17.02.1949
Neðri deild: 66. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í C-deild Alþingistíðinda. (3952)

98. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Áki Jakobsson) [Frh.]:

Þegar þetta mál var til umr. hér á mánudaginn, var hæstv. samgmrh. ekki viðstaddur. En eins og ég skýrði frá þá, hefur n. haft samráð við hann um þetta mál og tjáði honum þá skoðun sína, að hún teldi rétt og nauðsynlegt að breyta ákvæðum l. um nám vélstjóra þannig, að þau námskeið, bæði hið minna og hið meira vélstjóranámskeið, verði stunduð í vélstjóraskólanum í Rvík, þannig að þetta verði ein menntabraut, svo að ekki þurfi að koma til innbyrðis deilna, sem leiðir af því, að annars vegar er menntaður mótorvélstjóri, sem hefur ekki rétt til þess að stjórna stærri vélum, en 600 hestöfl, en hins vegar er vélstjóri, sem hefur ótakmörkuð réttindi, en kennsla hans er hins vegar mjög svo gölluð, þar sem hún er einkum miðuð við gufuvélar, sem eru að víkja meir og meir úr skipum okkar.

N. hefur orðið sammála um það, eftir að hafa kynnt sér málið og sjónarmið þeirra tveggja aðila, sem hér eiga hlut að máli, að flytja brtt. á þskj. 329, og eru þær brtt. samdar með hliðsjón af ábendingum, sem Þorsteinn Loftsson gaf n. Í brtt. eru aðstoðarvélstjóraréttindi miðuð við allt að 900 hestöfl. Í öðru lagi er sú breyt., að til þess að öðlast réttindi sem vélstjórar með vélar frá 600–900 hestöfl, þá þurfa þeir auk þess að vera búnir að taka hið meira mótorvélstjóranámskeið Fiskifélags Íslands og vera búnir að fá 12 mánaða reynslutíma á skipum, sem hafa vél yfir 250 hestöfl, og hafa svo tveggja ára reynslutíma auk þessa, samtals 3 ár. Þó er gerð undantekning með þá menn, sem lokið hafa minna prófi og tekið út reynslutímann samkv. þessum ákvæðum, þ. e. þessum 12 mánuðum. þeir eiga ekki að þurfa að bæta við sig nema 18 mánuðum eða allt að 2 árum. Það munu hins vegar vera margir af vélstjórum, sem hafa farið þannig til meiraprófs, að þeir hafa farið í gegnum minna vélstjóraprófið og tekið svo sinn reynslutíma sem l. mæla fyrir og eiga hægra um vik að öðlast þannig rétt til þess að fara inn á hið meira námskeið. Þó er nú svo ákveðið, að þeir komast inn á meiravélstjóranámskeið eftir 2 ár í smiðju, en það þótti rétt að taka tillit til þeirra, sem farið hafa á minna vélstjóranámskeiðið og hafa tekið út reynslutíma í þeirri grein eins og l. gera ráð fyrir til þess að öðlast þessi réttindi.

Aðrar brtt. n. eru aðeins afleiðing af þessari brtt , nema umorðun á 55. gr. l. um atvinnu við siglingar, um að heimild sé gefin ráðh., sem fer með þessi mál, þegar skortur er á skipstjórnarmönnum og vélstjórum, til að veita undanþágu frá skilyrðum þessara laga til skipstjórnar- og vélstjórastarfs, enda sé áður leitað umsagnar hlutaðeigandi stéttarfélags. N. hefur enn fremur bætt við á þskj. 361: „eða sambands þeirra“. Þetta hefur n. gert í samráði við ráðh., en það hefur verið áhjákvæmilegt að veita slíkar undanþágur. Töldum við í sjútvn. rétt, að skýlaus fyrirmæli væru um það í l., að slíkar undanþágur megi veita, og með því að binda undanþáguna við það, að leitað væri umsagnar viðkomandi stéttarfélags, þá töldum við svo um búið, að stéttarfélögin mundu ekki telja sig órétti beitt vegna þessa ákvæðis. — Þar sem hæstv. samgmrh. er kominn í d., vildi ég endurtaka það, sem ég sagði í upphafi ræðu minnar, að n. er þeirrar skoðunar, að þess sé mikil nauðsyn, að ákvæði íslenzkra laga um menntun vélstjóra verði endurskoðuð og samræmd þannig, að menntabrautin verði ein, svo að ekki þurfi að koma til þeirra árekstra, sem orðið hafa, og að hver vélstjóri geti fengið tækifæri til þess að vinna sig upp til ótakmarkaðra réttinda. N. telur sem sagt mjög óheppilegt, að menntabrautirnar séu tvær, eins og nú er, og óska ég þess að heyra hjá hæstv. samgmrh. um álit hans á skoðun n. um að samræma þurfi lagaákvæðin um menntun vélstjóranna.