01.03.1949
Neðri deild: 73. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í C-deild Alþingistíðinda. (4066)

140. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. N-Ísf. minntist á eitthvert hús hér í gær, sem hann sagði, að hefði 350 sæti og mundi ekki greiða skemmtanaskatt til ríkissjóðs. Aðspurður skildist mér, að þessi hv. þm. hefði sagt, að þetta hús væri á Ísafirði. Nú er það svo með Alþýðuhúsið á Ísafirði, sem jafnframt er kvikmyndahús, að það hefur ekki 350 sæti, heldur 312 sæti. Það kannske skiptir ekki svo miklu máli, en sýnir aðeins, að hv. þm. N-Ísf. fer ekki mjög nákvæmlega út í þær upplýsingar, sem hann er að gefa hér í þessu máli. Annars virtist mér þó bregða meir út af, ef þessi hv. þm. hefur verið að láta þess getið, að þetta hús greiddi ekki skemmtanaskatt. Það er alveg rangt. Bíóhúsið á Ísafirði greiðir fullan skemmtanaskatt til ríkissjóðs og hefur á árunum 1940 til 1949 greitt 329 þús. kr. Og þetta hús er rekið af verkalýðsfélögunum og ágóðinn af því rennur í sjúkrasjóð félaganna. Samt sem áður hefur það ekki sloppið við að greiða venjulegan skemmtanaskatt, og til bæjarsjóðs greiðir þessi stofnun, sem eingöngu er rekin í mannúðarskyni, 15% af brúttóhagnaði af fyrstu 35 þús. kr. og 10% af afganginum, og nemur þetta alveg fullkomnu útsvari, sem annars mundi vera hægt að leggja á þetta fyrirtæki. Hér er því ekkert að telja eftir, hvorki fyrir ríkissjóðs né heldur fyrir bæjarsjóð Ísafjarðar. — Nú virðist mér, að sú deila, sem hér hefur átt sér stað, sé aðallega um það, hvort það eigi að afnema þennan rétt, sem bæjarrekstur kvikmyndahúsa hefur haft til þess að losna við að greiða skemmtanaskatt, ef tryggt hefur þótt, að ágóðinn af rekstrinum gengi til mannúðarstarfa. Hvað viðvíkur bíórekstrinum á Ísafirði, þá er hér engu slíku til að dreifa. Það er að vísu svo, eins og ég upplýsti, að arðurinn af kvikmyndahúsrekstrinum þar gengur til sjúkrasjóðs verkalýðsfélaganna á Ísafirði. En samt hafa félögin ekki verið losuð við að greiða skemmtanaskatt til ríkissjóðs, sem numið hefur á fjórða hundrað þús. kr.fyrir það árabil, sem ég gat um. Nú er það svo, að Ísafjarðarkaupstaður er í miklum vandræðum með sitt sjúkrahús. Á því hefur verið mikill tekjuhalli á undanförnum árum. Það hefur ekki verið hægt að láta það sjúkrahús hljóta nauðsynlegt viðhald, hvað þá meira, og talið er þó, að nú á næstunni muni þurfa að kosta upp á þetta sjúkrahús um 500 þús. kr., til þess að það geti heitið nokkurn veginn boðlegt. Þegar þessi áhugi hefur komið fram hjá hv. þm. N-Ísf. um að breyta ákvæðum skemmtanaskattsl., þá virðist mér, að það hefði legið nær fyrir hann, sem telst forseti bæjarstjórnar á Ísafirði og ætti þar að hafa nokkurt forsvar um ýmis mál, að leggja til, að skemmtanaskattur sá, sem nú gengur frá Ísfirðingum af kvikmyndahúsrekstri og nemur a. m. k. um 45 þús. kr. á ári, gangi beinlínis til Ísfirðinga sjálfra, til einhverrar mannúðarstarfsemi, heldu.r en að það sé verið að leggja hann í þjóðleikhússjóð hér í Rvík og til þess að byggja félagsheimili hingað og þangað í sveitum. Og ég lýsi mestu undrun minni yfir þessu frv., þegar tekið er tillit til þess, að Ísfirðingar hefðu sjálfir til sinnar mannúðar- og félagsmálastarfsemi miklu meiri þörf fyrir þetta en kannske flestir aðrir staðir á landinu. Nú er það svo, að það er ákaflega fjarri því, að það hafi ekki verið á síðastliðnum árum hægt að sinna að verulegu leyti þessum þörfum hinna svo nefndu félagsheimila. Ég sé, að það stendur hér í grg. fyrir þessu frv., ef hægt er að marka það, að tekjur félagsheimilasjóðs hafi á síðastliðnu ári numið 1,1 millj. kr., umsóknir um styrk úr sjóðnum hafi verið 105, en aðeins 26 þeirra hafi verið sinnt. Mér virðist, að það sé nú ekki svo lítið að sinna á einu ári umsóknum frá 26 félagsheimilum. Og ég efast satt að segja mjög um það, að það væri rétt, þegar tekið er tillit til ýmissa annarra byggingarþarfa landsmanna, að sinna meiru á einu ári í þessu efni en umsóknum 26 félagsheimila. Það er vitanlegt, að bæði í sveitum landsins og líka í kaupstöðunum er enn þá mjög mikið af íbúðum, sem þarf að endurnýja. Það er líka vitanlegt, að mjög mikið þarf að byggja af ýmiss konar húsum fyrir framleiðslutæki, og það er líka vitað, að það skortir mjög á, að sjúkrahúsbyggingar landsins séu í því ástandi, sem sjálfsagt mætti teljast. Líka er það vitanlegt, að það skortir mjög á, að elliheimili séu sem skyldi víðs vegar á landinu. Og meðan svona standa sakir, virðist mér, að það hljóti að vera nóg að gert fyrir félagsheimilin með því að sinna 26 umsóknum á ári, og mér þykir ekki líklegt, að fjárfestingar verði settar í öllu fleiri á einu ári. Það sýnist þess vegna, að það hefði legið nær að gera till. til breyt. á l. í sambandi við skemmtanaskattinn á aðra leið, en hér er um að ræða í þessu frv., nefnilega frekar á þá leið að gefa sveitarfélögunum heima fyrir, þar sem skemmtanaskatturinn er greiddur, meiri tækifæri til þess að nota skemmtanaskattinn í mannúðarskyni en nú er gert. Og fyrir Ísafjörð, sem hv. flm. raunar dró alveg ófyrirsynju inn í þessar umr., vil ég segja það, að fyrir það bæjarfélag væri alveg sérstök ástæða til þess að krefjast þess, að skemmtanaskatturinn af kvikmyndahúsrekstri þar og jafnvel öðrum skemmtunum líka gengi til mannúðarmála í kaupstaðnum sjálfum, en yrði ekki dreift út um landið til annarra þarfa, sem eru ekki líkt því eins miklar og aðkallandi.