06.05.1949
Efri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í C-deild Alþingistíðinda. (3972)

98. mál, atvinna við siglingar

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson) [Frh.]:

Herra forseti. Þegar ég frestaði ræðu minni hér síðast, hafði ég bent á, að sjútvn. sendi málið til umsagnar til ýmissa aðila, eins og sjá má á nál. Meiri hl. þessara aðila lét í ljós það álit sitt, að ef l. yrði breytt í þá átt, sem meiri hl. sjútvn. leggur til, veikti það öryggi skipaflotans, og vísaði þar sérstaklega til ummæla skipaskoðunarstjóra. Önnur spurningin var um það, hvort þetta mundi draga úr aðsókninni að verkstæði og skóla. Svör við þessari spurningu bárust líka frá viðkomandi aðilum, og voru 4 aðilarnir þeir sömu og svöruðu fyrstu spurningunni og voru þeir sammála um, að þetta mundi draga frá verkstæðunum, þar sem dregið væri úr námskröfunum, sem samkvæmt lögum hefur þurft til þess að öðlast réttindin. Enda er það ljóst, að ef halda á áfram á þeirri braut að taka fjölda manna inn í stéttina án þess að þeir uppfylli þau skilyrði, sem sett eru í l., þá verður endirinn sá, að ungir menn fást ekki til náms í þessari iðngrein af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi sjá þeir ekki fram á, að þeir þurfi að læra í 7–8 ár til þess að fá réttindi, og í öðru lagi sjá þeir ekki fram á, að réttindi þeirra verði vernduð. Réttindin voru aukin fyrir 2 árum og svo á að fara að auka þau aftur núna og bæta við á annað hundrað manns, sem fær réttindi til þess að fara með vélar allt upp að 900 ha. Ég þarf auðvitað ekki að lýsa því, hvílík áhrif það hefur á öryggi skipaflotans, ef stöðugt á að veita aukin réttindi án aukins náms og kunnáttu; slíkt sjá allir. Hins vegar hafa bæði Mótorvélstjórafélagið og Fiskifélag Íslands látið þá skoðun í ljós, að þetta muni ekki hefta aðgang að skólunum, en þeir færa engin rök fyrir máli sínu. Að Fiskifélagið hefur snúizt svona í málinu, virðist mest stafa af kappi milli skólanna. Ég álít, að breyta ætti l. um kennslu í þessum skólum og sameina þá, þannig að kennslan færi fram undir sama þaki, en ekki í tveimur stöðum, eins og nú er. Það á að láta alla hina verklegu kennslu fara fram í hinum nýja sal vélstjóraskólans og flytja þangað öll þau tæki, er til þess þarf. Það á að setja alla kennsluna undir eina stjórn, en ekki láta ríkið koma upp tveimur stofnunum, sem síðan bítast og rífast sín á milli. Til náms í skóla Fiskifélagsins er nú krafizt tveggja ára smíðanáms, og á það að gefa réttindi til þess að fara með 900 ha. vélar, en í vélstjóraskólanum er krafizt 3 ára smíðanáms, og þó fá menn þaðan aðeins réttindi til þess að fara með 600 ha. gufuvélar. Þetta ósamræmi er alveg ótækt og þarf nauðsynlega að lagfærast. Ef nauðsynlegt er að hafa þriggja ára smíðanám, verður það að gilda fyrir báðar stofnanirnar, en það nær engri átt, að í annarri stofnuninni þurfi 1/3 lengra nám, er gefi samt minni réttindi. Ég tel nauðsynlegt, að þessi lög verði endurskoðuð, og um það virðast flestir vera sammála, en þá verður bara að fresta þessari lagabreyt., unz sú endurskoðun hefur farið fram.

Í þessu sambandi vil ég geta þess, að vélfræðingur Fiskifélagsins hefur haldið því fram, að þeirra verklega kennsla ætti að vega upp á móti þriðja smiðaári vélstjóraskólans. Í verklega náminu er unnið 8 klst. á viku, og mun það samsvara því, að yfir allan tímann sé unnið í 1½ mánuð við verklegt nám, og sér þá hver maður, hvort það getur átt sér stað, að þessi 1½ mánuður geti samsvarað 12 mánuðum þar, sem unnið er við þessi störf frá morgni til kvölds. Ég held því, að öll rök fyrir því, að hægt sé að stytta verklega námið, séu úr lausu lofti gripin, enda segir það sig sjálft, að menn sem eiga að fara með 900 ha. vélar, verða að hafa mikla verklega reynslu, þótt þeir hins vegar verði líka að hafa stundað bóklegt nám. Nú er það svo, að ef athugað er í reglugerðinni, hvað kennt er í bóklegum fræðum, þá kemur það í ljós, að kennsla í íslenzku, dönsku, eðlisfræði o. fl. er sams konar á fyrsta vetri í báðum stofnununum. Það er því ljóst, að hér er um hreina sóun á kennslukröftum að ræða, þar sem það er kennt á tveimur stöðum, sem mætti hæglega kenna á einum.

Þriðja spurningin, sem spurt var að, var á þá leið, hvort ekki mundu útskrifast nægilega margir úr vélstjóraskólanum á þessu ári til þess að fullnægja eftirspurninni. Svar allra aðila við þessu var neikvætt, en þeir töldu hins vegar, að ekki mundi líða langur tími þar til eftirspurninni yrði fullnægt, ef ekki yrði brugðið fæti fyrir aðsóknina að skólanum.

Síðasta spurningin fjallaði um það, hvort ekki væri sjálfsagt að fresta samþykkt frv., unz lögin hefðu verið endurskoðuð. Fiskifélagið telur það hyggilegt og telur ekki nauðsynlegt að breyta. l. fyrr en þeirri athugun er lokið. Mér finnst þetta veigamikið atriði, að aðili eins og Fiskifélag Íslands telur það enga aðkallandi nauðsyn að breyta l. fyrr en að lokinni þessari athugun. Hins vegar telur Mótorvélstjórafélag Íslands ekki rétt að fresta samþykkt frv. af þessum ástæðum. En það vakir aðeins eitt fyrir þessum mönnum með því að vilja fá frv. samþ., og það er að tryggja hundrað stéttarbræðrum sínum rétt til þess að fara með vélar, sem þeir hafa enga menntun til að fara með og engan rétt samkvæmt núgildandi l., því að þeir óttast, að allur fjöldinn af þeim muni ekki geta fengið meðmæli til þess án þess að ljúka námi. Hins vegar játa ég það, að einhver hópur af þessum mönnum, sem beztir eru taldir og mesta reynslu hafa fengið, gætu fengið eitthvað af þessum réttindum, þegar l. eru endurskoðuð, því að það er ekkert nýtt, að einn maður geti komizt inn í fagið á skemmri tíma en annar. Það eru t. d. til smíðir af guðs náð, sem ekki þurfa að vera við smíðar í meira en tvö ár til þess að komast jafnvel inn í fagið eins og aðrir, sem hafa notað allan námstímann og verið 4 ár. En þetta gildir ekki um alla heildina, því að sannleikurinn er sá, að mestur fjöldinn af þessum mönnum hefur ekki kunnáttu til þess að stjórna þeim vélum, sem þeir eiga að fá réttindi til, ef þetta frv. verður samþ.

Í sambandi við þetta þykir mér rétt að benda á annað atriði. Réttindi vélstjóra, það er að segja eimvélstjóra, eru miðuð við „indiceruð“ hestöfl, það er að segja við hestöfl, sem framleidd eru af vélinni sjálfri. Hins vegar eru hestöflin eins og þau eru reiknuð hjá mótorvélstjórum allt önnur. Réttindi þeirra eru miðuð við svokölluð „bremsu“-hestöfl, sem eru töluvert minni, þannig að þetta hestafl verður 10–12% lægra, en eimhestaflið. En þetta er ekki látið nægja, heldur hefur stofnunin sjálf, Fiskifélag Íslands, sett reglur og fengið staðfestar um það, hvernig reikna skuli afl mótorvéla, þannig að mótorvél, sem er í „Herðubreið“ og er 900 ha., er samkvæmt þessum reikningi 450 hestöfl. Þannig er mönnum, sem hafa litla kunnáttu í faginu, leyft með þessu frv., ef samþ. verður, að fara með vélar, sem eru 900 ha., en hafa þá í raun og veru réttindi til þess að fara með vélar, sem eru allt að 1.600–1.700 ha. Það er því nauðsynlegt að samræma reikninginn á þessu og láta það t. d. vera „indiceruð“ hestöfl í öllum tilfellum. Þegar svo þar við bætist, að það er álit sérfræðinga þeirra, sem töluðu um þetta við n., að þörf sé fyrir miklu meiri þekkingu og menntun til þess að gæta örugglega 600 ha. dieselvélar en 600 ha. eimvélar, þá er alveg óverjandi að gefa þessum mönnum þennan rétt til þess að stjórna vélum, sem eru allt að 1.600 ha., en halda hinum, sem eru búnir að vinna lengur og hafa miklu lengri námstíma, í 600 hö.

Þá vil ég benda á, að eins og frv. er, þá er gert ráð fyrir, að fyrir „15“ komi 25, fyrir „50“ komi 75 og fyrir „600“ komi 900. Ef þessi breyt. nær fram að ganga, þá er það sýnilegt, að ef ekki verða hækkaðar aðrar tölur til samræmis, t. d. 250 ha. í 400–600 ha., þá getur maður, sem siglt hefur sem undirvélstjóri á skipi með 250 hestafla vél, farið að sigla sem yfirvélstjóri á skipi með allt að 900 hestafla vél, án þess að á hann séu lagðar nokkrar skyldur til frekari menntunar. Það er því alveg óhugsandi að breyta þessu nema að breyta 250 hestöflum í 400 hestöfl á sama tíma. Það er líka nauðsynlegt að breyta fleiri greinum, ef á að fara að breyta þessu á annað borð, og það er alveg óhjákvæmilegt annað en að láta þær breyt. bíða, þangað til l. hafa verið endurskoðuð. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda á það, að þegar þetta mál var hér til umr. í d. í hitteðfyrra og þessar breyt. komu hér til tals, lagði ég fram brtt. mínar í nál. minni til. n. á þskj. 854 þ. á. Þar vildi ég láta setja það inn, að ráðh. skipaði þriggja manna mþn., sem skipuð væri vélgæzlumönnum og öðrum, sem hefðu þekkingu á þessum málum, til þess að endurskoða l. og gera þar till. til breyt. í samræmi við þróun flotans og leggja þær síðan fyrir Alþ. Þetta var rætt, og mig minnir, að þáv. ráðh. hafi lofað að athuga þetta. Ég held, að við höfum þá eins og nú verið sannfærðir og enginn ágreiningur hafi verið um það, að þetta þyrfti að gera, en þetta mátti ekki fara í gegn þá, af ótta við það, að það yrði þá fellt. Meiri hl. þdm., sem þá voru á þingi, óttaðist, að frv. yrði fellt, ef þessi breyt. yrði tekin upp í það, þó að þeir hins vegar viðurkenndu þörfina á því. Nú hefur þetta verið tekið upp í frv., og er það aðeins til að sýna, hve nauðsynlegt það er. Hins vegar er það nú bundið við að hleypa á annað hundrað manns inn, án þess að þeir hafi til þess réttindi eða kunnáttu, og tel ég það hreinustu goðgá. Ég tel því rétt, að þær gr., sem miða að því, séu felldar úr frv. Þannig er rétt að samþ. 1. gr. óbreytta, og er það eðlilegt. Síðan legg ég til, að felldar séu allar gr., sem miða að því að hækka réttindi manna, án þess að þeim séu um leið lagðar skyldur á herðar, þ. e. a. s. greinarnar aftur að 16. gr., hins vegar verði 16. gr. látin standa, enda hefur gr. verið breytt. [Frh.]