17.05.1949
Efri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í C-deild Alþingistíðinda. (4007)

98. mál, atvinna við siglingar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þó að þetta mál sé faglegs eðlis, hygg ég, að flestum sé ljóst, að hér er um að ræða hatramma deilu milli þeirra, er stunda nám í vélskólanum í sex ár og sjö mánuði, og hinna, er verið hafa á meira námskeiði Fiskifélags Íslands, en námstíminn þar er tvö ár og sex mánuðir. Hv. dm. er þetta efalaust ljóst. Spurningin er sú, hvort rétt sé að veita þeim síðari rétt til gæzlu 600–900 ha véla.

Ég tel affarasælast í þessu heita deilumáli, að engin breyt. sé gerð áður en endurskoðun hefur farið fram, enda hefur hæstv. ráðh. sagt, að hann muni sjá um það, að hún fari fram í sumar. Ég lít svo á, að verði réttindaaukning námskeiðsmanna knúin fram nú, muni vélskólamenn leggja á það aukna áherzlu að fá það tekið út úr l. og um það verði aftur harðar deilur. Ef Alþ. víkur frá sér að taka efnislega afstöðu, og þm. hafa ekki heldur sérþekkingu á þessum málum, hygg ég, að ekki verði eins miklar deilur um málið.

Ég geri ráð fyrir, að bezt sé að skipa þriggja manna n., þar sem sinn sérfræðingurinn verður frá hvorum aðila og einn maður frá stj. Það, sem n. þarf að gera, er að samræma námið, svo að það verði allt undir einum hatti og hægt verði fyrir námskeiðsmenn að fá réttindi með lítilli viðbót. Það er hægt að leysa málið nú með því að taka ekki efnislega ákvörðun, en knýja fram endurskoðun. Þá verður málið leyst til frambúðar. Það á ekki að láta kné fylgja kviði nú, — það er hending, hver verður ofan á, og við erum ekki fagfróðir, — heldur eigum við að bíða og fá málið í hendur fagfróðum mönnum frá báðum aðilum, og síðan er hægt að taka ákvörðun um það.

Hæstv. ráðh. fór inn á undanþágumennina. Um þá er það að segja, að mér finnst, að þeir þurfi að víkja fyrir fyllsta prófrétti. Þannig mundi hæstv. ráðh. fara að, ef um gervismíði í iðnaði væri að ræða. Þeir yrðu að víkja fyrir fyllsta réttar mönnum. Auk þess er hér bara um nokkra mánuði að ræða, og ég sé ekki, að þeir bíði neitt tjón af þeirri bið. Mér er sagt, að aðeins sé um að ræða sex 600–900 ha skip, svo að það er enginn aragrúi, sem á komandi sumri fengi atvinnu í sambandi við þetta. Það er því ekkert, sem knýr fram samþykkt frv. Það bætir aðeins úr atvinnuþörf fárra manna, og undanþágur hafa verið veittar og má gera það áfram. Það er því réttast að samþ. dagskrártill. og fá umsögn fagmanna um málið. Það er skynsamlegasta lausnin, og ég mun fylgja henni.