26.04.1949
Neðri deild: 93. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í C-deild Alþingistíðinda. (4022)

108. mál, Framfarasjóður búnaðarsambanda

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Fyrir nokkru voru um það harðar deilur í þinginu að skaffa búnaðarsamböndunum verulegar tekjur með því að láta þau hafa fé þess sjóðs, sem þá var stofnaður, búnaðarmálasjóðs, og fengu þau það í 2 ár. Fyrir rúmum 2 árum var svo um það samið, að þetta fé skyldi að helmingi af þeim tekið, og á sama tíma kom í ljós, að framlag til búnaðarsambandanna hafði af Búnaðarfélaginu verið minnkað allverulega, og með tilliti til þess er frv. það, sem hér liggur fyrir, flutt snemma á þessu þingi. Það var sent búnaðarþingi til umsagnar, sem haldið var núna í vetur, og mælti það eindregið með samþykkt þessa frv., þó með nokkrum breyt. á 2. gr. Hefur landbn. orðið sammála um að leggja til á þskj. 559, að frv. verði samþ. með þessum breyt. við 2. gr. Eins og nál. ber með sér, skrifar einn nm., hv. þm. V-Ísf., undir með fyrirvara, sem hann að sjálfsögðu gerir grein fyrir. En með því að ég geri ráð fyrir, að álit n. verði tekið til greina af hv. d., sé ég ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð að svo komnu.