02.05.1949
Neðri deild: 96. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í C-deild Alþingistíðinda. (4145)

200. mál, rafveitulán Hólshrepps

Flm. (Sigurður Bjarnason) :

Herra forseti. Í undanfarin 30 ár hefur verið unnið að undirbúningi vatnsvirkjunar fyrir Bolungavík. Þetta er þó ekki komið lengra áleiðis en það, að 1929 var byggð stífla. Þá hafði fengizt vilyrði fyrir fé, og var því ráðizt í þessar framkvæmdir, en þegar til kom, fékkst lánsféð ekki, og framkvæmdir stöðvuðust og hafa legið niðri síðan. Fyrir nokkru fékkst svo loforð um ríkisábyrgð fyrir 2 millj. kr. láni, sem Hólshreppur tæki, en þegar þetta loforð var fengið og átti að fara að afla fjárins, kom í ljós, að lánsstofnanirnar höfðu ekkert fé aflögu. Við þetta hefur svo setið síðan, að ekkert lánsfé hefur fengizt þrátt fyrir ríkisábyrgðina og því ekki verið hægt að hefja framkvæmdir.

Það er ekki ástæða til þess að fara að rekja hér hinar almennu ástæður fyrir þeirri lánsfjárkreppu, sem hér hefur verið s. l. 2 ár og hefur stöðvað ýmsar nauðsynlegar framkvæmdir. Mér finnst liggja í augum uppi, að sjálft ríkisvaldið á þar nokkra sök á, þar sem það hefur fest svo mikið af fé bankanna og hefur þannig um leið þrengt hag einstaklinga, bæjar- og sveitarfélaga. Undirbúningsnefnd Hólshreppsrafvirkjunarinnar telur, að ef hreppurinn gæfi út skuldabréf, sem væru undanþegin skattskyldu, þá mundi vera mögulegt að selja slík bréf, og þess vegna var farið fram á það við míg að flytja þetta mál hér.

Ég skal svo ekki hafa um þetta mörg orð. Hv. þm. vita, að stundum eru veittar ýmsar undanþágur, og ég tel sögu þessa máls á þá leið, að slík undanþága sem hér er farið fram á sé fyllilega verjanleg. Ég hygg, að öllum sé það ljóst, að ekki muni þýða að reyna að selja þessi skuldabréf á almennum verðbréfamarkaði nema með því móti, að þessi undanþága verði veitt. Að lokum vil ég benda á það, að í Bolungavík, sem nú er næststærsta þorp Vestfjarða, stendur rafmagnsskorturinn fiskiðnaðinum algerlega fyrir þrifum, en útgerð hefur aukizt þarna geysilega mikið nú hin síðari ár, og sjórinn er sóttur þaðan af hinum mesta dugnaði. Þarna eru góðar aðstæður til rafvirkjunar, sem næmi 700–1000 hestöflum, en sú rafvirkjun þýddi aukinn iðnað á staðnum, og verðmæti útflutnings staðarins mundu aukast að miklum mun.

Ég æski þess svo að umr. loknum, að málinu verði vísað til 2. umr. og fjhn.