25.11.1948
Efri deild: 20. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í C-deild Alþingistíðinda. (4213)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gísli Jónsson:

Hv. þm. N-M. talaði hér langt mál, en ég skal vera stuttorður. Ég vil benda á það, að það er rangt, sem hv. þm. sagði, að einu skattafríðindin, sem samvinnufélögin hefðu, væru þau, að þau greiddu ekki skatt af þeim arði, sem þau úthlutuðu til viðskiptamanna sinna. Það má ekki leggja nema 8% á gróða þeirra í stað 22% hjá öðrum fyrirtækjum. Auk þess greiða þau ekki útsvör nema fyrir viðskipti utanfélagsmanna. Þetta vill gleymast, en hv. þm. ætti að vita þetta sem hæstaréttardómari í þessum málum. Hv. þm. er kannske líka ókunnugt um það, að Samband ísl. samvinnufélaga er að knýja út sparisjóðsfé úti á landi og er með því að velta sparisjóðunum í þessum fámennu þorpum. Og þessi fyrirtæki eiga að hafa sérstök fríðindi í skattamálum! Það gefst kannske tilefni til þess að ræða þessi mál nánar síðar, en ég skal ekki fara frekar út í þau nú, samkvæmt ósk hæstv. forseta.