01.02.1949
Efri deild: 52. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

2. mál, síldarbræðsluskip

Frsm. meiri hl. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hæstv. ráðherrar hafa fundið ástæðu til að gagnrýna meiri hl. n. fyrir það að hafa látið álit sitt í ljós, sem hún hefur á þessu máli.

N. hefur látið tvennt í ljós. Í fyrsta lagi telur meiri hl. alla meðferð málsins óvenjulega og varhugaverða, og í öðru lagi, að það sé mjög varhugavert að veita innflutning á svo gömlu skipi sem hér er um að ræða. Meiri hl. sjútvn. heldur því fram, að leyfi þau, sem viðskiptanefnd veitti fyrir skipinu, hafi hún ekki haft leyfi til að veita. Þar sem nefndin veitir hér leyfi fyrir skipi, sem hún vissi, að var eldra en 12 ára, er slík leyfisveiting brot á l. um eftirlit með skipum. Nefndin vekur athygli á því, að meiri hl. telur mjög varhugavert að flytja inn skip, jafngamalt og þetta er. — Á þessu stigi málsins virðist mér vera tilgangs lítið að vera að deila, og ég hef ekki hugsað mér að blanda mér frekari þær deilur, sem nú standa.