18.10.1948
Efri deild: 4. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

17. mál, kjötmat o.fl.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. er gamall kunningi frá síðasta þingi, en var þá ekki útrætt. Í grg., sem því fylgdi, er skýrt frá aðalbreytingunum, sem í því eru fólgnar frá núgildandi lögum, og skal ég ekki fjölyrða um þær, en stikla aðeins á stóru.

Gildandi lög eru frá 1933, og er þeim í ýmsu alláfátt, einkum vegna þess, að í þeim er miðað við mat til útflutnings aðallega, en ekki við innlendan markað. Nú hefur sú breyting orðið, að lítið sem ekkert er flutt út, en nærri allt kjöt selt á innlendum markaði, en engin ástæða er til að taka léttar á mati fyrir innlendan markað, og aðalbreytingin hnígur því að því að samræma matið á báðum mörkuðum.

“Sumarið 1947 fól ég kjötmatsmönnum og Kristjóni Kristjónssyni fulltrúa að gera þær breyt. á l., er þeir teldu þurfa. Þeir komust að þeirri niðurstöðu, að svo miklu þyrfti að breyta, að réttast væri að semja ný lög og það frv. liggur nú hér fyrir. — Höfuðbreytingin sem, sem sagt sú að bæta hið innlenda kjötmat og fá heimild til að löggilda kjötskoðunarmennina og skipa einn kjötmatsformann úr þeirra hópi. Með lögunum frá 1933 er aðeins gert ráð fyrir þremur kjötmatsmönnum, en reynslan er sú, að það hefur orðið að skipa fjóra, og fjölgun þeirra er þannig aðeins viðurkenning á núverandi þörf, en auk þess ætlazt til, að skipaður verði einn kjötmatsformaður til þess að vinna að samræmingu matsins um land allt og að laun hans verði þá ofurlítið hærri.

Þetta er þá aðalefni frv., og vona ég, að það fái afgreiðslu á þessu þingi, og legg til, að því verði að loknum umr. vísað til 2. umr. og landbn.