28.02.1949
Neðri deild: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í C-deild Alþingistíðinda. (4062)

140. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leggja örfá orð í belg, einkum vegna þess, að mér er alveg óskiljanlegur sá æsingur, sem virðist vera hér í sumum hv. þm., þegar þetta mál er rætt. Mér skilst, að efni þessa máls sé það, að viss hluti af skemmtanaskattinum eigi að ganga til félagsheimila, sem, eins og kunnugt er, má telja málefni, sem miðar til almenningsheilla, eins og á hinn bóginn kvikmyndahúsarekstur, sem er til styrktar málefni, sem miðar að — almenningsheill, er undanþeginn skemmtanaskatti. Spurningin virðist því vera sú, hvort ástæða sé að taka skatt frá þeim kvikmyndahúsarekstri, sem nú hefur forréttindi, undanþágu frá skatti, og láta þessar tekjur, sem að sjálfsögðu miða til almenningsheilla þar sem þær eru nú, á annan stað, sem ætlað er að miða til almenningsheilla. Þetta getur verið álitamál. — Ég tók eftir því hjá hv. þm. Borgf., að hann benti á sérstakt kvikmyndahús. Mér þótti nú, þegar hann sagði þetta, athugandi, hvort eigi væri of langt gengið í því að undanþiggja það skatti, því að miðað er við það, sem unnið er að með félagsheimilunum. Það er raunar mikilsvert varðandi öll kvikmyndahús, hvernig þau eru rekin. Hv. ræðumaður benti á tekjuafganginn af Tjarnarbíói og öðru húsi til og minntist líka á Tripolibíó, en önnur eru ótalin. Það er ekki óeðlilegt, að frv. er komið fram um þetta. Hins vegar er ekki eðlilegt að fella það við 1. umr. málsins, því að full ástæða er til að athuga það í n., hvort hin kvikmyndahúsin hafi sambærilega aðstöðu við félagsheimilin. Það verður að skyggnast um í rekstri þeirra. Eigi er t. d. grunlaust um, að Tjarnarbíó hafi yfirboðið önnur kvikmyndahús varðandi erlendan gjaldeyri til kvikmynda. Verið getur, að það verði til þess, að menn heimti meiri gjaldeyri en verið hefur. Það verður þó að gefa að einhverju leyti lausan tauminn um rekstur húsanna. En mér þykir engin ástæða til að ræða þetta mál af æsingu. Hugmyndin er komin fram, að styrkja félagsheimilasjóðinn. En það hefur komið fram, að verið geti með sum kvikmyndahúsin, að draga verði kröfurnar í land. Verður að gera sér grein fyrir þessu og athuga málið ítrekara í n. Mun ég því fylgja frv. við umr. og til n.