10.05.1949
Efri deild: 102. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í C-deild Alþingistíðinda. (3979)

98. mál, atvinna við siglingar

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Það hafa nú verið slitnar sundur umr. um mál þetta í d., og er nokkuð farið að fyrnast yfir það, er fram kom í ræðu hv. form. sjútvn., sem er í andstöðu við meiri hl. n. og búinn var að flytja ræðu sína á tveimur fundum, og geri ég ráð fyrir, að hann hafi lokið við hana nú, þótt ég hafi eigi verið viðstaddur. Ég held, að það sé ekki ástæða til að fara að tína upp og svara öllum aths. í ræðu hans. Ég skal kannast við, að ýmis vafasöm atriði eru í l., eins og þau eru nú, og þörf sé á að samræma ýmis ákvæði þeirra betur og endurskoða, en gert er með fyrirliggjandi brtt. n. En ég held, að ýmis þessi atriði séu ekki svo veigamikil, að brtt. þurfi að taka upp og samþ. við þau nú. Og ég tek undir það með hv. 3. landsk. (HV), að það sé tæplega á færi Alþ. að yfirfara l., svo að ýmislegt sé tryggt betur, sem ósamræmi mætti finna í, og höfuðtilgangurinn er að ákveða almenna endurskoðun l., og þá gefst tækifæri til að breyta ýmsu eða laga og til þess, er mér þykir vera meginefni frv., að samræma vélfræðikennsluna og hafa hana helzt eigi á tveimur stöðum eða þá, ef það verður ekki gert, að a. m. k. yrði sú samræming, að kennsla Fiskifélagsins yrði aðeins hluti af almennu vélfræðikennslunni og félli í kerfi vélskólans, en öll togstreitan, er komið hefur fram í umr., skapast af því ósamræmi á framkvæmd kennslunnar, að hún skuli vera tvískipt. Talað hefur verið um það, að óeðlilegt sé að heimta svo langt nám við vélskólann sem gert er, eða fyrst iðnaðarnám og síðan 2–3 ár við skólann sjálfan, og sé ósanngjarnt að heimta það, þar eð aðrir nemendur fái sömu réttindi við mótorvélar með styttra námi, en í vélskólanum. Ég held það sé ósanngjarnt. En ég held líka, að ástæðunnar sé að talsverðu leyti að leita í veilu í uppbyggingu kennslunnar í skólanum, og þess vegna sé ekki rétt að kenna þeim mönnum úm, sem fá kennslu á námskeiðum Fiskifélagsins, heldur þurfi að hugsa fyrir því, að skipuleggja betur námið í vélskólanum, svo að hæglega megi ljúka því með minni erfiðismunum, en nú er. Ég er eigi nægilega kunnugur vélskólanum til að vera dómbær um þetta, en mér hefur skilizt, að kennslan þar hafi miklu meir verið miðuð við kennslu í meðferð gufuvéla, en mótorvéla, og það er víst, að fræðsla sú, sem þarna hefur verið gefin til að stjórna mótorum, hefur verið fræðileg einvörðungu, en ekki verkleg. Skólinn hafði áður ekki nægilegt húsnæði til þess. Hins vegar er ekki, þótt nú sé það orðið gott, búið að koma upp vélum til þess að nemendur gætu fengið verklega æfingu við námið. En á námskeiðum Fiskifélags Íslands hefur verið meira verklegt nám, og það vita líklega allir, að meiri færni gefst með því móti en bóklega námið getur veitt eitt. Reynslan gefur meiri færni en bóklegt nám. Ég held, að því verði tæplega mótmælt, að þrátt fyrir þennan mismun hefur reynslan þó sýnt, að kennsla, sem aðallega er fólgin í verklegu námi, auk verklegrar reynslu, á námskeiðum Fiskifélags Íslands, gefur eigi lakari færni en hin, í vélskólanum, og því fyllilega sambærileg við hana. Komið hefur fram, að það eru eigi eingöngu mótorvélstjórarnir sjálfir, sem leggja áherzlu á, að rétt sé að veita þessum mönnum réttindin, heldur kom það líka fram m. a. í bréfi hæstv. siglingamálaráðh., þar sem framkvæmdastjóri eins útgerðarfélags hér, skipstjóri á viðkomandi skipi og 1. vélstjóri, sem útskrifaður er frá vélskólanum, undirrituðu yfirlýsingu um það, að þeir gætu ekki misst menn þá úr þjónustu sinni, sem útskrifaðir eru frá námskeiðum Fiskifélagsins, þótt þeir fengju menn í staðinn frá vélskólanum. Það er því alls ekki einhliða áróður af hendi þessara manna, heldur virðist það vera sjálf þörfin, sem knýr á, og vegna þessarar staðreyndar hefur meiri hl. n. fallizt á, að nauðsynlegt sé að samþykkja þessi auknu réttindi þrátt fyrir endurskoðun þá, sem fram á að fara á l.

Það hefur verið talað um umsagnir, sem n. hefur fengið um frv., og því haldið fram, að fleiri þeirra væru á móti samþykkt frv. og teldu minnkandi öryggi mundu stafa af þessu en hinar, þær er ekki teldu rýrnun fólgna í ákvæðum frv. Útkoman verður að sönnu þessi, en flestar þessar umsagnir stjórnast af þeirri togstreitu, er skapazt hefur milli þeirra, er útskrifaðir eru af námskeiðunum, og hinna, úr vélskólanum. Þótt Vélstjórafélag Íslands, skólafélag vélskólans og skólastjóri hans leggi á móti frv., þá má leggja það að jöfnu við umsögn Mótorvélstjórafélags Íslands, sem mælir með þessu, þótt það stjórnist af hagsmunum, og að sumu leyti af Fiskifélagi Íslands, sem mælir með þessu. Hér eru því fyrir hendi umsagnir frá tveimur hliðum, sem hvorar tveggja stjórnast af hagsmunum þeirra manna, sem þar eiga hlut að máli, og legg ég því að jöfnu þessar skoðanir, þótt tala þeirra sé eigi jöfn. Það, sem telja má, er umsögn skipaskoðunarstjórans, er á að vera hlutlaus, og hann telur þetta draga munu úr öryggi flotans, en sú skoðun hans er einkum byggð á því, að nemendur í vélskólanum hafi meira smíðanám og því meiri viðgerðarhæfileika, en nemendur frá Fiskifélaginu. Ég legg eigi lítið upp úr svari hans, en þetta liggur því til grundvallar. Mér hefur þó skilizt, að eigi væri mjög mikið gert að því að gera við um borð úti á hafi, heldur aðallega þegar skipin væru komin til hafnar, ef þau gætu það sjálf og gætu fengið viðgerðir á vélaverkstæðum í landi. Er því ekki nauðsynlegt að leggja mikið upp úr þessari umsögn, þótt hún mæli heldur gegn frv. Á hinn bóginn er þetta hin eina umsögn, sem segja mætti, að ástæða væri til að taka til greina, en hinar vil ég leggja að jöfnu. Enn hafa komið fram sterkar raddir frá útgerðarmönnum, að þeir óski eftir, að viðkomandi menn geti fengið umgetin réttindi. (GJ: Hvar eru þau gögn? Ég hef ekki séð þau.) Hv. form. sjútvn. veit vel um þetta. Sumt hefur komið fram í bréfum, annað í viðtölum. Nú, hv. form. sjútvn. minntist á það í ræðu sinni í byrjun þessarar umr., að hér væri um á 2. hundrað manns að ræða, sem fengju aukin réttindi, ef frv. yrði samþ., um 150, þó að þar geti skakkað nokkru. En ég held, að þessi tala sé ekki svo stór, heldur mun hún lægri. N. hefur borizt skýrsla með upplýsingum um, hversu margir vélstjórar séu starfandi á skipum með yfir 600 hestöfl, þeir er fá mundu aukin réttindi, en þó eigi allir, og sumir eru á skipum með stærri vél. Í þessari skýrslu til n. eru tilgreind skip og vélstjórar, sem vinna með undanþágu á skipum með yfir 600 hestöfl. Skipin eru 29 og vélstjórarnir á þeim 39. Flestir þessara manna starfa sem aðstoðarvélstjórar á nýsköpunartogurunum og eru yfirleitt menn, sem hafa réttindi við 400 hestafla mótorvélar. Þessir menn gætu komið til greina að fá aukin réttindi við 600–900 hestafla vélar, en þó eru þeir aðeins 39 að tölu, en eigi á annað hundrað. Nú er hægt að deila um, hvort flotanum muni stafa hætta frá að veita þessum mönnum aukin réttindi. Þó eru þetta menn, er starfa á skipunum eins og er, og stafi skipunum hætta frá starfi þessara manna, þá er hún þegar fyrir hendi. Breytir þetta því engu.

Nú, eins og ég sagði áðan, geri ég ekki ráð fyrir, að það leiði til frekari niðurstöðu, að við körpum meira um einstök atriði siglingal. Verður að skera úr því með atkv. um þetta sem annað, hvort farið verður að till. meiri hl. n. eða meiri hl. d. vill fallast á brtt. hv. form. sjútvn., þm. Barð. En ég vil aðeins drepa á annað atriði, sem ekki er komið inn í umr. enn þá. Þegar n. hafði lokið störfum og 2. umr. var hafin, sendu nemendur vélskólans bréf til allra hv. þm., þar sem þeir vekja athygli á, að í l. sé hvergi skýringarákvæði um, hvort menn frá vélfræðideild skólans hafi sömu réttindi og menn frá námskeiðum Fiskifélagsins, og mér finnst, að þetta sé ekki tekið berum orðum fram. Þess vegna flyt ég brtt. á þskj. 649, er mælir fyrir um, að menn, sem lokið hafi prófi frá vélfræðideild vélskólans í Rvík, skuli njóta sömu réttinda og menn, er útskrifaðir eru frá námskeiðum Fiskifélagsins. Því að það liggur í hlutarins eðli, að þessir menn eiga ekki að hafa minni réttindi en námskeiðsmennirnir, og ég hef talið augljóst, að þeir, sem lokið hafa þessu námi við vélskólann, hefðu átt að hafa ekki minni réttindi en hinir. En eftir að ég hafði lagt fram þessa till., hafði ég spurnir af því, að þrátt fyrir það, að ekki væru skýr ákvæði um þetta í l., hefði framkvæmdin verið á þá leið, sem ég tel sjálfsagt, að þessir menn nytu þessara sömu réttinda og væru, þegar svo bæri undir, skráðir á skipin alveg jafnt og menn frá námskeiðum Fiskifélagsins. Nú hef ég rætt um þetta við hæstv. siglingamálaráðh. og óskað eftir því, að hann gæfi um það yfirlýsingu hér í d. undir umr. um þetta mál, að svo mundi verða framvegis eins og undanfarið, að ekki yrði gerður munur á þessu, þannig að menn, sem stunda nám í 2 ár, nytu alveg sömu réttinda og ætlað er samkv. þessu frv., sem nú liggur fyrir, að menn frá námskeiðum Fiskifélagsins komi til með að njóta. Nú er hann ekki staddur í þ. í dag, svo að ekki er tækifæri fyrir hann að gefa slíka yfirlýsingu nú við þennan hluta umr., og ef henni verður lokið nú, þá ekki við þessa umr. Ég mundi þess vegna, ef til þess kæmi, að umr. yrði lokið og atkvgr. færi fram, taka till. mína á þskj. 649 aftur, a. m. k. til 3. umr., eða þangað til hæstv. ráðh. hefði tækifæri til að gefa þessa yfirlýsingu, og ef hún kæmi fram, mundi ég taka till. aftur að fullu, því að tilgangur hennar er ekki annar, en sá að tryggja, ef ágreiningur yrði um skilning á l., að vélskólamennirnir nytu ekki minni réttinda en hinir. Þetta atriði verður að bíða fyrst um sinn, en að lokum vil ég ítreka það, að ég hef, eftir þær upplýsingar, sem fram hafa komið, komizt að þeirri niðurstöðu, að það felist engin hætta í eða öryggisleysi fyrir fiskiflotann, þó að þeim mönnum, sem nú starfa og hafa starfað árum saman við vélgæzlu af þeirri stærð, sem hér um ræðir, séu veitt þau réttindi, sem um er að ræða samkv. þessu frv. Vil ég fyrir hönd meiri hl. n., mæla með því, að það verði gert. En ég vil leggja höfuðáherzluna á það, að megintilgangurinn með þessu frv. er þó sá að koma því til leiðar, að almenn endurskoðun á vélstjóranáminu fari fram, með það fyrir augum, að það verði samræmt betur en nú er og að með þeirri endurskoðun verði lagður grundvöllur að því, að sú togstreita, sem um þessi réttindi hefur staðið undanfarið og stendur enn, þurfi ekki að eiga sér stað framvegis, vegna þess að þetta verður þá allt sett í eitt heildarkerfi.