16.05.1949
Efri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í C-deild Alþingistíðinda. (3996)

98. mál, atvinna við siglingar

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Þetta mál hefur verið til umr. í n. í morgun og hefur engin breyt. orðið á afstöðu þeirri, er kom fram við afgreiðslu málsins í d. Ég og hv. þm. Barð., sem erum í minni hl., getum ekki sætt okkur við frv. eins og það er nú komið frá Nd. eða eins og það var, er það var fyrst hér til umr., algerlega á annan veg en þessi hv. d. afgreiddi það. Það hefði verið æskilegt, að frv. hefði náð samþykki eins og það var samþ. hér, m. a. vegna undanþáguheimildarinnar, en þar sem ekki virðast tök á því, ber minni hl. fram eftirfarandi dagskrártill. :

„Deildin telur mjög varhugavert að gera þá bráðabirgðabreytingu á lögunum, sem stefnt er að með frv., og í trausti þess, að ríkisstj. láti fara fram gagngera endurskoðun á lögunum og leggi frv. um það efni fyrir næsta Alþingi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.

Ég sagði áðan, að æskilegt hefði verið, að frv. hefði náð fram að ganga eins og þessi hv. d. afgreiddi það. Eftir ræðu hæstv. ráðh. að dæma virðist vera þörf fyrir þessa vélamenn, en ég sé ekkert athugavert við það, þó að hóflegar undanþágur séu gefnar þeim, sem hæfir teljast til þessarar vélgæzlu, meðan ekki hefur endanlega verið gengið frá l. Hins vegar fæ ég ekki séð, að undanþáguþörfin sé fullnægjandi ástæða til að breyta l. til bráðabirgða, er þurfa að vera vel og örugglega úr garði gerð. Það skynsamlegasta er, og öllum ber saman um, að það sé full nauðsyn, að gera gagngera og trausta framtíðarbreyt. á l. Það viljum við í minni hl. gera, en ekki þessa bráðabirgðabreyt.