24.01.1949
Neðri deild: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í C-deild Alþingistíðinda. (4018)

108. mál, Framfarasjóður búnaðarsambanda

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Mér liggur við að þakka hv. 1. þm. Skagf. fyrir það, sem hann sagði. Mér virðist á honum, að hann sé þessu frv. samþykkur, a. m. k. að vissu leyti, því að sú skoðun kom fram hjá honum, að búnaðarsamböndin þurfi að fá meira fé, og efast ég ekki um, að hann beiti áhrifum sínum að því að rétta þeirra hlut. Sú ásökun, sem hann talar um, að í grg. sé borin á Búnaðarfélag Íslands. segir hann, að sé ómakleg, vegna þess að það sé ekki stjórn Búnaðarfélagsins, sem stóð að þessari samþykkt, heldur búnaðarþing allt, og má það vel vera. Og ef ásökunum er beint að skökkum aðila, þá er sjálfsagt að biðjast afsökunar á því, og þykir mér gott sem 1. flm. að eiga hauk í horni, þar sem er búnaðarmálastjóri, til þess að rétta hlut búnaðarsambandanna, og það er sérstakt tækifæri til þess nú, þegar búnaðarþing kemur saman. Ég vissi það, að þessu fé er ekki eytt, það er til, og þess vegna er tækifæri til þess að rétta hlut búnaðarsambandanna, bæði með því að fé er lagt til hliðar og eins með því að samþykkja þetta frv. Ég tel óþarft á þessu stigi málsins að hafa fleiri orð um þetta frv., en endurtek það, að ég legg til, að það fari til landbn., og er að sjálfsögðu alveg samþykkur því, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að þessu frv. verði síðan vísað til búnaðarþings, svo að það geti svarað þeim ásökunum, sem að því er beint, og ég tel þörf á því, að búnaðarþing endurskoði sína afstöðu í þessu máli rækilega.