03.02.1949
Efri deild: 52. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

2. mál, síldarbræðsluskip

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að taka margt fram um þetta mál, því að hæstv. viðskmrh. hefur talað um þau atriði, sem ég ætlaði aðallega að minnast á. En ég vil þó drepa á nokkuð í framhaldi af því, sem sagt hefur verið, og til að svara því nokkru.

Það hefur verið deilt á fjárhagsráð og viðskiptanefnd fyrir að gefa út þessi innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir Hæringi. Vegna þessarar ádeilu og vegna þess, að ég átti sæti í fjárhagsráði, þó að ég starfi þar ekki lengur, fékk ég upplýsingar hjá ráðinu um þetta mál, sem hæstv. viðskmrh. hefur hér upplýst. Það var rekið mjög á eftir þessari yfirlýsingu fjárhagsráðs. Forvígismenn Hærings h.f. lögðu á það höfuðáherzlu, að skipið yrði komið og tilbúið fyrir væntanlega haustsíldarvertíð 1948, og þeir kvörtuðu meira að segja til ríkisstj., af því að þeim þótti dragast of lengi að afgreiða þessi leyfi í fjárhagsráði. En ráðið gat að sjálfsögðu ekki afgr. þetta mál út í bláinn og án allra upplýsinga. Ég man t.d. eftir, að ég gerði ýmsar fyrirspurnir. Ég spurði um haffæri skipsins og um möguleika á geymslu hráefnis og framleiðsluvöru um borð, því að ég gerði mér það ljóst, að miklu máli skipti, hvort síldar- og mjölgeymslur og lýsistankar væru um borð eða kosta þyrfti sérstaklega til þeirra mannvirkja í landi. Enn fremur spurðist ég fyrir um möguleika á því að flytja skipið til og reka það annars staðar en hér, með tilliti til vatns og hafnarmannvirkja, og eins spurði ég um, hvað kosta mundi að hreinsa það, og fleira spurði ég um, sem ég vildi reyna að gera mér ljóst varðandi nothæfni og rekstrarhæfni skipsins, þó að ég hafi ekkert sérstakt vit á þessum málum. Þegar ég var búinn að fá þær upplýsingar, sem ég óskaði eftir eða gefnar voru, þá treysti ég mér ekki, eftir því sem ég hafði bezt vit á, til að greiða atkvæði með því að veita leyfi fyrir þessu skipi, og ég skrifaði ríkisstj. um þetta. Ég skal engan dóm leggja á það hér, hvort rétt eða rangt var að veita leyfi til að flytja inn þetta skip, ég vildi aðeins víkja lauslega að afskiptum fjárhagsráðs af þessu, eða meiri hl. fjárhagsráðs, án þess að leggja nokkurn dóm á.

Í bréfi, sem Jón Gunnarsson ritaði til Hærings h.f. 11. febrúar 1948 og fylgdi umsókn Hærings til fjárhagsráðs, segir m.a.: „Komið hefur til mála að kaupa skip, sem Bandaríkjastjórnin á, og er það 6.900 tonn deadweight. En um mörg skip önnur er að ræða, og verður sérfróður maður í skipabyggingum að velja það skip, sem heppilegast getur talizt, en þó ekki of dýrt. Skip þetta, sem ég hef talið, að komið geti til mála að kaupa, var byggt 1903 og endurbyggt af ameríska flotanum 1943. Öll yfirbygging þess er ný. Skoðun á skipinu, sem framkvæmd var í maí s.l., sýnir, að það er talið í góðu ástandi til notkunar til siglinga í næstu 15 ár.“

Þetta bréf var fylgiskjal með umsókn Hærings h.f. til fjárhagsráðs, og það er skrifað 11. febrúar. Samt sem áður dregst leyfisveiting fjárhagsráðs þar til 15. marz 1948 af ástæðum, sem ég hef þegar nefnt, að beðið var um upplýsingar um ásigkomulag skipsins. Í millitíð höfðu verið haldnir fundir með ríkisstj. um þetta mál, og ríkisstj. hafði áhuga á málinu. Og eins og kunnugt er, hefur ríkisstj. að sjálfsögðu vald til að breyta því, sem fjárhagsráð gerir í einu og öðru, enda væri allt annað óviðurkvæmilegt stjórnarfarslega skoðað. — Og á fundi fjárhagsráðs 15. marz 1948 veitti fjárhagsráð leyfi fyrir síldarbræðsluskipinu samkvæmt ósk ríkisstj. með svo hljóðandi bókun, með leyfi hæstv. forseta:

„Samþykkt var að velta Hæringi h.f. innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir skipi til síldarvinnslu frá U.S.A., sem komi á 18. flokk, 19. lið innflutningsáætlunar ársins. Samþykkt þessi var gerð með 4 shlj. atkv. Hermann Jónasson greiddi ekki atkvæði. Fjárhagsráð hafði rætt málið við ríkisstj. og var afgreiðsla þessi í samráði við vilja hennar.“

Þannig er bókað í gerðabók fjárhagsráðs, og þannig var þetta raunverulega. Ég segi þetta ekki til þess að deila á ríkisstj. Það var áformað að koma upp slíkri verksmiðju, sú ákvörðun hafði verið tekin. En að sjálfsögðu réð stjórnin og átti að ráða fyrir fjárhagsráði. Eins og sjá má af bréfi Jóns Gunnarssonar, sem ég las upp áðan, var um mörg skip að ræða, og þar er sagt, að sérfróður maður verði látinn velja úr þeim. Síðan er í annan stað haldinn fundur með ríkisstj. og málið síðan afgreitt í fjárhagsráði í samráði við hana og í samræmi við vilja hennar. Þeir, sem greiddu atkvæði með þessari leyfisveitingu í fjárhagsráði, vissu, að þeir gátu enga undanþágu gert frá gildandi landslögum, og þegar þeir gáfu leyfið, var það auðvitað með þeim skilningi, að það stæði ekki formlega í vegi fyrir því, að ríkisstj. og Hæringur h.f. gætu gert það, sem hagkvæmast þætti í framkvæmdinni.

Ég hef viljað gefa þessar upplýsingar, þar sem deilt hefur verið hér á nefnd, sem ég starfaði í um tíma.