11.05.1949
Efri deild: 103. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í C-deild Alþingistíðinda. (4163)

201. mál, innflutningur búfjár

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil fyrst benda hæstv. ráðh. á það, að l. um innflutning búfjár þurfa alls ekki að hafa verið sett í þeim tilgangi, er hann gat. Áður voru til tvenn l., og fleiri þó. En þar vantaði öll ákvæði um sóttvarnir. Þess vegna þurfti að sameina ákvæðin. En það, að búnaðarþing mælti með þessu, var eigi í því skyni að greiða fyrir innflutningi búfjár, heldur til að tryggja, að eigi sé farið eftir neinni vitleysislöggjöf, og dýrin skyldi hafa í sóttkví og skyldu vera 6 vikur í hverri einangrun. Þess vegna voru l. sett, og sýna þau því engan vilja búnaðarþings, heldur sýna, að Búnaðarfélagið vildi gæta þess, að heilbrigt, sjálfsagt eftirlit væri í lagi, en því hefur ráðuneytið nú ekki komið í lag enn, eins og ég drap á í fyrri ræðu minni. Og þar með tel ég hæstv. dómsmrh. svarað með allt sitt karakúltal, en hefði Alþingi borið gæfu til að fara að ráðum okkar Metúsalems Stefánssonar og lofað að standa í lögunum, að hafa skyldi innflutt sauðfé í sóttkví í eyjum árlangt, þá væri nú ekki að tala um neinar karakúlpestir.

Aldrei hefur neitt verið gert varðandi framgang l. um innflutning búfjár, hvorki af núverandi hæstv. ríkisstj. né öðrum, og ekkert fé hefur verið veitt til að koma upp sóttvarnarstöð. (Dómsmrh.: Er þá nokkurt vit að fara að flytja það inn?) Nei: Hefðu l. verið sett, eins og þau upprunalega voru, með tveggja ára einangrun í eyju, þá hefði málið horft allt öðruvísi við.

Ég vil vera stuttorður, en vil benda hæstv. atvmrh. á, að það er alger misskilningur, að búnaðarþing vilji flytja inn fé. Hitt er svo annað mál, að þessi innflutningur getur verið ákaflega hagkvæmur fyrir bændur, ef nógur fóðurbætir fæst. Er það gefinn hlutur, t. d. hér í Reykjavík, á Korpúlfsstöðum, að fá af völdu kyni hollenzku 5.000 1 af mjólk með fóðurbætisgjöf, sem kostar innan við 1 kr. kg erlendis frá, og kýrin gefur 2–3 l. mjólkur fyrir hvert kg. fóðurbætisins. Getur hér orðið ákaflega mikill gróði. (HV: Er bara ekki betra, að Reykjavíkurbær setji á stofn bú í Danmörku?) Jú, það gæti verið mjög hagkvæmt. En hvort það yrði hagkvæmt fyrir þá, sem selja mjólk framleidda á töðu með núverandi kaupgjaldi, er annað mál. Enn getur það verið mjög hagkvæmt að kaupa aðeins fóðurbæti — fyrir einstaka menn, en við vitum, að þjóðhagslega séð er eigi hagur að því.