07.04.1949
Neðri deild: 87. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í C-deild Alþingistíðinda. (4120)

176. mál, atvinnuleysistryggingar

Flm. (Sigurður Guðnason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er í rauninni ekki nýtt, þar sem það hefur verið flutt áður hér í þinginu í ýmsu formi. Það, sem vakað hefur fyrir mér með flutningi þessa frv., er að leitast við að tryggja þeim mönnum, sem stunda lausavinnu, eitthvert það öryggi, sem hjá mörgum er ekki meira en það, að þeir vita ekki að kvöldi, hvort þeir geti unnið fyrir brauði næsta dag eða ekki. Til viðbótar því, sem tekið er fram í grg., skal ég láta þess getið, að ég álít, að þessum málum sé bezt komið með því, að það sé á valdi þeirra aðila, sem eiga að njóta þess réttar og þeirrar tryggingar, er frv. þetta felur í sér, að sjá um úthlutun og yfirstjórn sjóðsins, því að það mundi bæði verða ódýrara og peningarnir fremur fara til þeirra, sem ættu að njóta þeirra, en ella. Í öðru lagi mundu þessir aðilar hafa bezta yfirsýn um það, að þessir sjóðir færu ekki út fyrir þau takmörk, sem þeim er ætlað. Eins og tekið er fram í frv., er þetta ætlunin, þegar atvinnurekendur eru komnir það langt frá því heilbrigða þjóðfélagi, að þeir eru ekki færir um að nota starfsorku fullvinnandi manna og láta marga heilbrigða menn ganga atvinnulausa, sem er einhver mesta vöntun á heilbrigðu þjóðfélagi. Ég vil því vona, að frv. þetta fái góðar undirtektir í þinginu, og leyfi mér að stinga upp á, að því að lokinni þessari umr. verði vísað til fjhn.