01.03.1949
Neðri deild: 73. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í C-deild Alþingistíðinda. (4071)

140. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Sigurður Guðnason:

Það var út af ræðu hv. 1. flm. Ég skil hreint ekkert í manninum. Er honum virkilega ókunnugt um, að svo að segja öll félagsstarfsemi hér á landi fer fram að vetrinum til, bæði til sjávar og sveita, öll aðalstarfsemin a. m. k., svo sem lestrarfélagsstarfsemi, æfing á leikritum og leiksýningar og skemmtisamkomur alls konar. Ég hef aldrei þekkt neitt félag, hvorki í sveit né kaupstað, þar sem aðalstarfsemin hefur ekki farið fram að vetrinum. Ég er t. d. sannfærður um, að hv. flm. hefur aldrei heyrt auglýsta leikstarfsemi að sumarlagi, nema ef vera kynni leikheimsóknir að vorinu.

Og svo vil ég taka það beint fram, að flutningur þessa máls er ekki til að auka tekjur leikhússins. Flm. sáu bara ekkert annað form á þessu, en að hafa leikhúsið með, en frv. er eingöngu flutt gagnvart félagsheimilunum, þótt hitt sé haft að yfirvarpi. Og svo þegar búíð er að fá tekjurnar, þá er hægt að skipta þeim á milli og draga frá þessari menntastofnun yfir í félagsheimilin. Flutningur þessa máls er eingöngu frá þessu sjónarmiði.