14.12.1948
Neðri deild: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (3944)

98. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Sjútvn. flytur þetta frv., sem er um mál, sem mikið hefur verið rætt af mótorvélstjórum, og var það upphaf þessa máls, að sjútvn. var sent frv. til l. um breyt. á l. um atvinnu við siglingar á þinginu í fyrra. Niðurstaðan varð þá sú, að n. flutti það ekki, en sendi það í þess stað samgmrn. með tilmælum um, að rn. athugaði þetta frv. til næsta Alþ. N. barst svo aftur bréf frá rn. 19. okt. í haust, þar sem fylgir með sú athugun, sem fram hefur farið og framkvæmd var af vélfræðiráðunaut Fiskifélags Íslands, Þorsteini Loftssyni. Eftir að n. barst þetta bréf, hefur hún farið yfir frv. og breytt því nokkuð og aðallega með tilliti til þeirra ábendinga, sem fram komu í bréfi Þorsteins Loftssonar, þannig að breytingarnar eru í raun og veru allar í áttina til þess, sem hann leggur til um málið, og hefur n. ákveðið að flytja frv. þannig breytt. — Aðalbreyt. eru í því fólgnar, að þeir menn, sem aflað hafa sér kunnáttu þeirrar, sem hið meira vélstjóranámskeið Fiskifélags Íslands hefur látið í té, skuli fá rétt til þess að vera yfirvélstjórar við mótora allt að 900 ha. og aðstoðarvélstjórar á skipum með dieselvélum að ótakmarkaðri stærð. En að vera aðstoðarvélstjóri þýðir, að það er vélstjóri, sem ekki hefur sérstæða vakt, heldur stjórnar með öðrum manni. Þeir fara þannig ekki fram á, að þessir menn fái að ganga á sérstakar vaktir og beri ábyrgð á mótorum, sem eru yfir 900 hestöfl. Þetta er í raun og veru höfuðbreyt., sem farið er hér fram á að breyta í gildandi l. Fyrri breyt., sem gerðar voru á þessum ákvæðum l. um atvinnu við siglingar 1946, voru miðaðar við lægri réttindi, en ekki að sama skapi við réttindi þeirra manna, sem hærri réttindi hafa, og mótorvélstjórafélag Íslands telur, að gæti orðið til þess, að menn yrðu hvattir til þess að afla sér sem mestrar þekkingar.

Í ljós hefur komið, að mikil nauðsyn er á því að endurskoða heildarlöggjöf okkar um vélstjórnarréttindi. Það eru að vísu tvær leiðir, sem menn geta farið til þess að öðlast vélstjórnarréttindi. Þegar þessi ákvæði voru sett, voru öll stærri skip með gufuvélum, og þeim stjórnuðu ekki aðrir en þeir, sem lokið höfðu fullu vélstjóraprófi, og þurftu þeir að hafa samtals 70 mánaða undirbúning, bæði á námskeiðum, í smiðju, vélstjóraskólanum og þar að auki reynslu. Þessir menn tóku að sér vélstjórn á gufuskipum. Svo voru mótorskip með tiltölulega litlar vélar, og þá var látið nægja að hafa einfalt námskeið til þess að kenna meðferð þeirra véla, því að þær voru þá einfaldari, en þær eru orðnar nú. Nú eru aftur á móti komnar stórar diesélvélar og margs konar vélaútbúnaður á hverju skipi, þannig að það kerfi, sem l. upphaflega voru byggð á, hefur raskazt og breytzt mjög mikið, og þess vegna er það mjög nauðsynlegt nú, að menn afli sér menntunar í samræmi við þessa breyttu tíma. Það er t. d. nauðsynlegt, að allmargir, sem nú gegna vélstjórastarfi, afli sér meiri þekkingar á dieselvélum. Enda þótt um gufuvélskip sé að ræða, þá er oft meira og minna af öðrum vélum í hverju skipi, og er þetta vissulega mál, sem þarf að athuga, bæði í samráði við Vélstjórafélag Íslands og Mótorvélstjórafélag Íslands og í samráði við sérfræðinga ríkisins á þessu sviði og kennara skólanna og námskeiðanna og enn fremur í samráði við fagmenn, sem ríkið hefur á sínum vegum.

Það, sem farið er fram á með þessu frv., eru aukin réttindi til þeirra manna, sem nú er kreppt mest að í þessum efnum, en það er að veita þeim vélstjórum, sem lokið hafa meira vélstjóraprófi frá vélstjóraskólanum, rétt til þess að fara með mótora allt að 900 ha. Benda má á, að á 29 skipum, þar á meðal nýsköpunartogurum, vinna 39 menn með undanþágu. Og ef þær undanþágur væru ekki veittar, væri ekki hægt að halda flotanum gangandi, en þessar undanþágur eru veittar án allra minnstu lagaheimildar. Það er aðeins óhjákvæmilegt fyrir þá sök, sem ég hef vikið að. Ríkið hefur tekið á sig þessa áhættu, því að vissulega er hér um nokkra áhættu að ræða. Það er t. d. ekki útilokað, að skaðabótakröfur gætu komið á ríkisvaldið, ef illa færi vegna þess, að eitthvert ábyrgðarfélag tæki upp á því að kenna því um, að ekki hefði verið nægilega mikið af fagmönnum um borð, því að óneitanlega er það yfirlýsing um skort á fagþekkingu, þegar skip eru látin sigla með undanþágu. — Þannig er nú ástandið í þessum málum hjá okkur, og því miður litlar líkur fyrir, að þetta breytist til batnaðar.

Það þarf vélstjóra, sem hafa farið gegnum vélstjóraskólann, til þess að leysa þessa undanþágumenn af á þessum 29 skipum. En þegar athugað er, hve margir eru við nám, þá eru þeir um 50 í vélstjóraskólanum, þ. e. í 1. bekk 28, en í 2. bekk 22. Í rafmagnsdeildinni eru 122 nemendur, en sú deild er hætt störfum í bili, og er því kennt um, að þá deild vanti bæði kennslubók og kennsluáhöld, og enn fremur mun vera um eitthvert ósamkomulag að ræða milli kennara og nemenda, og mun það mál vera í rannsókn að tilhlutan hæstv. ráðh. En þessi töf hjá rafmagnsdeildinni þýðir það, að hún getur ekki útskrifað frá sér nemendur í ár. Ýmsir af þessum mönnum, sem eru á hinum stærri skipum, eru eldri menn, sem þá og þegar hætta störfum og fara í land, svo að það getur farið svo, að þörfin fyrir undanþágumenn. verði enn meiri en nokkurn tíma áður, enda er svo komið, að ef þessi takmörkuðu réttindi eru ekki aukin, verður það til þess, að þessir menn leita sér atvinnu í landi og vilja ekki sætta sig við það árum saman að vinna sem undanþágumenn án þess að verða réttindamenn, og mundi slíkt horfa til stórvandræða, og yrði þá kannske að grípa til gersamlega ómenntaðra manna til þess að fara með vélar, og þarf ekki að skýra það, hvaða afleiðingar það gæti haft í för með sér. Það hljóta því allir að skilja, að mál þetta er mjög aðkallandi, ef á að tryggja það, að örugg vélgæzla sé á flotanum.

Mótorvélstjórar hafa mjög tekið fram, að það sé alls ekki meining þeirra að draga úr kröfum um menntun, heldur þvert á móti. En þeir vilja búa þannig um, að þeir hafi réttindi til þess að fara með vélar, sem þeir hafa oft verið kallaðir til að gæta, þó að þeir hefðu ekki þau réttindi, og fara þeir því fram á, að þeim séu veitt þessi réttindi.