01.02.1949
Efri deild: 52. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

2. mál, síldarbræðsluskip

Sigurjón Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. samgmrh. fyrir greið svör við spurningum þeim, sem ég beindi til hans. Hins vegar gat hann ekki gefið upplýsingar um það, hvort skipið ætti að sigla til Noregs, en mér hefur verið tjáð, að þetta sé í ráði, en ef til vill upplýsist þetta við 3. umr. málsins, og rétt er að kynna sér málið hjá umráðamönnum skipsins fyrir þá umr.

Ég hef enn þá óbreytta skoðun á því, að ég tel mjög varhugavert, að þessu skipi verði siglt um hávetur milli landa.

Hæstv. sjútvmrh. þarf ég ekki að svara, því að ræða hans var ekki svar við áliti okkar í meiri hl. nefndarinnar. Við teljum það rétt, úr því sem komið er, að samþ. þetta frv., þó að við teljum ýmislegt athugavert við það að staðfesta þessi brbl. Við viðurkennum þá nauðsyn, sem lá að baki því, að þessar ráðstafanir voru gerðar, vetrarsíldina hér í Hvalfirði, og við erum ekki að gagnrýna sjálfa hugmyndina, síður en svo. Þess vegna var ræða hæstv. sjútvmrh. svar við nál. minni hl. n. og verður ekki skrifuð á okkar reikning.

En við hv. frsm. minni hl. vildi ég segja þetta: Ég er hræddur um, að það gæti nokkurs misskilnings hjá honum í þessu efni, ef hann telur þetta ekki far. Í því sambandi vil ég leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta, skilgreiningu á skipi skv. l. um eftirlit með skipum, nr. 68 1947, en þar segir í 1. gr.: „Skip er sérhvert fljótandi far, nema annars sé getið.“ Og nú er þetta fljótandi far skv. því. Jafnvel fljótandi flutningaprammar, sem dregnir eru milli staða, eru för, sem sagt, hvernig sem það er hvort það er verksmiðja eða eitthvað annað, þá er það fljótandi, og því er það far. Þess vegna er það misskilningur hjá , hv. þm., ef hann heldur, að hægt sé að undanskilja, að þetta skip sé far. Nú er búið að skrásetja það og setja undir íslenzkan fána, en til þess að það sé hægt þá hlýtur að vera um skip að ræða. Um hitt er ég sammála, að tilætlunin er að flytja það milli hafna eftir þörfum, þar sem það hefði þar bækistöð um lengri eða skemmri tíma. Ég minnist þess ekki í umr. hér áður, að menn teldu ekki kost, að hægt yrði að hreyfa skipið hafna milli, — það er einmitt það, sem við höfum alltaf reiknað með. En hins vegar tek ég undir það með minni hl., að ef annað kemur í ljós og skipið er ekki eins og það á að vera, þá er ég ekki með því, að það verði í förum. Ég vil benda á eitt atriði, sem við þekkjum raunar allir, að t.d. Norðmenn hafa mjög margar fljótandi hvalvinnslustöðvar, sérstaklega í Suðurhöfum, en þau skip uppfylla allar þær kröfur, sem gerðar eru til haffærra skipa. Alveg á sama hátt verður að gera sömu kröfur um skip, að þau séu haffær, þó að það séu fljótandi verksmiðjur til síldarvinnslu. — Ég vildi aðeins undirstrika þetta, en vil ekki ræða það frekar, en það er ekki hægt að komast hjá því, að skipið fullnægi þeim skilríkjum, sem krafizt er um skrásett skip.