28.02.1949
Neðri deild: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í C-deild Alþingistíðinda. (4082)

145. mál, orlof

Flm. (Hermann Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir allþýðingarmiklum breyt. á núgildandi l. um orlof. Þær breyt., sem þar eru veigamestar, eru í fyrsta lagi, að orlofstímabil launþega lengist um eina viku, úr hálfum mánuði í þrjár vikur, og greiðsla á orlofsfé hækkar úr 4% í 6½% sem afleiðing af lengdu sumarleyfi. Aðrar breyt., sem gert er ráð fyrir á þessum l., hafa sézt sér á þingi áður, þ. e. a. s. að hlutarsjómenn og aðrir, sem aðeins hafa fengið greiðslu sem nemur 2%, fái það sama og aðrir launþegar, og svo, að fyrningar á kröfum um orlofsfé sæti sömu meðferð og kaupkröfur almennt, og tel ég ekki þurfa að skýra það frekar, þar sem það hefur komið fram fyrr og verið skýrt í grg. Um hin tvö meginatriðin, sem hér er um að ræða, meginbreyt. á orlofsl., vil ég segja það, að þegar orlofsl. voru sett 1943, þá var það þýðingarmikil breyt. til bóta fyrir launþega, þar sem þeir fengu loks þær óskir sínar uppfylltar, sem hafði verið barizt fyrir í verkalýðsfélögunum fram að þeim tíma, að fá ákveðinn tíma til hvíldar og hressingar. Sú barátta, sem leitt hafði af sér þennan árangur, hafði raunverulega ekki náðst fram formlega hér á Alþ. fyrr en verkalýðssamtökin með frjálsum samningum höfðu knúið fram orlof í samræmi við það frv., sem lá fyrir Alþ. 1942.

Hugmyndin um orlof er ekki ný, og fordæmið, sem tekið var 1943, er runnið frá frændum vorum á Norðurlöndum, þar sem gildandi var hálfsmánaðar sumarleyfi, þannig að þaðan kom hugmyndin hingað um þetta. Frá þeim tíma, 1943, til dagsins í dag hafa ýmsar merkar breyt. orðið í verkalýðshreyfingunni, hún hefur haldið áfram að ná fram ýmsum þeim kjarabótum og baráttumálum, sem uppi hafa verið á þeim stöðum, þar sem verkalýðshreyfingin er komin lengst. Það hefur tekizt að ná fram lengdu sumarleyfi á Norðurlöndum, og svo er komið í Noregi, að það var sett ákveðin löggjöf 1947, sem gerir ráð fyrir því, að launþegar þess lands hafi þriggja vikna sumarleyfi og 6½% greiðslu í orlofsfé. Þessi meginbreyt., sem hér er borin fram, er sniðin með hliðsjón af þessu. Til viðbótar vil ég segja það, að í Danmörku og Svíþjóð eru uppi sterkar raddir um þetta sama í allflestum atvinnugreinum, og eru að takast samningar milli atvinnuveitendafélaga og Alþýðusambandsins í Svíþjóð um þriggja vikna sumarleyfi. Í Danmörku er þetta mál í undirbúningi og líklegt, að það nái fram að ganga. Við flm. þessa frv. teljum mjög æskilegt, að það sama gildi hér í þessum efnum og gildir t. d. í Noregi, að launþegar í þessu landi fái lengt sumarleyfi eins og þar hefur nú verið gert, og þess vegna er þetta frv. flutt, og að sjálfsögðu í trausti þess, að sami skilningur ríki hjá öðrum þm. og frv. nái fram að ganga. Ég tel ekki þörf að hafa frekari orð um þetta frv., nema tilefni gefist til. Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.