12.03.1949
Neðri deild: 73. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í C-deild Alþingistíðinda. (4068)

140. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég kunni ekki við að láta þetta mál fara hér hjá án þess að segja álit mitt. Það, sem mér finnst einkennandi hjá hv. flm., er, að þeir halda því fram, að þetta sé skattur til ríkisins, en þetta er ekki skattur til ríkisins, því að sagt er, að hann eigi að ganga til elliheimila og sjúkrahúsa. Skemmtanaskatturinn var í upphafi settur til að byggja fyrir hann þjóðleikhúsið, því að í marga áratugi hafa menn unnið að leiklist, og hún þykir orðið þess virði, að byggt sé yfir hana, og hún fái viðunandi leikhús, og það er ekkert, sem hefði getað komið á skemmtanaskattinum nema þetta. Og það er eins um tónlistarfélagið. Þar höfðu menn einnig unnið árum saman, og löggjafinn hefur álitið vert að styðja þessa viðleitni. En hvernig styður svo hið háa Alþ. leiklistina? Jú, skemmtanaskattur sá, sem rennur til ríkisins, er hærri en það framlag, sem ríkið veitir félaginu, og útkoman er sú, að Reykjavíkurbær verður að standa undir þessu. Og svo er sagt: Sjáið bara, hve ósköp góðir við erum við leikfélagið og leiklistina. — En þessi fórn, sem talað er um, að sé lögð til félagsins, er bara tekin öll aftur. Ríkið leggur fram 30 þús., Reykjavíkurbær 30 þús., en svo eru teknar 54 þús. í skatta, en þungamiðjan í þessu er sú, að verið er að ná skemmtanaskattinum handa félagsheimilunum. Ég hafði flutt till. um það, að styrkur til orlofsheimila verkamanna fengi að vera með, en það var fellt, þó að hér í Rvík sé greitt um 70–80% af skemmtanaskattinum, en þeir máttu ekki fá þennan litla hluta gagnvart félagsheimilunum. Þó sjá allir heilvita menn, að þetta hefði verið hægt að sameina, þar sem félagsheimilin eru aðallega notuð að vetrinum, en orlofsheimilin að sumrinu, en þetta mátti ekki sameina. Ég veit ekki hvað þeir eru að hugsa þessir menn, sem þykjast vera að berjast fyrir menningu. Ég álít,að í framtíðinni verði að taka upp svipað fyrirkomulag á þessu og bændur höfðu það með búnaðarmálasjóð, að styrkjum skuli ráðstafað þar, sem fé til þeirra var greitt. Slíkt er réttlætismál, að þar, sem mest aflist, þar sé líka mest úthlutað. Mér finnst, að þetta sé eina leiðin, og ef hún er farin, þarf ekki alltaf að vera að rífast um þetta. Mér virðist því, að þessu máli sé svo varið, að ég geti ekki annað en greitt atkv. gegn því, að það fari lengra en til þessarar umr.