama kaup fyrir 9 tíma vinnu og þeir höfðu fengið fyrir 6 tíma vinnu, svo að það var enginn barnaskapur á ferðinni þarna. Mér hefði þótt gaman að vita, hvort hv. 7. þm. Reykv. hefði haft sömu skoðun, ef hann hefði verið í sporum verkamannanna, sem Reykjavíkurbær hafði í vinnu þá, við þau skilyrði, sem þeir þá höfðu. Það er ekki óeðlilegt, þó að mönnum, sem muna þann tíma, renni í skap, þegar þeir heyra menn, sem aldrei hafa nálægt verkalýðshreyfingunni komið, gera lítið úr þessu hér í hv. d.

Viðvíkjandi hinu atriðinu, um aðstöðu verkalýðsfélaganna um kosningafyrirkomulag, vil ég segja þetta: 20% félagsmanna innan verkalýðsfélags, ef það eru starfandi menn, geta miklu ráðið. Það veit hv. þm., það vita allir, sem nokkuð hafa nálægt félagsstarfi komið. Það eru venjulega lítið fleiri en 20–30% starfandi manna innan félaganna. Það er allt annað, þegar á að fara að gefa hinum „dauðu“ og óstarfandi mönnum líf í félögunum til að ráða í þeim.