17.05.1949
Neðri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í C-deild Alþingistíðinda. (4190)

210. mál, símaframkvæmdir

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hv. þm. Ísaf. sagðist vera andvígur þessu frv. Mér skilst þó, að hann sé ekki á móti málinu, heldur blandi því saman við annað skylt mál, þó ekki svo skylt, að blanda eigi því hér inn í. Hv. þm. sagði, að sveitasímar kæmu ekki að gagni, ef langlínur símans væru í ólagi. Ég vil taka undir það með hv. þm., að þær eru í megnasta ólagi, en það er bara annað mál, sem ekki má blanda saman við sveitasímana. Þá tók hv. þm. Ísaf. einnig fram, að áður en þessi l. yrðu samþ., þyrfti fyrst að vita, hvar þörfin fyrir síma væri mest. Ég hygg, að þetta sé alveg ástæðulaust, þar sem þetta eru aðeins heimildarlög, og býst ég við, að hæstv. ríkisstj. leiti álits sérfræðinga, t. d. póst- og símamálastjóra, áður en framkvæmdir eru hafnar. Þó er ekki þar með sagt, að álit hans eigi alveg að ráða í þessum málum. T. d. ef eitt sveitarfélag býður fram fé til framkvæmda, en annað hefur ekki fjármagn, en þó mun brýnni þörf fyrir símann, þá álít ég, að nota eigi heimildina til þess að veita því sveitarfélagi símann. Þá kom hv. þm. inn á, að nú mundi vera búið að ákveða, hve mikið símaefni yrði flutt inn á þessu ári. Þetta mun vera alveg rétt, en eru þó engin rök gegn þessu máli, því að ég geri ekki ráð fyrir, að hægt yrði að nota heimildina á þessu sumri, þótt hún nú yrði samþ. Til þessara framkvæmda þarf svo mikinn undirbúning. En ef heimildin yrði samþykkt nú, þá gæti það kannske orðið til þess, að hægt yrði á næsta sumri að hefja framkvæmdir. Ég held því, að það sé nauðsynlegt fyrir hv. þm. að samþykkja þetta nú.

Þá hygg ég, að ég sé búinn að svara öllum þeim mótbárum, sem hv. þm. kom með. Mér skilst nú samt, að í rauninni séum við sammála um höfuðatriði málsins. Það eina, sem á milli mála fer, er, að hann hyggur, að nauðsynlegt sé, áður en í þessar framkvæmdir er ráðizt, að lagfæra langlínur símans betur en gert hefur verið, en það tel ég vera annað mál.