24.01.1949
Neðri deild: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í C-deild Alþingistíðinda. (4017)

108. mál, Framfarasjóður búnaðarsambanda

Steingrímur Steinþórsson:

Það eru aðeins örfá orð. Ég geri ráð fyrir, að þetta frv. fari til þeirrar n., sem ég á sæti í, og sé því ástæðulaust að ræða það mikið nú. En af því að það gætir talsverðs misskilnings, bæði í grg. frv. og eins í því, sem hv. frsm. sagði nú í sinni framsöguræðu, þá þykir mér rétt að segja örfá orð um þetta mál. Hv. frsm. taldi nefnilega, að það hefði verið ákvörðun stjórnar Búnaðarfélags Íslands að skera niður framlög til búnaðarsambandanna 1948. En þetta er misskilningur. Stjórn Búnaðarfélags Íslands hefur ekkert haft með þetta að gera, það er búnaðanþing, sem sat í ársbyrjun 1947 og semur fjárhagsáætlun fyrir tvö ár, 1947–48, sem hefur með þetta að gera, og fyrir árið 1947 er alveg sama fjárveiting til búnaðarsambandanna og áður hafði verið, en búnaðarþing, einmitt fulltrúar búnaðarsambandanna, 25 menn, kosnir af öllum búnaðarsamböndum landsins, samþykkja það einróma að gera þessa ráðstöfun fyrir árið 1948, að lækka framlagið til búnaðarsambandanna um helming og geyma féð, og þeir lýstu yfir, að þetta fé verði ekki eyðslueyrir, og það fé er geymt. Búnaðarþing kemur saman eftir fáa daga og gerir sínar ákvarðanir fyrir næstu 2 ár í samræmi við það, sem þá er vitað um afgreiðslu fjárl. fyrir þetta ár, o. s. frv. — Það var þetta, sem ég vildi leyfa mér að taka fram, að það er ekki rétt að beina þessu að stjórn Búnaðarfélags Íslands. Það eru fulltrúar búnaðarsambandanna sjálfra, sem gerðu þessa ályktun. Einnig vildi ég taka það fram, að þetta fé er ekki eyðslueyrir, heldur er það geymt, og það er að vissu leyti rétt hjá hv. frsm., að þetta fé var lagt til hliðar til að eiga eitthvað til góða í sérstökum tilgangi. — Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar nú, en læt það bíða þangað til búnaðarþing kemur saman, sem mun hafa samráð við ríkisstj. og Alþ. um það fé, sem lagt verður fram í þessu skyni. Hins vegar er ég hv. flm. að vissu leyti alveg sammála um það, að full þörf er á meira fé fyrir búnaðarsamböndin. Hitt er annað mál, að ég tel nokkuð mikið sagt í grg., þar sem talað er um óverjandi ráðstöfun hjá Búnaðarfélagi Íslands. Það er þá þessi óverjandi ráðstöfun búnaðarþingsfulltrúanna, sem hér er um að ræða, — það, að þeir tóku þá ákvörðun að leggja til hliðar þessa fjárhæð og geyma hana til þess, sem talað er um, góðra hluta, og það verði unnið að þeim. Ég vil svo gera það að till. minni, að þessu máli verði vísað til búnaðarþings, ef það fer til landbn., svo að búnaðarþing sjálft fái að svara fyrir sig vegna þeirra ásakana, sem hér eru á það bornar í grg. Að öðru leyti er ég sammála um þörfina fyrir fé til búnaðarsambandanna, en þetta er sjálfsögð leið í málinu nú, að því er mér virðist. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál að svo stöddu.