28.02.1949
Neðri deild: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í C-deild Alþingistíðinda. (4063)

140. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Pétur Ottesen:

Það mun víst fremur vera hæstv. samgmrh., sem kveikti í 1. flm. þessa frv., svo að hann fór allgeyst hér við umr. og lét hið sama ganga yfir mig og hæstv. ráðh., þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu, að við værum báðir á móti því, að frv. gengi til 2. umr., en ég lýsti yfir fylgi mínu við, að það gengi til 2. umr. og n. Ég gerði þetta um leið og ég vék orðum mínum til væntanlegrar n.

Hv. þm. sagði, að ég stæði á mínum skækli, og er það rétt að því leyti, að ég stend á ákveðnum skækli í málinu. Ég nota nú þessi orð sisvona, eins og hv. þm. Ég stend á því, að þar sem um er að ræða mannúðarstarfsemi, þá eigi Alþ. frekar að stuðla að því, að þeir menn, er gangast fyrir henni, geri þetta. Er því fé vel varið, sem gefið er í því skyni að létta undir með olnbogabörnum þjóðfélagsins, sjúklingum o. fl. og láta sólskinið skína á gamla fólkið í elli þess. Álít ég gott um það að segja að láta gjafir renna til þessara hluta, og þær verða þá til þess að létta undir þá starfsemi, er á að vera skjól fyrir þetta fólk. En komi Alþ. fram með það álit, að skattleggja eigi þetta fé og taka það til annarra hluta, verkar það í öfuga átt við uppörvun til mannanna. Á þessum skækli vil ég standa, og ég vil, að þ. standi á þessum grundvelli, því að hér er um grundvallarákvæði í l. að ræða. Þegar frv. var hér á ferðinni á þ. 1947, þá vildi hv. þm. eigi skerða þetta skattfrelsi. En nú rennur það allt í einu upp fyrir honum. Vildi ég því leggja áherzlu á það, að þ. athugi sinn gang, en láti ekki lítt hugsaða till. hlaupa með sig í gönur. Það var þess vegna, að ég tók til máls áðan. Fjöldi er til af ýmsum mannúðarsjóðum, sem flestir eru undir stjórn stjórnarráðsins, og engir skattar eru lagðir á þessa sjóði. Alþ. gerir ekkert til að draga úr tilgangi þeirra. Hér er á hinn bóginn gengið í berhögg við þetta allt saman. Nú á að fara að skattleggja fé, sem lagt er til mannúðarstarfsemi. En það á eigi við hér að vera að kasta að manni kaldyrðum, þótt hann bendi á þetta mikilsverða atriði. Hv. þm. var að kasta því að mér, að ég væri ekki sérlega staðfastur í því að stuðla að hagsmunum dreifbýlisins, þessi afstaða mín bryti í bága við hugsjónir hans. Nú er náttúrlega munur á því, hvernig menn beita sér fyrir hagsmunamálum dreifbýlisins, hvort þeir gera það með raunveruleikans tillögum eða orðaskvaldurstillögum einum. En ég vil benda á eitt atriði, úr því að verið er að minnast á dreifbýlið. Kaupstaðir landsins eiga jafnan rétt til fjárins á við það. Nú er meiri hluti þjóðarinnar í kaupstöðunum. Má því búast við, að mikill meiri hluti fjár þessa renni til þeirra, þó að dreifbýlið sé eigi látið afskipt. Þannig er það varðandi æskulýðshöll þá, sem á að fara að reisa hér í Rvík. Gengur mikill hluti fjárins, eða 50%, í félagsheimilasjóð, en 40% eiga að fara til þjóðleikhússjóðsins. Til þess er féð, og málið snýst um þetta og ekkert annað. En varðandi þ. 1947 vil ég benda á till. mína um þau 45%, er ganga áttu til þjóðleikhússjóðs, og önnur 45%. til félagsheimilasjóðs. Ég lagði til, að 65% væru látin ganga til félagsheimilasjóðs, en ekki nema 25% til þjóðleikhússjóðs, þegar þess væri gætt, að hann hefði lengi búið einn að öllum skattinum. En þessar till. voru báðar felldar. Hlutföllin breyttust þó svo, að 50% voru látin ganga til félagsheimilasjóðs, en 40% til þjóðleikhússjóðs. — Ég vil benda á þetta sökum þeirra brigzlyrða um lélega frammistöðu fyrir dreifbýlið, sem ég hef verið borinn. Var þetta miðað við það, að ganga ætti til allra félagsheimilanna, en minni hlutinn hlýtur að ganga til dreifbýlisins, hversu sem niðurstaðan verður á fyrsta stigi málsins.

Ég þarf nú raunar eigi að segja fleira um þetta mál. Ástæðulaust er að gera það að æsingamáli, þó að menn taki sínar ákvarðanir, enda hef ég eigi stuðlað að því. Hef ég reynt að flytja mál mitt af mestu hófsemi.

Hv. flm., þm. N-Ísf., gerði samanburð á bæjarrekstri og rekstri einstakra manna. Það á ekki við ummæli mín. Á Akranesi er aðeins eitt kvikmyndahús, og er það rekið með þeirri hagsýni, að meiri getur hún ekki orðið. Það er ekki heldur starfsgrundvöllur nema fyrir eitt kvikmyndahús á þeim stað, þar sem um er aðeins að ræða ca. 600–700 manns. Hv. flm. gat eins kvikmyndahúss á Ísafirði, er undanþegið er skatti. Það hefði ekki gefið nema um 15 þús. kr. í tekjuafgang. Þótti mér það nokkuð lítið, en mér skildist svo, að ætti að leggja skatt á það kvikmyndahús, mundi hann éta upp hinn litla hagnað, og legðist þá kvikmyndahúsrekstur niður á Ísafirði. Hver yrði þá ævin fyrir þá, sem góðs eiga að njóta af þessu fé?

Ég skal nú ekki fara fleiri orðum um þetta mál. Ég vil, að bæði þ. og n. taki það til athugunar, að orðin er föst og að kalla má fastskorðuð regla á landi hér að skerða ekki menningar- og mannúðarsjóði með því að leggja á þá skatta. Það er ekki gert við aðra sjóði. Þá er ég þakklátur hv. 7. þm. Reykv. (JóhH) fyrir það, hvernig hann tók í málið. Tók hann í strenginn með mér, sérstaklega varðandi þetta efni, sem nú var rætt.