07.04.1949
Neðri deild: 87. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í C-deild Alþingistíðinda. (4124)

181. mál, landskiptalög

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það þarf ekki langa framsöguræðu með þessu litla frv., sem er eiginlega viðauki við 10. gr. landskiptal. frá 1941. Þau l. voru sett og undirbúin að æðimiklu leyti af Búnaðarfélaginu, og sérstaklega af þeim starfsmanni félagsins, sem hefur mest með þessi mál að gera fyrir hönd þess, en það er Ásgeir L. Jónsson ráðunautur. Það, sem hér er lagt til að bæta við 10. gr. landskiptal., er í raun og veru ekki nein nýmæli, en fremur til að taka af allan vafa um það, hvernig beri að framkvæma þessi l., þegar eins stendur á og hér er á minnzt, en það er, eins og frv. ber með sér, þegar skipti fara fram á sameignarlandi fleiri jarða og ekki á að skipta ræktuðu landi, heldur úthaga. En þá er það ekki beint tekið fram í l. frá 1941, að líka skuli taka tillit til ræktaða landsins, sem hefur í flestum tilfellum fengizt með hefð. Það er ekki beint tekið fram í l., að þegar skipti skuli fara fram, sé tekið tillit til lands, sem hver jarðeigandi á af óskiptu landi, sem hann hefur fengið þannig. Þeirri reglu hefur að vísu verið fylgt, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, en hefur verið mótmælt í sumum tilfellum af aðilum, sem ósanngjarnir eru og vilja til hins ýtrasta halda fram sínum kröfum. Þess vegna er þetta ákvæði sett í l., til þess að taka af öll tvímæli, þegar á stendur eins og hér um ræðir.

Landbn. var sammála um að mæla með þessum viðauka og væntir þess, að hæstv. forseti vilji sjá um, að þetta litla frv. gangi fljótt gegnum hv. d., svo að það fáist afgr. á þessu þingi, sem ég fastlega vænti.