16.05.1949
Efri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í C-deild Alþingistíðinda. (4002)

98. mál, atvinna við siglingar

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Ég vil ekki lengja umr. um þetta mál, en ég er tilneyddur að segja nokkur orð í tilefni af þeirri skýringu, sem hæstv. samgmrh. gaf hér áðan, og yfirlýsingu þeirri, sem hann gaf við 2. umr. Hann gat þess réttilega, að þessi yfirlýsing væri gefin í tilefni af viðtali, sem ég átti við hann um þetta efni, en ég heyri það nú, að hann hefur misskilið málflutning minn í því efni. Það kemur fram, að hann byggir yfirlýsingu sína á því, að þeir vélstjórar frá vélstjóraskólanum, sem hafa réttindi til gæzlu véla yfir 900 hö., skuli að sjálfsögðu einnig njóta réttinda með minni vélar. En það var ekki þetta, sem ég átti við, heldur, að það er í rauninni hvergi tekið fram beinum orðum um réttindi vélskólamanna til gæzlu mótorvéla upp að 900 hö., heldur er aðeins getið réttinda þeirra til gæzlu véla yfir 900 hö., og er þá sett fyrir því sem skilyrði, að þeir hafi einnig lokið námi við rafmagnsdeild vélskólans. En það, sem ég átti við, var hitt, að þeir menn, sem numið hafa vélfræði sína í 2 ár á vélfræðideild skólans, hljóti að eiga að hafa ekki minni réttindi til gæzlu mótorvéla, en menn frá mótornámskeiðum Fiskifélagsins. Og þar sem nú er líka gert ráð fyrir því, eins og frv. liggur nú fyrir, að menn frá námskeiðunum fái réttindi upp að 900 hö., þá skilst mér, að það hljóti að liggja í hlutarins eðli, að vélskólamenn með tveggja ára nám hafi ekki minni réttindi hvað þetta snertir. En gallinn er, að um þetta vantar nógu skýr ákvæði í l. Sú yfirlýsing, sem ég óskaði, að hæstv. ráðh. gæfi, var sú, að þessir menn njóti réttinda til gæzlu mótorvéla upp að 900 ha, þó að þeir hafi ekki lokið námi í rafmagnsdeild. Eftir að þetta hefur nú komið fram, sé ég mér ekki annað fært en að taka upp meginatriðið í brtt. minni, sem ég flutti við 2. umr., en tók þá aftur. En til þess að hún verði ekki misskilin vegna þessarar sundurgreiningar vélfræðinámsins, hef ég bætt hér inn í hana, að þeir, sem hafi lokið meira prófi, þ. e. a. s. þeir, sem hafa stundað þar vélfræðinám í tvö ár, skuli njóta réttinda o. s. frv. Ég skal ekki fjölyrða um þetta frekar. Ég tel það svo sjálfsagðan hlut, að þessir menn eigi að njóta þeirra réttinda, sem hér um ræðir, að ég ætlaði að komast hjá því að flytja um það sérstaka brtt. með því að fá yfirlýsingu frá hæstv. ráðh., því ég sé ekki, að það sé í rauninni hægt að framkvæma þetta á annan hátt, þó að einhverra hluta vegna hafi láðst að setja um þetta nógu skýr ákvæði í l. En þar sem nú er ekki lengur nein stoð í yfirlýsingu hæstv. ráðh., sé ég ekki annað fært en að taka upp brtt. að nýju og legg hana hér með fram.