01.02.1949
Efri deild: 52. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

2. mál, síldarbræðsluskip

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Af þeim tveimur nefndarálitum, sem hér liggja fyrir, og þá ekki síður af framsögu, mætti ætla, að hér væri mál á ferðinni, sem þm. álitu, að einhver þyrfti jafnvel að skammast sín fyrir. Mér þykir skjóta dálítið skökku við, að nú, þegar búið er að kaupa síldarvinnsluskipið, skuli vera farið að reyna að finna upp eitthvert sakarefni á hendur innflutningsyfirvöldunum eða ríkisstj. fyrir að stuðla að kaupum þessa skips. Mér þykir þetta skjóta dálítið skökku við þann hugsunarhátt, sem ríkti hér fyrir rúmu ári skulum við segja, varðandi það, hvernig hagnýta mætti sem bezt alla Hvalfjarðarsíldina. Það vissu allir, að þegar þessi síld kom í fyrra, stóðu menn svo að segja höndum uppi um að hagnýta hana. Og jafnvel þeir menn, sem kunnari voru að öðru en því að standa fremstir í flokki útvegsmanna eða koma nærri aflahagnýtingu, létu sér þá um munn fara, að það væri bara eitt og aðeins eitt, sem ekki mætti gera, og það væri að láta aflann fara forgörðum. Ríkisstj. og stjórn síldarverksmiðja ríkisins voru í hinum mesta vanda með að hirða þennan afla og koma honum í lóg, og það hefði ekki tekizt, ef Eimskipafélag Íslands hefði ekki haft hin stóru fragtskip á leigu. En með því að flytja síldina með þessum skipum til Siglufjarðar og horfa ekki í ótilhlýðilegan flutningskostnað fór þó svo, að ekkert skemmdist eða ónýttist af aflanum, og að þessu varð stórkostlegur búhnykkur fyrir þjóðina, þó að síldarverksmiðjur ríkisins yrðu hins vegar að líða milljónatap af þessu.

Þegar þannig horfði í þessum málum, flaug það eðlilega í hug margra, hvernig bezt mætti snúast við undir svipuðum kringumstæðum í annað sinn, því að menn héldu þá, að Hvalfjarðarsíldin kæmi strax næsta ár, og voru ýmsar tillögur uppi um það, hvernig mest og bezt mætti hagnýta síldina. Nú hafði verið mikið rætt hér áður um hagnýtingu sumarsíldarinnar, einkum fyrir Austur- og Norðurlandi, og miklar kröfur voru uppi um það að reisa síldarverksmiðju einhvers staðar á Norðurlandi. Hér á þinginu var búið að ræða þetta áður en Hvalfjarðarsíldin sýndi sig fyrir alvöru, og voru ýmsar raddir uppi um það, hvort ekki mætti leysa þetta mál með fljótandi síldarverksmiðju, er færði sig til eftir því, hvar síldin héldi sig aðallega hverju sinni. Snemma á þinginu í fyrra kom ég fram með frv. um að gera Lagarfoss að bræðsluskipi, og studdist þar við ráð ýmissa færra og fróðra manna í Reykjavík, sem gerðu ráð fyrir, að hægt væri að koma vinnslutækjum fyrir í skipinu. En það kostaði það, að mjöl- og lýsisgeymslur yrðu að vera fyrir í landi, hvar sem skipið væri, en hins vegar er Lagarfoss nú kominn á þann aldur, að hann er dýr í rekstri á úthöfunum. En á meðan þessi hugmynd var í deiglunni, tóku sig saman ýmsir duglegustu útgerðarmenn við Faxaflóa að einum fjórða, Reykjavíkurbær að einum fjórða, Óskar Halldórsson að einum fjórða og síldarverksmiðjur ríkisins að einum fjórða, og þessir aðilar fara svo inn á þá hugmynd að kaupa miklu stærra síldarvinnsluskip og bindast samtökum um það. Þessir aðilar voru með sömu hugmyndina og ég með Lagarfoss, að láta skipið vinna fyrir sunnan á vetrum, en fyrir norðan eða austan á sumrum. En þeirra hugmynd var þó stærri, því að síldarþró, mjölgeymsla og lýsisgeymsla átti að vera í þeirra skipi.

Um þessar mundir var Jón Gunnarsson staddur hér á landi, en hann starfar í þjónustu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og hafði verið alllengi í Ameríku. Hann gat frætt forvígismenn Hærings h.f. á því, að ódýr og ekki ólíkleg skip væru til sölu vestra, og Óskar Halldórsson átti síldarbræðsluvélar hér í landi og lagði þær fram sem sitt framlag í hlutafélagið, en leyfi fyrir þessum vélum hafði hann fengið í tíð nýbyggingarráðs. Allir þessir aðilar, útgerðarmenn, Reykjavíkurbær, Óskar Halldórsson og S. R., felldu síðan hugi saman á þessu sviði, hagsmunir þeirra féllu saman, og svo hófu þeir félagsskapinn. Ég áleit ekki rétt að banna síldarverksmiðjum ríkisins að vera með í þessu, þvert á móti samþykkti ég það. Ég heyrði, að einhver sagði hér í ræðu í gær, að verksmiðjurnar hefðu ekki átt framlag sitt til, heldur hefðu orðið að fá það að láni. En ég leit svo á, að síldarvinnsluskip eða fljótandi verksmiðja gæti slegið tvær flugur í einu höggi, ef svo mætti segja, fullnægt þörfinni við Faxaflóa á vetrum, en nyrðra og eystra á sumrum, og væri þannig hugsanleg lausn fyrir Norðausturland jafnframt, en ella mundu kröfur um verksmiðju þar ekki þagna. En nú ætla ég, að menn hafi fengið nóg af kostnaði við síldarverksmiðjubyggingar í bili, t.d. byggingu verksmiðjanna á Siglufirði og Skagaströnd, þar sem sá geysilegi kostnaður hefur algerlega kveðið fjárhag síldarverksmiðja ríkisins í kútinn. Með hliðsjón af framansögðu vildi ég ekki setja mig á móti framlagi verksmiðjanna til Hærings h.f., þar sem ég vonaði, að þessi framkvæmd kæmi að miklum notum fyrir þjóðfélagsþegnana. Það er hægt að leggja það á mitt bak og ég skal fúslega við það kannast, að ég gerði ekkert til þess að draga úr stjórn síldarbræðslunnar varðandi það, að ríkið yrði fjórði hluthafinn í þessu fyrirtæki, heldur samþykkti ég það, þegar það var borið undir mig að svo væri, og dró um leið úr öllum aðgerðum, þeim sem ég hafði áður haft gagnvart sjútvn. þessarar d. til að fá málið fram í því formi, sem ég hafði áður borið það fram, af því að ég þóttist þess viss, að hér væri málið í höndum þessara fjórmenninga á heppilegra stigi en ég hafði látið mér detta í hug.

Ég álít rétt, að forsaga málsins sé skýrð, þegar um þetta er að ræða. Sá maður, sem mest hefur verið til ráðuneytis í þessum efnum, Jón Gunnarsson, hefur þann tíma, sem hann hefur starfað við ríkisverksmiðjurnar, notið mjög mikils trausts sem heppilegur verkfræðingur eða verkstjórnandi, og ég hef ekki rekið mig á það, að hans upplýsingar hafi á neinn veg verið vefengdar eða álitið, að hann færi með rangt mál. Þegar svo að því rak, að það þurfti að ákveða um kaup á þessu verksmiðjuskipi, þá var hann heldur ekki látinn vera þar einn um heldur var einhver færasti maður, sem Íslendingar eiga á því sviði að þekkja skip og skipabyggingar, Ólafur Sigurðsson forstjóri landssmiðjunnar og skipaverkfræðingur, sendur til Ameríku til þess ásamt Jóni Gunnarssyni að álíta og meta þau tilboð í skip, sem fyrir lágu. Með leyfi hæstv. forseta vil ég gefa nokkurt yfirlit yfir það, frá hverju þessi skipaverkfræðingur skýrði svo eftir starfið í Ameríku. Hann segir svo:

„Í umræðum á Alþ. um innflutningsleyfi fyrir ofannefnt skip (þ.e. s/s Hæring) hefur gætt nokkurrar vanþekkingar á ýmsum atriðum varðandi kaup skipsins, og þar eð ég, ásamt herra verkfræðingi Jóni Gunnarssyni, mun vera því máli einna kunnugastur, leyfi ég mér hér með að gefa eftirfarandi skýringar á þeim forsendum, er þetta skip var keypt eftir.

Í byrjun þessa árs var þess farið á leit við mig af stjórn h.f. Hærings að vera þeim til aðstoðar við kaup á skipi fyrir væntanlega fljótandi síldarverksmiðju. Mætti ég þá á nokkrum fundum með stjórn fyrirtækisins hér í Reykjavík og ræddi um stærð, gerð og tilhögun vinnslu í væntanlegu skipi. Lágu þá fyrir fleiri tilboð í skip af ýmsum stærðum, bæði frá Ameríku og Evrópu. Varðandi stærð skipsins var álitið heppilegast, að það væri 5–7 þús. tdw., en þó skyldu aðrar stærðir einnig athugaðar, ef ástæður þættu til. Það þótti strax sýnt, að frekast væri að leita fyrir sér í Ameríku, þar eð fjöldi skipa lá þar uppi, en eigi í Evrópu. Einnig var nauðsynlegt að láta fara fram strax nokkrar breytingar á skipinu, hverju sem keypt væri, og ómögulegt var um þær mundir að fá þær gerðar í Evrópu, en hins vegar voru skipasmíðastöðvar í Ameríku sólgnar í vinnu.

Hinn 19. febrúar í ár fór ég síðan ásamt Jóni Gunnarssyni til New York þessara erinda. Bárust þá enn frekari upplýsingar í boðin skip, svo og tilboð í fleiri.

Skip þau, er byggð voru í seinasta stríði og þá á boðstólum, skiptust í vissa stærðarflokka. Liberty-skipin voru of stór (ca. 10.000 tdw.) og önnur flutningaskip voru of lítil, en þó þótti ástæða til að skoða skip af IST-gerð um ca. 4.000 tdw. og sérstaklega gerð til flutninga á stríðstækjum. Skoðuðum við skip af þessari gerð þann 24. febrúar, þar sem það lá skammt frá New York. Skipið reyndist ónógt. Geymslur hefðu orðið mjög litlar, bæði fyrir afurðir og hráefni, og auk þess hefði þá orðið að kaupa sérstaka katla fyrir verksmiðjuna, þar eð skipið var dieseldrifið.

Af eldri skipum virtist eitt hafa ýmsa kosti fram yfir önnur. Voru þeir aðallega þessir;

1. Skipið var ca. 6.900 tdw., með miklar lestir og grunnskreitt.

2. Gufuskip með olíukynta katla nægilega fyrir verksmiðjuna.

3. Skipið hafði 50x50 feta stóran og sterkan pall, 2 fet yfir þilfari, tilvalinn fyrir stærstu og þyngstu vinnuvélar verksmiðjunnar.

4. Allar yfirbyggingar skipsins voru byggðar nýjar 1943 og gerðar fyrir um 70 manns. Einnig hafði skipið þá veríð gert fullkomlega í stand af ameríska flotanum.

5. Skipið hafði fram til 1943 verið á stóru vötnunum, þannig eigi orðið fyrir eins mikilli áreynslu vegna ölduhreyfingar eins og skip á hafi, svo og eigi eins mikil hætta á ryðbruna.

6. Vegna ísa hafði skipið aðeins verið í gangi um 7 mánuði á ári hverju.

7. Verðið var mjög lágt, eða 170.000 dollarar (ca. 1.1 millj. ísl. kr.).

Aðalgallar voru eftirfarandi:

1.Skipið var gamalt, byggt strax eftir aldamót. 2. Skipið var eigi í klassa.

Nafn skipsins var „Duluth“ og það í eign félagsins Overlake Freight Corporation.

Að öllu athuguðu þótti rétt að skoða skipið, þar sem það lá í nánd við Portland Oregon. Þangað komið sýndi sig, að systurskip þess, „W. J. Conners“ 1á þar við bryggju á skipasmíðastöð og til sölu, þar eð kaupandi hafði ekki getað staðið í skilum við áðurnefnt félag. Skipið var alveg eins og „Duluth“, en nýklassað og tilbúið til siglinga. Var það í fullkomnu standi og í fjögurra ára hæsta klassa American Bureau of Shipping. Verðið var 192500 dollarar (ca. 1,25 millj. ísl. kr.).

Við skoðuðum bæði „Conners“ og „Duluth“ og álitum að klössun „Duluth“ mundi kosta 30–40 þús. dollara. Af þeim tveimur var „Conners“ betri kaup, auk tímasparnaðar. Við undruðumst hið lága verð. Önnur skip af svipaðri stærð og einnig aldursstigi voru að minnsta kosti 50% dýrari og yngri skip í tvöföldu þessu verði. Ástæður voru meðal annars þær, að skipið var mjög hæggengt, svo og að flotinn hafði látið gera áðurnefndan pall á dekki og minnka öll lestarop um helming. Hvort tveggja þetta var til mikils óhagræðis fyrir almenna flutninga. Hins vegar var bæði pallur og minnkun lestaropa til mikils hagræðis fyrir síldarvinnsluskip, og ganghraði hafði þar litla þýðingu.

Einnig áttum við tal við yfirmann skrifstofu American Bureau of Shipping í Portland og spurðumst um skipið. Hann kvaðst sjálfur hafa skoðað skipið og gaf því beztu meðmæli þrátt fyrir aldur. Sérstaklega hældi hann efninu í því, kvað það hreint og mun betra, en t.d. í Liberty-skipunum. Við sannfærðumst einnig um það við botnskoðun skipsins.

Að öllu ofannefndu athuguðu og samanborið við önnur fáanleg skip álitum við rétt að láta ekki þetta tækifæri fara, heldur mæltum með kaupum á „W. J. Conners“. Stjórn h.f. Hærings féllst á sjónarmið vor, en þar til tekizt hafði að koma gjaldeyrismálunum í lag, var búið að selja skipið öðrum. Höfðu eigendur skipsins neitað að láta Hæring h.f. hafa skipið á hendinni nokkurn tíma, heldur kváðust selja þeim, er væri fyrstur. Hafði ítalskt skipafélag keypt annað systurskip áður og það reynzt það vel, að þeir vildu kaupa „Conners“ að auki. Hins vegar var svipað með þeirra gjaldeyrismál og vor að þeir gátu eigi greitt á umsömdum tíma. Þannig tókst loksins að ganga endanlega frá kaupunum og á áðurnefndu verði, 192500 dollarar.

Að lokum vil ég segja, að þótt reynslan sé ekki löng á skipinu, eftir að það kom undir íslenzkt flagg, þá hefur engin veila fundizt í skrokk skipsins, og engin aðfinnsla hefur önnur verið við skipið en sú, að það er gamalt. Það vissum við, þegar við skoðuðum skipið, og þess vegna athuguðum við skrokkinn, eftir því sem föng voru á. Hvorki American Bureau Shipping í Portland, við né aðrir, eftir að heim er komið, hafa getað bent á sérstakar vellur í skrokk skipsins, sem hefði áhrif á öryggi þess og endingu.

Virðingarfyllst,

Ólafur Sigurðsson.“

Þetta segir Ólafur Sigurðsson skipaverkfræðingur í skýrslu sinni um þetta skip, Það er þá

þetta, sem fyrir liggur, að skipið er of gamalt eftir íslenzkum l., það er vitað, að það lá ekki annað fyrir um það leyti, sem skipið var keypt, en að það yrði að gera sérstakar ráðstafanir til að fá skipið innflutt sem verksmiðjuskip, en ekki sem skip, sem ætti að vera í flutningum. Og það má vera mikil starblinda á bókstaf og bókstafstrú, ef það er álit hv. þm., að það þurfi að gera sömu kröfur um aldur á sl5kum skipum sem þessu, sem á að liggja bundið við land, nema fara einu sinni eða tvisvar á ári milli hafna á Íslandi og einhvern tíma út yfir hafið og getur valið sér leiði, þegar það þarf að fara til skoðunar. Það má vera mikil starblinda, ef ekki er hægt að gera greinamun á því í huga manna og hinu, hvaða kröfu eigi að gera til skipa, sem alltaf eru í förum, vetur, sumar, vor og haust, og sigla um úthöfin. Það getur veríð að við höfum ráð á því að hafa þetta sjónarmið gagnvart verksmiðjuskipi, en mér er sagt, að Svíar og Ítalir hafi keypt sams konar skip og þetta til að hafa í siglingum, en það er ekki löglegt samkvæmt íslenzkum l. Nú er hér t.d. till. frá hv. minni hl. um það, að brbl., sem sett voru um þetta, þar sem gerð var sérstök undanþága um þetta skip með tilliti til þess, að það er verksmiðja, en ekki siglingaskip, þau verði felld. Mér finnst hér gæta hófleysis í meðferð málsins. Menn geta haft sínar skoðanir um það, hvað rétt sé eða rangt í þessum efnum, eins og hv. þm. Str., sem frá upphafi var mótfallinn því, að þessi leið væri farin, og vildi ekki stuðla að því, að slíkt skip kæmi inn í landið, en ég fullyrði, að það hafi hér verið farið inn á braut, sem gat í fyrsta lagi verið lausn á vandanum við Hvalfjörð, ef síldin hefði komið, og í öðru lagi til að leysa líka þann vanda, sem við höfum verið í varðandi síldveiðina við norðausturströnd landsins á sumrin. Skipið kostaði, eins og tekið er fram, rúmlega 1 millj. kr., og það eru litlir peningar, þegar það er aðgætt, að það er sagt, að t.d. viðgerð á Sæbjörgu og breyting hafi kostað 11/2. millj. kr. Ef við hefðum átt að leggja í að kaupa skip, sem hefði komið undir íslenzkan lagabókstaf hvað aldur snertir, þá geri ég ráð fyrir, að svo mikið fé hefði þurft að koma fyrir skipið, að við hefðum alls ekki ráðið við það.

Eins má geta í sambandi við þetta skip. Það er áætlunin, sem gerð var um það að koma því heim og koma vélunum í það. Ég hygg, að það hafi farið svo nálægt áætlun, að það stingi í stúf við allar síðari tíma framkvæmdir í síldarverksmiðjumálum, hvað sú áætlun er nærri því að standast. Það mundu allar meyjar hafa viljað með Ingólfi ganga í þessari ráðstöfun, ef Faxaflóasíldin hefði flóið yfir bryggjur og torg hér í Reykjavík á þessu hausti, eins og hún gerði í fyrra, og það mundi þá sannarlega vera þungur áfellisdómur þeirra manna, sem nú, eins og sjá má í blöðum, setja hnífilinn í Hæring og alla menn, sem að honum stóðu, fyrir að kaupa þetta skip, ef ekki hefði verið gert neitt af þessu tagi og við hefðum staðið uppi í eins miklum vandræðum með veiðina eins og síðast. Ég er þeirrar trúar, að það eigi eftir að sýna sig, að kaupin á Hæringi verði landinu til heilla. Það er ekkert komið í ljós, sem sýni, að skipið fullnægi ekki sínu hlutverki. Sú reynsla á vélunum, sem fór fram í haust, þegar þessi litli veiðivottur kom, hefur, eftir því, sem ég hef frétt, að öllu leyti fyllt upp þær vonir, sem menn höfðu gert sér um vélarnar, og mér finnst það fara alveg fjarri, að fara nú að gera ágreining og áfellast innflutningsyfirvöldin og hæstv. viðskmrh. og jafnvel ríkisstj. í heild, fyrir að hafa stuðlað að kaupum á þessu skipi. Það mundi ekki hafa verið stór bakhjarl fyrir þeirri ádeilu, ef, eins og ég sagði áðan, síldin hefði ekki brugðizt, en þegar skipið liggur aðgerðarlaust og mennirnir, sem í þetta réðust, hafa ekkert annað en tapið og ríkissjóður erfiðleika af þessu líka, þá er hægurinn nærri að tala um, að þetta hefði ekki átt að gera, það sé illa að þessu staðið, málið hefði átt að vera á annan veg undirbúið o.s.frv., eins og heyra má í þeim ræðum, sem hér koma fram. Eins og til hagar hér með breyt. á veiði hvað síldina áhrærir og eins og búið er miklu að kosta til síldarverksmiðja í landinu, tugum milljóna ofan á tugi milljóna, þá tel ég, að það sé gott, að einmitt þetta skip sé til, til þess að geta sinnt í framtíðinni þeim verkefnum, sem því eru fyrirhuguð, því að það þarf enginn að gera því skóna, að það verða einhvern tíma verkefni fyrir Hæring við Faxaflóa, þó að það hafi ekki orðið nú.

Ég vil svo aðeins bæta því við, að ég veit ekki til, að þeir, sem sigldu skipinu heim, hafi á nokkurn hátt látið í ljós, að þetta skip væri með nokkrum ágöllum eða nokkur vandi hafi verið að koma því yfir hafið, og er það þó sennilega lengsta leið, sem maður getur hugsað sér að ráðast þurfi í að fleyta því, og ekki legg ég það að líku, þó að það þurfi að skjótast með það til skoðunar til Noregs, samanborið við að sigla því alla leið frá vesturströnd Ameríku hingað til Íslands.