04.11.1948
Efri deild: 8. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í C-deild Alþingistíðinda. (4198)

45. mál, skipaafgreiðsla í Vesmannaeyjum

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Sökum þess að hv. flm. virðist byggja þetta frv. á samþykkt í bæjarstjórn Vestmannaeyja, sem gerð var fyrir þrem árum, eða árið 1945, langar mig til að fá upplýst, hvort frv. er nú flutt fyrir beiðni bæjarstjórnarinnar, því að maður getur látið sér detta í hug, að breytingar geti orðið á samþykktum sem þessari á svo löngum tíma. Með því að hv. flm. gat þess, að með frv. væri bæjarfélaginu tryggður nýr tekjustofn, þá vil ég vekja athygli á því, að þeim mönnum, sem leggja til, að starfsemi sem sú, er um ræðir í frv., verði lögð undir bæjarfélög, gleymist oft, að bæjarfélögin hafa sínar tekjur af slíkri starfsemi með því að skattleggja þá einstaklinga, er hana framkvæma. Það er nú svo, að um það má deila, hvort þeir menn, sem tekið hafa að sér slíka starfsemi fyrir bæjarfélagið, hafi af því nokkurn gróða og hvort þeir séu ekki í raun og veru að vinna endurgjaldslaust fyrir bæjarfélagið. Og að lokum langar mig til að fá upplýst, hvort hér sé um nýja beiðni frá bæjarstjórn Vestmannaeyja að ræða.