07.05.1949
Neðri deild: 103. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í C-deild Alþingistíðinda. (4182)

206. mál, húsnæði o.fl.

Flm. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Frv. þetta er, eins og fram kemur í grg., samið af Leigjendafélagi Reykjavíkur og var á sínum tíma sent til allshn. með beiðni um, að hún flytti þetta frv., en það hefur ekki orðið samkomulag um það. Hins vegar taldi ég rétt, að þetta frv. yrði lagt fyrir þingið, til þess að þm. gæfist kostur á að kynna sér það og enn fremur vegna þess, að í frv. eru margar og miklar till. til úrbóta í þessu máli.

Höfuðatriði frv. er það í fyrsta lagi, að gert er ráð fyrir, að fram fari skrásetning á íbúðum, svo að fáist heildarmynd um ástand leiguíbúða í hverju héraði fyrir sig, og þetta sé gert í því skyni að hafa fullt kontrol með, að ekki sé tekin ólögleg húsaleiga og að ekki séu leigðar út íbúðir, sem taldar eru gersamlega óhæfar og heilsuspillandi, og að það opinbera geti blandað sér í og komið í veg fyrir slíkt, ef ástæða þykir til, svo að bætt verði úr verstu ágöllunum, svo að ekki sé bráð hætta að því. Þessi flokkun hefur líka aðra þýðingu, því að hún er undirstaða þeirra ráðstafana, sem gera á samkv. II. kafla, sem er um takmörkun á húsnæði með stóríbúðaskatti, en þar segir, að fjölskylduíbúð megi vera — til þess að lenda ekki í skatti — 50 fermetrar að gólffleti að viðbættum 16 fermetrum á hvern meðlim fjölskyldu, sem er umfram tvo og kominn er yfir 7 ára aldur. Þarna er dregið frá gangar og þess háttar, svo að þetta er mjög sæmileg íbúð og stærri en almennt gerðist fyrir stríð, en af hverjum fermetra, sem er umfram þetta, sem segir í gr., á að borga 300 krónur á ári, og á þessi skattur ekki fyrst og fremst að verða til þess að afla tekna, heldur til þess, að menn sjái sér ekki fært að búa í óhóflega stórum íbúðum og láti þá hluta af íbúð sinni öðru fólki í té. Hér eru víða fjölskyldur, sem búa í geysistórum íbúðum, sem reistar voru í stríðinu, en skrásetning og flokkun íbúða samkv. I. kafla verður nokkurs konar grundvöllur þessa stóríbúðaskatts. Nú er gert ráð fyrir, að það fólk, sem vill berast ákaflega mikið á, megi gjarna hafa stórar íbúðir, en þar sem það er mjög óheppilegt þjóðfélagslega séð, þá á að leggja á þennan skatt, en hann skal renna í viðkomandi bæjar- eða hreppssjóð og verður hluti af framlagi þessara aðila til útrýmingar heilsuspillandi íbúða samkv. l., sem sett voru í tíð fyrrverandi ríkisstj., en eins og kunnugt er, hefur sá kafli l., sem fjallar um þetta, raunverulega verið felldur úr gildi, með því að núv. ríkisstj. ákvað að leggja ekki annað fé fram í þessu skyni en það, sem hverju sinni yrði veitt á fjárl. Þetta er ósköp sakleysislegt, en nú er svo komið, að ekkert fé er veitt í þessu skyni, en í þessu frv. er gert ráð fyrir, að bæjar- og sveitarfélög leggi fram fé til útrýmingar heilsuspillandi íbúða, og er þá auðvitað miðað við, að ríkissjóður leggi sinn skerf fram líka.

III. kafli er um leigu, og eru höfuðákvæði hans þau að ákveða fasta leigu, og er miðað við brunabótaverð, þannig að í 1. flokki skal leigan vera 6% af brunabótaverði, en það mun vera heldur lægra en húsaleiga er metin nú. Í 2. flokki á leigan að vera 5%, en í 3. flokki, sem eru gallaðar íbúðir, skal leigan vera 3%. Þetta gerir einfaldari alla framkvæmd á eftirliti með húsaleigu, þannig að síður er hætta á okri. — Síðan eru nokkur ákvæði um húsaleigunefnd og verksvið hennar, sem miða að því að greiða deilur húseigenda og leigjenda á einfaldari og hraðvirkari hátt en nú á sér stað. — Ég hef þá getið höfuðatriða frv. og legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.