22.04.1949
Neðri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í C-deild Alþingistíðinda. (4128)

181. mál, landskiptalög

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef flutt brtt. á þskj. 545 við frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., um breyt. á landskiptalögunum. Hún fjallar um það að breyta lítils háttar 19. gr. l. eins og þau eru nú. Mér virðast landskiptal. frá 1941 vera byggð á því, að þar, sem allir aðilar, sem hlut eiga að máli, séu samþykkir, hafi þeir vald til þess að ráða málum sínum sjálfir án þess að kveðja til óvilhalla menn. Skal ég í þessu sambandi og til þess að færa þessum orðum stað benda á 2. gr. l., þar sem segir: „Nú hafa gilt manna á meðal í 20 ár eða lengur önnur eignahlutföll, en jarðamatsbækur gefa upp og allir eigendur samþykkja, að þau eignahlutföll skuli haldast, og er þá heimilt að skipta eftir þeim, en sýslumaður skal tilkynna fasteignamatsnefnd þess konar skipti.“ Í 3. gr. kemur það aftur fyrir, að gert er ráð fyrir, að það séu ekki gerð staðbundin skipti á námum, reka og öðrum slíkum hlunnindum, nema samþykki allra hlutaðeigenda komi til. Ef það liggur fyrir, þá heimila l. það.

Í 16. gr. segir svo: „Landeigendum er frjálst að skipta sjálfir landi milli sín, ef þeim kemur saman um það öllum.“

Hér er enn þá byggt á því, að ef samþykki þeirra allra kemur, þá þurfi ekki að leita til óvilhallra aðila um skiptin. Í 17. gr. segir enn fremur: „Meðan skógarhögg og mótak er í sameign í óskiptu landi, má enginn eigenda, án samþykkis allra hinna, nota skóg eða mótak nema til heimilisnota fyrir sjálfan sig.“ En ef samþykki allra hinna hlutaðeigenda liggur fyrir, þá verða l. tæplega skilin á annan hátt en þann, að þá sé heimilt að leyfa þetta. En í 19. , gr. l. ber svo við, eins og l. eru nú, að út frá þessari reglu virðist brugðið, því að þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Enginn má, eftir gildistöku þessara laga, taka land til ræktunar, setja upp varanlega girðingu, gera skurð, byggja hús eða önnur varanleg mannvirki í óskiptu sameignarlandi, þó að samþykki allra annarra hlutaðeigenda liggi fyrir.“ Brtt. mín er einungis fólgin í því, að í staðinn fyrir þetta, „þó að samþykki allra hlutaðeigenda liggi fyrir“ komi: nema samþykki allra annarra hlutaðeigenda liggi fyrir. — M. ö. o., að ef allir hlutaðeigendur, sem eiga landeign saman, samþykkja, að einn aðili megi gera skurð, setja upp girðingu eða byggja hús í óskiptu landi, þá sé það heimilt, en ef einhver eigandi gerir ágreining, þá komi auðvitað til úrskurðar óvilhallra manna. Þetta er efnislega það, sem felst í brtt. minni á þskj. 545.