29.04.1949
Neðri deild: 95. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í C-deild Alþingistíðinda. (4141)

198. mál, iðnskólar

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. Það er saga þessa máls, að þegar mþn. í skólamálum hafði lokið við að semja frv. um hið almenna skólakerfi og þegar þau frv. höfðu verið lögfest hér á þingi 1946, þótti tímabært að hefjast handa um endurskoðun l. fyrir hina ýmsu sérskóla, og var þá fyrst fyrir hendi að athuga iðnskólana: Gildandi lagafyrirmæli um þá skóla voru, að ég álít, næsta ófullkomin og ekki hægt að segja, að til væri nein heildarlöggjöf um þá, enda hefur frá hálfu þm. þráfaldlega verið leitað til Alþingis um að setja löggjöf um starf þessara skóla. Á þingunum 1941, 1942 og 1943 munu slík frv. hafa verið lögð fram. Það er því ekki ófyrirsynju, að n. hófst fyrst handa um iðnskólana, þegar farið var að hugsa um sérskólana yfirleitt.

Þetta frv. var afhent ríkisstj. 1947 og hefur legið á hennar vegum síðan: Fyrir fáum dögum barst það menntmn. frá hæstv. menntmrh. með ósk um, að n. legði málið fram. Öllum er ljóst, að það eru litlar líkur til, að málið verði afgr. á þessu þingi, því að flestir þm. munu vona, að brátt fari að draga að þinglokum. En tilgangurinn með því að leggja þetta frv. fram er fyrst og fremst, að þm. og öðrum gefist tækifæri til að kynnast frv., og gæti það náttúrlega greitt fyrir meðferð þess og framgangi á næsta þingi. Menntmn. taldi sjálfsagt að verða við þessari beiðni og leggja frv. fram, þó að hún væri ekki við því búin eða einstakir nm. að taka sína afstöðu til þess, hvorki í heild né einstökum atriðum.

Ég tel ekki ástæðu til að fara frekar orðum um þetta frv. á þessu stigi, sérstaklega þar sem ég geri ekki ráð fyrir, að þingið muni gera því nein veruleg skil að þessu sinni, en hitt þykir mér þó gott, að málið hefur komið fram, og vænti ég, að það geti orðið til þess, að næsta þing taki það upp og afgr. það.