02.11.1948
Efri deild: 7. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (4194)

32. mál, vegalagabreyting

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Það er raunar óþarfi að fara mörgum orðum um þetta frv. á þessu stigi, en ég vil þó láta í ljós, að gefnu nokkru tilefni frá hv. 1. þm. N-M., þar sem hann bendir á, að brtt. séu fram komnar í Nd:, og vekur athygli á því, að samvinna þurfi að vera milli samgmn. deildanna. Þetta er alveg rétt athugað, því að vegalögin eiga þeim annmarka að sæta, að í báðum deildum koma jafnan fram óskir um að fá bætt inn í þau, og veldur þetta oft nokkrum erfiðleikum. Hitt álít ég um umsögn hans um, að afgreiðsla þessa máls hafi verið í handaskolum áður, þá eigi það sínar afsakanir, af því að um breyt. á vegalögunum er kapphlaup í báðum deildum. Hitt er alltaf tilviljanakennt nokkuð, hvort þessi eða önnur breyting kemst fyrst fram, því að það er alltaf álitamál, hvort opna eigi vegalögin á þessu þingi eða öðru. Ef niðurstaðan verður sú, að vegalögin verði opnuð á Alþingi, þá er óvandur eftirleikurinn fyrir þá, sem vilja flytja brtt., og hvort þær verða teknar inn, fer þá eftir því, hver á réttmætasta og sanngjarnasta kröfu. Um þetta frv. kemur það á daginn, hvort áherzla verður lögð á það af vegamálastjórninni eða ekki, að lögin verði opnuð. Þetta verður náttúrlega athugað hjá samgmn. beggja deilda og reynt að komast að þeirri niðurstöðu, hvort þetta frv. miðar að því, sem sanngjarnt reynist. Þetta vildi ég aðeins taka fram á þessu stigi málsins.