22.04.1949
Neðri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í C-deild Alþingistíðinda. (4130)

181. mál, landskiptalög

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Mér er það ljóst, að frsm. landbn., hv. 1. þm. Skagf., hefur skilning á því, að ekki sé óeðlilegt, að slík brtt. komi fram, og finnst mér því undarlegt, að n. skuli leggja á móti því, að þessi meinlausa till.samþ. Hv. frsm. benti á það, að 19. gr., eins og hún er í l. frá 1941, hafi verið orðuð svo af ráðnum hug til þess að knýja fram landskipti yfirleitt alls staðar þar, sem sameignarland er. Lög þessi hafa nú verið í gildi síðan 1941, og reynsla sú, sem fengizt hefur, er, að landskipti hafa ekki átt sér stað nema á tiltölulega fáum stöðum, eða sú er a. m. k. reynslan á þeim stöðum, sem ég þekki til. Mér finnst sjálfsagt að setja eigendum eða umráðamönnum jarða það í sjálfsvald, hvort þeir skipta landi sínu með sér, og ekki rétt af löggjafarvaldinu að knýja þá til slíks, og ætti þar að nægja, að þeir væru hvattir til þess. Ef brtt. mín verður samþ., þá orkar það ekki tvímælis, að auðvelt verður að komast hjá vandræðum, því að þá yrði eftir sem áður sá maður, sem ætlaði að taka land til ræktunar, að leita samkomulags hjá öllum hinum eigendunum, og er það eðlilegast, að þeir, sem ráða landinu, hafi vald til þess að leyfa það eða banna, eins og þeir hafa vald til að skipta landinu með sér, ef þeir koma sér saman um það, en ef einhver ágreiningur rís, þá kemur af sjálfu sér, þó að mín brtt. verði samþ., að kalla verður óvilhalla menn til þess að skera úr ágreiningnum. Hv. frsm. ræddi aðallega um lönd til ræktunar, en ég vil vekja athygli á því, að brtt. mín snertir fleira en ræktunarlönd, því að í gr. stendur: „Enginn má eftir gildistöku þessara laga taka land til ræktunar, setja upp varanlega girðingu, gera skurð, byggja hús eða önnur varanleg mannvirki, þó að samþykki allra annarra hlutaðeigenda liggi fyrir.“ Nú, hvað sem líður skiptum á landi til ræktunar, þá virðist það óeðlilegt, að menn geti ekki ráðstafað því, hvort byggt sé hús eða girðing í óskiptu landi, ef samkomulag næst á milli hlutaðeigandi eigenda. Þá er álitamál, hvað er átt við með varanlegri girðingu. Venjulegast mun að nota gaddavír, því að óvenjulegt mun nú vera, að hlaðnir séu garðar, og ef til kæmi, að þyrfti að hreyfa slíkt, þá er það tiltölulega auðvelt. Um þetta atriði segir í 12. gr.: „Nú kemur í ljós við skiptin, að flytja þarf hús, girðingar eða önnur færanleg mannvirki, og kveður skiptanefnd á um, innan hvers tíma flutt skuli og hver skuli kosta flutninginn eða hvernig flutningskostnaði skuli skipt niður.“ En nú skal bent á það, að hvað snertir hús er þetta ákvæði næstum áframkvæmanlegt, og skal ég taka dæmi um það. Það er alveg rétt, eins og hv. 1. þm. Skagf. sagði, að venjulega er túni og engjum skipt, en því er öðruvísi varið með beitiland. Við skulum segja, að einhver maður vilji byggja peningshús í beitilandi og það sé óskipt, þá er það óheimilt samkvæmt 19. gr. laganna, jafnvel þótt samkomulag allra hlutaðeigenda komi til. Það verður því fyrst að skipta og hver svo að byggja í sínu landi. En það er erfitt að skipta beitilandi, þar sem þau eru svo misjöfn að gæðum, og auk þess verður svo hver aðili að girða sitt land, en slíkt er lítt framkvæmanlegt og veldur auk þess óþægindum. En það er sleginn varnagli við þessu í l., þar sem gert er ráð fyrir, að um viss ítök sé að ræða í beitilandinu, en ekki skipti með girðingu. Ég geri ráð fyrir, að það sé ljóst, að eins og þessi ákvæði eru nú í 19. gr., er þetta með tilliti til beitilanda mjög erfitt í framkvæmd, að ég ekki segi óframkvæmanlegt, en með brtt. er þetta allt miklu frjálsara og í eðlilegra formi, þar sem allir jarðeigendur geta leyft, að byggt sé hús á óskiptu sameignarlandi. — Ég hef nú tekið það helzta fram, sem ég vildi segja, og því óþarft að hafa fleiri orð um þetta.